Jóhann Baldvinsson hlaut Garðsteininn fyrir árið 2023

Árið 2010 ákvað Rótarýklúbburinn Görðum að veita árlega sérstaka viðurkenningu aðila eða hópi á klúbbsvæðinu, sem að mati stjórnar hefur sýnt framúrskarandi störf í þágu bæjarbúa. Viðurkenning þessi nefnist “Garðasteinninn” og er hönnuður hans félagi okkar í klúbbnum, Manfreð Vilhjálmsson, arkitekt.

Í síðustu viku var síðasti fundur þessa starfsárs í Rótarýklúbbnum og þá var Garðsteinninn afhentur sem er viðurkenn- ing fyrir góð verk í Garðabæ eins og áður kom fram. Einnig voru á fundinum afhentir tveir styrki upp á samtals 1.000.000 kr. til tveggja fallegra verkefna.

Rótarýklúbburinn Görðum hefur ákveðið að Jóhann Baldvinsson hljóti Garðasteininn árið 2023 fyrir að auðga mannlíf í Garðabæ með framúrskarandi störfum í þágu tónlistar- og safnaðarstarfs í bænum.

Jóhann Baldvinsson er fæddur árið 1957 á Akureyri. Samhliða grunnskólanámi hóf hann tónlistarnám sjö ára gamall við Tónlistarskólann á Akureyri. Að námi loknu árið 1984 flutti hann til Reykjavíkur og hóf nám við Kennaraháskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík. Því næst hélt hann til Aachen í Þýskalandi, þar sem hann stundaði framhaldsnám með áherslu á kór- og hljómsveitarstjórn. Árið 1987 flutti Jóhann heim ásamt konu sinni og börnum og settust þau að á Akureyri. Þar tók hann að sér orgelleik og kórstjórn við Glérárkirkju og sinnti jafnframt kennslu við Síðuskóla.

Rótarýklúbburinn Görðum ákvað að Jóhann Baldvinsson hljóti Garðasteininn árið 2023 fyrir að auðga mannlíf í Garðabæ með framúrskarandi störfum í þágu tónlistar- og safnaðarstarfs í bænum.

Jóhann flutti ásamt fjölskyldu sinni í Garðabæinn árið 1997, þegar hann tók að sér starf organista og kórstjóra við Vídalínskirkju og Garðakirkju. Hann hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum og hefur með störfum sínum lagt mikilsverðan skerf til tónlistar- og safnaðarstarfs í bænum. Þar má einkum nefna störf hans við tónleikahald í kirkjum Garðasóknar, aðkomu hans að stofnun Garðakórsins, kórs eldri borgara í Garðabæ, og þátttöku hans og kirkjukórs Vídalínskirkju í Jónsmessuhátíðinni í Garðabæ um árabil. Eiginkona Jóhanns er Guðrún Þórarinsdóttir, víóluleikari í Sinfoníuhljómsveit Íslands, en auk þess leikur hún með Kammer Arctica og kennir við Tónlistarskóla Garðabæjar.

Jóhann Baldvinsson hefur þannig lagt gjörva hönd á umfangsmikið og öflugt félags- og menningarstarf í Garðabæ um langt árabil og er hann því vel kominn að viðurkenningu Rótarýklúbbsins Görðum með afhendingu Garðasteinsins.

Rótarýfélagar óska honum til hamingju með viðurkenninguna og óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar í starfi og leik um ókomin ár.

Ingimundur Sigurpálsson formaður verðlaunasjóðs Rótarýklúbbsins Görðum afhenti Jóhanni Garðasteininn á síðasta fundi starfsársins sem fram fór í Ólafslundi 5. júní sl.

Forsíðumynd: Stella Stefánsdóttir forseti Rótarýklúbbsins Görðum, Jóhanna Baldvinsson handhafi Garðasteins 2023 og Ingimundur Sigurpálsson formaður Verðlaunasjóðs Rótarýklúbbsins Görðum. Ingimundur afhendir Garðasteininn

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar