Í Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum er lögð áhersla á hreyfingu utan- og innandyra og á þessu skólaári hefur einnig verið meira um jógakennslu fyrir börn.
,,Börnin á miðstigi hafa fengið jógakennslu í lotum og í lok annar verður búið að bjóða öllum börnum skólans í jógatíma ásamt kennurum. Hóparnir eru litlir og farið er í öndunaræfingar, jógastöður, jógaleiki og slökun. Hugleiðslusögur eru einnig mikið notaðar sem og samvinnuæfingar,” segir Anna Margrét Ólafsdóttir, skólastýra á Barnaskóla Hjallastefnunnar, en starfsfólki skólans hefur einnig gefist kostur á að fara í jógatíma, kakó athöfn og Gong slökun eftir að vinnu lýkur.
,,Jógaiðkun getur stuðlað að bættu jafnvægi, bættri öndun sem stuðlar að betri líðan og meiri liðleika og styrks. Jóga getur einnig haft jákvæð áhrif á meltingu, einbeitingu og samskipti. Það er mikil og jákvæð viðbót að geta boðið börnum skólans upp á jógaiðkun með sínum kennurum,” segir hún.
Það er mikil og jákvæð viðbót að geta boðið börnum skólans upp á jógaiðkun með sínum kennurum segir Anna Margrét