Í júní byrjuðu tveir nýir starfsmenn á Hönnunarsafni Íslands. Bóel Hörn Ingadóttir tók við sem sérfræðingur safneignar og Snorri Freyr Vignisson byrjaði sem sumarstarfsmaður.
Garðapósturinn tók þau tali í pappírsgeymslu safnsins en þau hafa síðastliðnar vikur unnið að endurskipulagningu geymslunnar. „Ég byrjaði á því að skrá niður allt í geymslunni, nákvæmlega hvar það er geymt og hvað væri í hverjum kassa. Þegar það var búið byrjuðum við Bóel að endurraða og pakka. Við erum búin að vera að því í um það bil þrjár vikur og erum núna á lokasprettinum. Þetta er því búin að vera mikil vinna en alveg svakalega gaman og mjög ánægjulegt að sjá erfiði vinnu sinnar koma svona saman. Það er búið að vera sérstaklega áhugavert að skoða allar þessar teikningar sem eru í geymslunni,“ segir Snorri en í ágúst heldur hann til Vínar í mastersnám í arkitektúr.
Í pappírsgeymslunni leynast margskonar mikilvægir pappírar sem tengjast hönnunarsögu Íslands. Til að mynda frumteikningar af húsum eftir Manfreð Vilhjálmsson, Högnu Sigurðardóttir og Jes Einar Þorsteinsson sem og gögn og teikningar eftir grafísku hönnuðina Gísla B. Björnsson og Kristínu Þorkelsdóttur. „Það er mikilvægt að geymslan sé vel skipulögð. Þá sjáum við betur hvað við eigum í safneigninni og getum betur varðveitt öll þessi gögn, sem er náttúrulega gríðarlega mikilvægt þar sem starf okkar á Hönnunarsafninu er að varðveita fyrir framtíðina. Aðeins hluti af teikningasafninu er skráð en skráning á safni sem þessu er endalaust verkefni. Nú í haust verðum við einmitt með opið skráningarverkefni þar sem gestir geta fylgst með skráningu á teikningum eftir Lothar Grund. Hann var sviðsmyndahönnuður sem hannaði meðal upprunalegt útlit herbergja og veislusala á Hótel Sögu,“ segir Bóel.
Verkefnið mun hefjast í október og verður í rannsóknarrými safnsins. Safnið er opið alla daga, nema mánudaga, frá 12-17.