Öðruvísi orka yfir bikarleikjum og allt getur gerst

Eftir skemmtilega keppni og nokkuð óvænt úrslit í Mjólkurbikar kvenna í sumar þá er komið að úrslitastundu er Breiðablik mætir Víkingi í lokaleik bikarkeppninnar á Laugardalsvelli föstudaginn 11. ágúst kl. 19.

Breiðablik fór nokkuð létt í gegnum fyrstu tvær umferðir bikarkeppninnar í ár, en liðið vann Fram sannfærandi 7-0 og svo unnu þær Þrótt 3-0. Í undanúrslitum höfðu þær svo betur gegn Stjörnunni í hörkuleik, en leikurinn var útkljáður í vítaspyrnukeppni. Toppliðið í Lengjudeildinni, Víkingur, hefur aftur á móti komið nokkuð á óvart, en liðið vann nokkuð sannfærandi sigur í fyrstu tveimur umferðunum og í 16 liða úrslitum unnu þær síðan KR 4-1 áður en liðið sló út tvö Bestu-deildarlið í 8 og 4-liða úrslitum. Þær unnu Selfoss 2-1 og svo sigruðu þær einnig spútniklið Bestu-deildarinnar FH, 2-1 í Kaplakrika, en Breiðablik gerði jafn-tefli við FH sl. laugardag í Bestu-deildinni. Það er því alveg ljóst að Víkingsliðið er sýnd veiði en ekki gefin.

Stolt af liðinu að fara í sinn þriðja úrslitaleik í röð

Þetta er þriðja árið í röð sem Breiðablik fer í úrslitaleik Mjólkurbikarsins og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði liðsins var spurð að því hvort þær væru ekki orðnar nokkuð sjóaðar að mæta í bikarúrslitaleiki – þið vitið í raun að hverju þið gangið? ,,Ég er mjög stolt af liðinu fyrir að vera að fara í sinn þriðja úrslitaleik í röð. Bikarúrslitaleikir eru skemmtilegustu leikir sumarsins og eitthvað sem öll lið stefna að. Við erum með leikmenn sem þekkja þetta, en líka leikmenn sem hafa aldrei spilað bikarúrslitaleik þannig við þurfum að vinna vel saman og undirbúa okkur vel og rétt,” segir Ásta Eir.

Er komin spenna í Blikaliðið fyrir úrslitaleikinn, alltaf gaman að mæta á Laugardalsvöll? ,,Já, mikil spenna. Eins og ég sagði áðan þá eru þetta svo skemmtilegir leikir þannig að spennan er jú orðin mjög mikil.”

Þið eruð að mæta Lengjudeildarliðinu Víkingi í úrslitaleiknum og margir reikna með sigri ykkar, en Víkingur er sýnd veiði en ekki gefin? ,,Ég held að þetta verði mjög skemmtilegur og spennandi leikur. Víkingsliðið hefur verið að gera frábæra hluti í Lengjudeildinni og eru með marga mjög góða og hættulega leikmenn. Við undirbúum okkur eins fyrir þennan leik og alla aðra og mætum í leikinn að sjálfsögðu til að vinna.”

Óttast ekki vanmat

Svona út frá stöðu liðanna þar sem þið eruð á toppi Bestu-deildarinnar og Víkingur á toppi Lengjudeildarinnar, er þá ekki stór þáttur í þessu að stilla andlegu hliðina hjá ykkur, að það verði ekkert vanmat undir niðri, óttastu það? ,,Nei, ég óttast ekkert vanmat, það bara þýðir ekki einu sinni að fara þangað. Það er oft öðruvísi orka yfir bikarleikjum og allt getur gerst þar. Þetta eru tvö góð lið að mætast og við þurfum að vera tilbúnar að mæta þeim.”

Og þið hafið verið að bæta við leikmönnum í glugganum m.a. sóknarmönnunum Linli Tu og Sólveigu Larsen, er þetta góð viðbót við hópinn? ,,Já, við erum aðeins að stækka hópinn okkar núna og ég efast ekki um að nýju leikmennirnir munu bæta okkar lið. Við erum jú líka að missa nokkra leikmenn aftur út í háskóla, en það er svo sem ekkert nýtt og eitthvað sem við vissum fyrir löngu síðan þannig við verðum bara að halda áfram og vinna með okkar öfluga hóp.”

Markmiðið að slá áhorfendametið

Og þú vonast eftir góðum stuðningi á leiknum frá Kópavogsbúum, sem hjálpar til við að tryggja Breiðablik fjórtánda bikarmeistaratitilinn? ,,Að sjálfsögðu! Ég las einhvers staðar að markmiðið er að slá áhorfendametið. Víkingsliðið hefur verið að fá góða mætingu á sína leiki þannig ég býst líka við miklu frá þeim. Ég vil sjá sem flesta Blika og Kópavogsbúa gera sér ferð í Laugardalinn þann 11. ágúst og styðja okkur til sigurs. Stuðningurinn skiptir öllu,” segir Ásta Eir að lokum og nú er um að gera að taka hana á orðinu og skella sér á bik- arúrslitaleikinn.

Mynd: Systurnar, Ásta Eir og Kristín Dís kyssa Mjólkurbikarinn eftir sigurinn 2021

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar