Hvatapeningar

Í Garðabæ fá börn svokallaða hvatapeninga frá fimm ára aldri. Sveitarfélög víðs vegar á landinu hafa á síðustu árum tekið upp þessa aðferðafræði til þess að hvetja börn og unglinga til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi með beinum styrkjum. Rannsóknir hafa sýnt fram á fjölþætt gildi þess að taka þátt í slíku starfi. Börn eru líklegri til þess að hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar, þau neyta síður áfengis, tóbaks eða vímuefna en auk þess hafa rannsóknir bent á marktæk áhrif tómstundastarfs á vellíðan barna, bæði líkamlega, andlega og félagslega.  

Í Garðabæ erum við svo heppin að hafa öflug íþróttafélög. Flest börn í bænum æfa á einhverjum tímapunkti hjá Stjörnunni eða UMFÁ, börn geta byrjað að æfa þar við eins og hálfs árs aldur og verið þar allt sitt líf. Auk þess býður fjöldi annarra frjálsra félaga upp á öfluga starfsemi fyrir börn. Svo eigum við Tónlistarskóla Garðabæjar, framúrskarandi menntastofnun þar sem hægt er að læra á flest hljóðfæri. Börnin í Garðabæ ættu því flest að eiga kost á því að stunda íþróttir eða tómstundastarf við hæfi og upplifa ánægjuna sem felst í slíku starfi. 

Óumdeildur ávinningur

Eins og áður segir hefur þátttaka í skipulögðu starfi áhrif á vellíðan barna, byggir upp öfluga einstaklinga og undirbýr þau fyrir lífið allt. Þátttakan kennir okkur samskipti og virðingu, hópastarf og að koma fram við aðra eins og við óskum þess að aðrir komi fram við okkur. Heiðarleiki og siðferði, að fylgja reglum og að taka ábyrgð á eigin gjörðum. Börn læra að setja sér markmið og hvernig á að taka sigrum jafnt sem ósigrum. Það er því hægt að segja að börn búi vel að því á fullorðinsárum að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf. 

Betur má ef duga skal

Sem foreldri fjögurra ára barns sé ég þó galla í hvatapeningakerfinu. Eftir því sem árin líða hefja börn þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi æ yngri. Mörg börn byrja strax á öðru ári og þeim fjölgar sem stunda að jafnaði fleiri en eina tómstund.

Árið 2020 borguðum við foreldrarnir 136.900.- kr í þátttökugjöld fyrir dóttur okkar, þessa fjögurra ára, fyrir það skipulagða starf sem hún tekur þátt í 2 sinnum í viku. Auk þess að vera í fimleikum og ballett fer hún á söngnámskeið, fer á skíði og stundar hestamennsku með okkur. Vissulega er það okkar val að hún sé í þessu öllu og við erum heppin að geta veitt henni það.
 
Árið 2005 var styrkurinn 10 þúsund krónur, árið 2015 var hann 27.500.- og nú árið 2022 er hann 50 þúsund. Hvatapeningarnir hafa því hækkað í takt við tímann, sem er gleðilegt. Á sama tíma hefur aldurinn staðið í stað þrátt fyrir að barnastarfið geri ráð fyrir yngri börnum í dag en þegar styrkurinn var settur á upphaflega og að framboð af starfi fyrir yngsta aldurshópinn hafi stóraukist. Spurning mín er því sú, er ekki kominn tími til þess að við lækkum aldur þeirra sem eiga rétt á hvatapeningum?

Vera Rut Ragnarsdóttir, óskar eftir stuðningi í fjórða sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar