Öflugt starf er í mörgum hestamannafélögum landsins og er keppni í greinum hestaíþróttarinnar nú farin af stað af fullum krafti. Nokkrar deildir innan hestaíþróttarinnar hófu keppni sína á dögunum og ein þeirra var Meistaradeild Líflands og Æskunnar. Í þeirri deild keppa 40 efnilegustu knapar landsins á aldrinum 13 til 17 ára í tíu liðum sín á milli. Keppt er í sex greinum á tveggja vikna fresti frá febrúar fram í apríl.
Fyrsta greinin fór fram nú í byrjun febrúar þar sem keppt var í fjórgangi. Keppnin var gríðarlega sterk þar sem hestakostur var frábær og reiðmennska knapanna til fyrirmyndar.
Það var ungur Garðbæingur og Sprettsfélagi sem bar þar sigur úr býtum, Guðný Dís Jónsdóttir og keppti hún á hestinum Ás frá Hofsstöðum í Garðabæ en fjölskylda Guðnýjar á rætur sínar að rekja til Hofsstaða í Garðabæ og kennir hross sín við þann merka stað.