Hvatapeningar hækka í 55 þúsund krónur

Samkvæmt samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 20. desember sl. fá öll börn á aldrinum 5-18 ára
(fædd 2005-2018) kr. 55.000 í hvatapeninga á árinu 2023.

Hvatapeningana er hægt að nýta til að greiða niður gjöld í skipulögðu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi sem stundað er reglulega. Hvatapeninga ársins 2023 er hægt að nýta vegna reikninga sem gefnir eru út á árinu 2022 og 2023. Réttur til hvatapeninga fyrir árið 2023 fellur niður í árslok.

Ónýttir hvatapeningar geymast ekki milli ára.

Ekki er hægt að endurgreiða eða bakfæra styrk frá félögum þegar foreldri/forráðamaður hefur ráðstafað styrknum til félags.

Ef félög eru ekki tengd við skráningarkerfin Sportabler eða Nóra þarf að koma reikningi til þjónustuvers Garðabæjar með upplýsingum um upphæð hvatapeninga sem á að nýta sem og upplýsingum um hvert á að endurgreiða. Ekki er hægt að koma með reikninga til endurgreiðslu hvatapeninga vegna félaga sem tengd eru Sportabler eða Nóra.

Nýta þarf hvatapeninga ársins 2023 fyrir áramót. Kvittunum á að skila fyrir lokun þjónustuvers Garðabæjar þann 28. desember.

Reglur um notkun hvatapeninga:

Skilyrði þess að hægt sé að nýta hvatapeningana er að um skipulagt starf sé að ræða sem er stundað undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda og nær yfir eina önn eða að lágmarki 10 vikur. Undantekning er 5 og 6 ára börn þar sem lágmarkstímalengd námskeiða er 20 kennslustundir óháð vikufjölda. Þetta á t.d. við um allt íþrótta- starf sem stundað er á vegum viðurkenndra íþróttafélaga, dans í dansskólum og skátastarf.

Hvatapeningana er ekki hægt að nýta til að kaupa árskort í líkamsræktarstöðvum en skipulögð unglinganámskeið og dansnámskeið innan líkamsræktarstöðva falla undir styrkinn. Undantekning frá þessu eru ungmenni í þremur elstu árgöngunum, þ.e. 16, 17 og 18 ára (fædd 2005, 2006 og 2007), þau geta nýtt hvatapeningana til að kaupa kort í líkamsræktarstöðvum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar