Hvað er Hjallastefnan?

Stofnandi Hjallastefnunnar og frumkvöðullinn, Margrét Pála Ólafsdóttir, hefur margoft staðið frammi fyrir þessari spurningu, sem og við öll sem hjá Hjallastefnunni störfum. Okkur eru ýmsar leiðir færar þegar að því kemur að svara þessari spurningu og svarið getur sannarlega verið fjölbreytilegt, en Margrét Pála svaraði skýrt og skorinort á sínum tíma: „Hjallastefnan er kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna“.

Kærleikur, sköpun og lýðræði

Kærleikur er eitt af lykilhugtökum Hjallastefnunnar, að mæta hverju barni, fjölskyldumeðlimi og starfsfólki öllu með kærleika í öllum samskiptum. Vinsamlegt orðalag sem vel er til þess fallið að skapa kærleiksríkt umhverfi. Jákvæðar staðhæfingar iðkaðar og þjálfaðar.

Sköpun er, eðli málsins samkvæmt, ófrávíkjanlegur hluti af skólastarfi. Umhverfi sem hvetur börn til sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar skapar frjóan jarðveg og gott veganesti til framtíðar. Hið fornkveðna orðatiltæki „æfingin skapar meistarann“ hefur alla tíð verið í hávegum höfð innan Hjallastefnuskóla. Því er nefnilega þannig farið að allt það sem vel er gert krefst æfingar og þjálfunar. Ef börnum er skapað öruggt umhverfi til skoðanaskipta, markmiðasetninga og samskipta þá verða til hreinir galdrar.

Lýðræði er svo grunnþáttur menntunar. Virkt lýðræði verður aldrei að veruleika nema við öll sem erum þátttakendur í samfélaginu fáum að beita okkur og getum notað rödd okkar. Börn og ungmenni eiga rétt á því að hafa mótandi áhrif á samfélagið, þeirra framtíðarsýn skiptir máli og þau þurfa þjálfun í þáttum er þetta varða. Dag hvern þjálfum við okkur í „leikreglum samfélagsins“, við förum á valfundi og fáum þannig að hafa bein áhrif á okkar daglega vinnuumhverfi. Börnin fá að velja sér viðfangsefni sem ríma við þeirra ástríðu, hvort sem það er útivera, listir, lestur eða hvaðeina. Börn eru þjálfuð í að fara eftir reglum, að taka tillit til annarra einstaklinga í samfélaginu. Á valfundum er „fullorðinsvaldið“ sett til hliðar og flyst þá valdið til barnanna. Eins eru lýðræðisfundir haldnir reglulega og þannig geta börn og barnahópar óskað eftir því að fá að hafa áhrif á matseðla, á dagskipulag, föstudagsfjör og svo framvegis.

Meginreglur Hjallastefnunnar

Hjallastefnan sem hugmyndafræði hvílir á sex meginreglum og segja má að framsetning þeirra sé í virðingarröð, þó þær séu sannarlega allar jafn mikilvægar og gætu ekki án hvorrar annarrar verið. Í reglum þessum birtast hugsjónir okkar sem störfum innan Hjallastefnunnar og í þeim má finna þau lífsgildi sem við stöndum fyrir, viðhorf, mannskilning og lífsýn. Enn fremur fela meginreglurnar í sér ytri þætti á borð við aðferðir, starfshætti og skipulag skólastarfs. Þannig er fyrsta meginregla „börn og foreldrar“, önnur meginregla er „starfsfólk“, þriðja er „umhverfi“, sú fjórða „efniviður“, svo „náttúra“ og loks „samfélag“.

Markmiðið með meginreglunum er að byggja upp jákvæðan skólabrag og kærleiksríka skólamenningu, að byggja upp heilnæmt samfélag innan skólans og þannig hafa jákvæð áhrif til grenndarsamfélags hvers skóla – og samfélagsins í heild.

Samkvæmt fyrstu meginreglu þá er Hjallastefnunnar að mæta hverju barni eins og það er og virða og viðurkenna ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Okkar er að virða valfrelsi, lýðræði og ólík áhugasvið þeirra barna sem okkur er treyst fyrir á degi hverjum og hlúa á víðfeman hátt að velgengni allra. Þannig er hvert tækifæri gripið til þess að sýna hverju einasta barni jákvæða athygli, kærleika og hlýju í viðmóti. Kynjaskipt skólastarfið er til að tryggja jafnræði allra barna, til þess að ýta til hliðar staðalímyndum kynjanna og mæta hverju barni sem þeim einstaklingi sem það sannarlega er.

Að æfa sig í vináttu og samskiptum

Það eru einhverjir töfrar í því fólgnir að starfa með börnum innan hugmyndafræði sem leggur upp með að þjálfa virðingu, kurteisi, hegðun og framkomu. Að æfa börn í tiltrú á sjálf sig, kerfisbundið, að þjálfa tjáningu, samskipti, viðhorfaiðkun og víðsýni. Allt eru þetta þættir sem við getum þjálfað og æft okkur í, rétt eins og stærðfræði eða tungumál og það gerum við alla daga. Við æfum okkur í vináttu, við æfum okkur í sjálfmildi og við æfum okkur í bjartsýni og gleði. Þessir þættir eru ofnir inn í námskrá skóla Hjallastefnunnar og unnið er með þá á degi hverjum.

Það er einstakt veganesti inn í lífið sem fram undan er að æfa samskipti, viðhorf til verkefna og að beisla kraftinn sem býr innra með hverju okkar.

Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri fræðslu og fagstarfs Hjallastefnunnar
Sturla Þorsteinsson, kennari við Hjallastefnuna

Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri fræðslu og fagstarfs Hjallastefnunnar

Sturla Þorsteinsson, kennari við Hjallastefnuna

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar