Hreyfing sem efnahagsaðgerð

Á Íslandi er beint framlag íþrótta til landsframleiðslu (framlag til lífskjara) í kringum 2,5% en séu óbein áhrif tekin með er hlutfallið 4% en þetta er samkvæmt rannsóknum Dr. Ágústs Einarssonar sem gerðar voru á síðasta ári og birtust í bók hans Íþróttir hérlendis í alþjóðlegu samhengi. Þetta er umtalsvert hærra hlutfall en í nágrannalöndunum og langtum hærra hlutfall en fólk kannski áttar sig almennt á, enda er hlutfall ferðaþjónustu í kringum 10% og sjávarútvegs í kringum 25%. Þetta sýnir svart á hvítu mikilvægi íþrótta- og tómstundamála í efnahagslegu samhengi og er þrátt fyrir að íþróttahreyfingin sé drifin áfram af sjálfboðaliðum, en í kringum 30.000 sjálfboðaliðar starfa innan hreyfingarinnar.

Í kringum árið 1970 var meðalaldur Íslendinga umtalsvert lægri en nú er og innan örfárra ára er áætlað að meðalaldur Íslendinga verði allt að 10 árum hærri en hann var í kringum 1990 sem eru einhverjar örustu breytingar á samfélagsgerð sem við höfum séð. Þegar við bætum við aukinni tækni og getu nútímasamfélagsins í heilbrigðismálum, það er að segja að kljást við veikindi og afleiðingar þeirra, má búast við því að kostnaður málaflokksins muni hækka umtalsvert. Það má því áætla að við verðum fleiri, eldri og heilbrigðið verði minna hvort heldur sem andlegt eða líkamlegt. Gangi spár eftir munum illa ráða við þann kostnað sem fylgir til að takast á við þessar breytingar sem getur leitt af sér samfélagslegar hindranir. Kostnaður samfélagsins (heilbrigðisyfirvalda) á íbúa 65 ára og eldri er í kringum 4 til 5 sinnum hærri en á þá sem yngri eru og ef miðað er við 85 ára og eldri er þessi kostnaður í kringum 9 sinnum hærri. Það er því ljóst að það þarf verulega að skoða nýjar leiðir til að bæta heilbrigðismálin. Íþróttastarf og hreyfing geta þar leikið lykilhlutverk.

Ég hef áður skrifað um forvarnir og fræðslu, þá hvernig við getum samnýtt bæði forvarnastarf með íþrótta- og tómstundastarfi og bætt þannig lífsgæði en í leiðinni haft afgerandi áhrif á hvernig við forgangsröðum þeim fjármunum sem við setjum í málaflokkinn. Ég er sannfærð um að það góða starf sem unnið er á vegum íþróttafélaganna í landinu muni gegna lykilhlutverki til framtíðar og er ég reyndar á þeirri skoðun að það þurfi alvarlega að skoða að útvíkka hlutverk þessara félaga með meiri fjárfestingu. Innviðirnir eru sannarlega til staðar en styrkja má þá enn frekar og samþætta starf þeirra með kröfum og þörfum samfélagsins. Eftir að hafa starfað sem sjálfboðaliði í barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Stjörnunnar, stofnað Stjörnukonur, deild innan félagsins ásamt því að sitja í foreldrastarfi íþróttagreina barna minna, veit ég að þarna liggur mikil þekking sem getur nýst íbúum Garðabæjar.

Til þess að geta tekið afgerandi stöðu með forvörnum og íþróttastarfi þá þarf að breyta þeirri hugsun að það þurfi að styrkja félögin heldur frekar að hugsa um að þessi félög veiti ákveðna þjónustu sem við erum síðan sem samfélag sammála um að þurfi að vera til staðar og er líklegt að verði lykillinn til að takast á við áskoranir 21 aldarinnar því þegar dæmið er reiknað til enda er ljóst að efnahagsleg áhrif íþrótta eru stórlega vanmetin og þau munu koma til með að stóraukast til framtíðar. Sem betur fer er ágætlega á málum haldið í Garðabæ varðandi innviðauppbyggingu en betur má ef duga skal og það er mikilvægt að bæjaryfirvöld marki sér stefnu og varði leiðina með tímasettri forgangsröðun sem snýr að öllum þeim íþróttafélögum sem í bænum starfa. Garðabær hefur sett fram íþrótta og tómstunda stefnu til framtíðar sem er gott og gilt en nú þarf að efla þetta starf með sannarlegum hætti enda er Garðabær sannarlega íþróttabær og hefur tekið forystu í þeim málum og þeir hundruð sjálfboðaliða sem bera uppi starfið eiga skilið að þeim sé sýndur sá sómi að Garðabær stígi enn stærri skref til að tryggja starfið til lengri tíma því hreyfing sem efnahagsaðgerð er klárlega það sem koma skal í samfélagsuppbyggingu 21 aldarinnar.

Í þessu samhengi sé ég fyrir mér að bæjarfélagið geti notið mikils ávinnings með tilkomu Miðgarðs nýju fjölnota íþróttahúsi okkar Garðbæinga. Mest allur fjöldi ungmenna sem munu nýta sér aðstöðuna koma í gegnum Stjörnuna og Álftanes, íþróttafélög bæjarins. Ég sé leik á borði sem ég tel að geti verið augljós ávinningur bæði fyrir bæjarsjóð og íþróttafélagið sem er að starfrækja tómstundaheimili í Miðgarði. Með því kemst húsnæðið í enn meiri nýtingu, þar yrði hreyfidrifið tómstundaheimili sem kæmi sem frábær viðbót til móts við hefðbundin tómstundaheimili sem rekin eru af skólum bæjarins. Annar ávinningur er sá að brúin milli hverfa gæti minnkað og þau börn sem búa til að mynda í Urriðaholti og eru nýir bæjarbúar geta haft þann kost að sameinast innan bæjarins í íþróttunum og efla þannig tengsl sín til annara iðkenda úr öllum hverfum. Þetta sæi ég að væri einnig í boði fyrir íbúa Álftanes sem eru að flytja nýir í bæinn og eru með unglingsbörn sem myndu æfa með Stjörnunni. Ég vil að Miðgarður verði fullur af lífi og að hreyfing verði stunduð þar af öllum aldurshópum yfir vetrartímann sem myndar frábært samspil við glæsilega aðstöðu GKG og þannig rammað svæðið inn sem miðstöð hreyfingar og íþrótta sem í sjálfu sér er mögulega ein mikilvægasta efnahagsaðgerð sem við getum ráðist í. Þannig snúum við umræðunni úr styrkjum yfir í þjónustukaup sem við sem samfélag getum sammælst um að eigi að vera í forgangi því heilsan okkar er alltaf það mikilvægasta sem við eigum.

Það er mikilvægt að þeir aðilar sem gefa kost á sér til að leiða starf bæjarfélaganna skilji annars vegar hlutverk íþróttafélaganna í landinu en í leiðinni átti sig á mikilvægi þeirra til framtíðar þegar tekið er inn í myndina þær breytur varðandi hækkandi aldur sem ég nefndi hér að ofan. Forgangsröðum rétt, fjárfestum í sjálfum okkur.

Harpa Rós Gísladóttir

Höfundur býður sig fram í 4-6 sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar