Fuglasöngvar og fjársjóðsbækur

Sumri fagnað í Náttúrufræðistofu og Bókasafni Kópavogs

Sænskumælandi glókollar, skapgóðar skeiðendur og illa lyktandi múkkar eru á meðal fugla sem taka að flögra um sýningarými Náttúrufræðistofu frá og með sumardeginum fyrsta þegar sýning á dásamlegum fuglateikningum Ránar Flygenring verður sett upp í gluggum Náttúrufræðistofunnar. Fuglarnir birtust fyrst í bókinni Fuglar frá 2017 en bókin, sem var samvinnuverkefni Ránar og Hjörleifs Hjartarsonar og hefur notið mikilla vinsælda æ síðan, kom út hjá bókaforlaginu Angústúru.

Mynd eftir Rán Flygering

Vorboðinn ljúfi og ljóðrænar maríuerlur
Teikningarnar á sýningunni eru 24 talsins og hefur Rán aðlagað þær sérstaklega að gluggum Náttúrufræðistofu. Hægt verður að njóta sýningarinnar bæði inni í safninu og utan þess en teikningar vísar bæði út og inn. Fjölskyldum gefst færi á að kynnast litríku og fjörugu persónugallerýi hinna ólíku fuglategunda, ljóðrænum maríuerlum, hundraðburum húsandarinnar að ógleymdum vorboðanum ljúfa, skógarþrestinum, sem Jónas ávarpaði svo eftirminnilega í fallegu kvæði sínu. Jafnframt verður hægt að skoða frábæra grunnsýningu Náttúrufræðistofu og kynnast ólíkum fuglum, hreiðrum og eggjum mismunandi fuglategunda.

Dularfullar fjársjóðsbækur í Bókasafni Kópavogs
Frá og með sumardeginum fyrsta verður einnig hægt að njóta sýningar á dularfullum fjársjóðsbókum sem börn í 3., 4. og 5. bekk Smáraskóla hafa gert en sýningin verður sett upp í Fjölnota sal Bókasafnsins á fyrstu hæð. Bækurnar, sem eru af öllum stærðum og gerðum, handgerðar og á leynilegum tungumálum, eru unnar út frá skemmtilegu verkefni sem Lóa Hjálmtýsdóttir, teiknari og rithöfundur fól börnunum að gera en Bókasafn Kópavogs fékk Lóu til að vera með innlögn í formi myndbands sem sent var á grunnskóla Kópavogs. Upp úr því myndbandi unnu börnin bækurnar, á dulmáli og með dularfullum teikningum en útkoman er ævintýri líkust. Í rýminu verður myndbandsverkefni Lóu jafnframt sýnt þegar safnið er opið svo hægt er að fá kveikjur og hugmyndir að ævintýrabókum og dulmálslyklum um leið og safnið er heimsótt og sumri fagnað.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar