Hitta 50+ ára gamla mótherja í Stykkishólmi

Landsmót UMFÍ 50+ fer fram í Stykkishólmi um Jónsmessuna. Mótið hefur verið haldið í meira en áratug og fólk yfir miðjum aldri af öllu landinu tekið þátt í fjölbreyttri íþróttakeppni og prófað ýmsar íþróttagreinar. Garðbæingurinn Jóhann Steinar Ingimundarson er formaður UMFÍ.

Landsmót UMFÍ hefur verið haldið árlega í meira en áratug. Nú verður það haldið með nokkuð breyttu sniði. Á sama tíma og mótið fer fram eru Danskir dagar og þá flykkjast í bæinn brottfluttir Hólmarar. Af þessum sökum má búast við miklum fólksfjölda. Á sama tíma verður boðið upp á keppni í tugum íþróttagreina fyrir fimmtíu ára og eldri. Margar greinar verða opnar og geta því þátttakendur sem vilja prófa nýjar greinar komið og tekið þátt. Þátttakendur allt niður í 18 ára geta með þessum hætti tekið þátt í götuhlaupi, körfubolta, hjólreiðum og fleiri greinum eins og pílu, frisbígolfi, badmintoni og borðtennis. Og er þá fátt eitt nefnt.

Heilmikil afþreying verður í Stykkishólmi fyrir utan landsmótið, þar á meðal Stjórnarball sem skipuleggjendur Danskra daga standa fyrir.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, segir mikilvægt að opna íþróttaviðburði svo fleiri geti tekið þátt og fundið sína íþrótt. „Við sjáum skýrt bæði í þeim gögnum sem við hjá ÍSÍ og UMFÍ söfnum og í samtali við fólk innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar að stór hluti barna og ungmenna hreyfir sig reglulega í skipulögðu starfi hjá íþróttafélögum. Eftir því sem fólk eldist fækkar í hópnum, sumir halda auðvit- að áfram að skemmta sér með vina- og vinkonuhópum í íþróttum, fara í hlaupahópa eða körfu á kvöldin, og margir fara í ræktina. Það jafnast ekkert á við það að taka þátt í íþróttum með öðrum, skemmta sér í golfi eða fótbolta eða hverju sem er. Samveran er skemmtileg og bætir upp fyrir æfingarnar sem maður gerir einn. Það er líka lýðheilsumál í stóra samhenginu að taka þátt í íþróttum með öðrum. Það hefur bæði líkamlega og andlega jákvæð áhrif. Til viðbótar benda gögn okkar til þess að bæði í hópi barna og ungmenna og í hópi fullorðinna séu hópar sem ekki taka þátt í skipulögðustarfi. Þau eru fyrir einhverra hluta sakir á jaðrinum. Við í íþróttahreyfingunni vinnum skipulega að því að ná betur til þeirra sem þar eru, það er ekki síður þeim í hag að taka þátt en okkar að fá þau í starfið. Það er einfaldlega allt miklu betra og skemmtilegra þegar allir eru saman,” segir Jóhann Steinar.

Landsmót UMFÍ hafa um nokkurra ára skeið verið fyrir alla. Engin skilda er að vera skráður í íþróttafélag og engar kvaðir um að hafa náð árangri í íþróttum. Nóg er fyrir fólk að sjá eitthvað áhugavert í boði og koma og prófa. „Það er reyndar skemmtilegt að hluti þátttakenda á mótinu tóku á yngri árum þátt í viðburðum UMFÍ eða héraðsmótum víða um land. Þetta er fólk sem stofnaði fjölskyldur og hætti virkri þátttöku. Þessir gömlu keppendur hittast á Landsmóti UMFÍ 50+ og njóta þess að keppa á ný,” segir Jóhann og hvetur fólk til að kíkja á dagskránna á www.umfi.is og koma vestur í Stykkishólm um Jónsmessuna.

Mynd: F.v. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, ásamt Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ, og Ómari Braga Stefánssyni, framkvæmdastjóra móta UMFÍ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar