Heiðmörk stækkar um 74 hektara í sumar

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Garðabær hafa gert þjónustusamning um áframhaldandi samstarf um ræktun, umsjón og eftirlit með skógræktar- og útivistarsvæðum í landi Garðabæjar, sem einnig felur í sér stækkun friðlandsins. Svæðið sem nú bætist við Heiðmörk er í landi Garðabæjar og liggur milli Heiðmerkur og friðlýsts svæðis Búrfells.

Heiðmörk stækkar í sumar um 74 hektara. Skógræktarfélag Reykjavíkur og Garðabær hafa gert þjónustusamning um áframhaldandi samstarf um ræktun, umsjón og eftirlit með skógræktar- og útivistarsvæðum í landi Garðabæjar, sem einnig felur í sér stækkun friðlandsins. Svæðið sem nú bætist við Heiðmörk er í landi Garðabæjar og liggur milli Heiðmerkur og friðlýsts svæðis Búrfells. 

Á myndinni sjást þeir Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, takast í hendur að lokinni undirritun þjónustusamnings.

Svæðið í Heiðmörk sem um ræðir er í nágrenni Kolhóls. Það er að miklu leiti ógróið og mun Skógræktarfélag Reykjavíkur vinna að uppgræðslu og skógrækt þar. Svæðið er mjög illa farið, gróðurþekja rýr og víða moldarbörð með mikilli frostlyftingu. Landsvæðið hefur verið friðað fyrir beit í nokkra áratugi en nær illa að gróa saman vegna virkra rofferla eins og frostlyftingar og afrennslis. Ógróin svæði eins og þetta losa kolefni út í andrúmsloftið öfugt við gróin svæði sem binda kolefni í gróðri og jarðvegi.

Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur fara um svæðið á næstunni til að meta hvernig best er að haga uppgræðslunni. Talsverðir möguleikar felast í uppgræðslu og skógrækt á svæðinu og uppbyggingu útivistarsvæða.

Mikil umferð í Heiðmörk og við Búrfell

Friðlandið í Heiðmörk hefur verið sérstaklega mikið notað til útivistar undanfarið eitt og hálft ár, vegna heimsfaraldurs Covid og samkomutakmarkana. Í nágrenni nýja hluta Heiðmerkur hefur umferð verið mikil og bílastæðið við Búrfellsgjá oft þétt skipað. Samkvæmt gönguteljara Garðabæjar fóru 4-5.000 manns um Búrfellsgjá mánaðarlega, í mars, apríl og maí. Þessa dagana er verið að leggja nýjan tengistíg frá bílastæðinu við Búrfellsgjá að göngustígnum við Vífilsstaðahlíð.

Stækkun Heiðmerkur er 74 hektarar, en stækkunina má sjá merkt rauðu.

Búrfellsgjá, Selgjá og nágrenni voru friðlýst á síðasta ári, 25. júní 2020. Svæðið er áhugavert bæði út frá jarðfræði og mannvistarleifum. 

Heiðmörk var formlega opnuð sem friðland Reykvíkinga, 25. júní 1950. Svæðið hefur stækkað í mörgum áföngum og er í dag um 3270 hektara. Um 1/3 hluti Heiðmerkur er í landi Garðabæjar. Deiliskipulag fyrir land Garðabæjar í Heiðmörk var samþykkt árið 2017. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar