Hátíð fer að höndum ein

Þegar þetta er skrifað fellur fyrsti snjór vetrarins hér í Garðabæ. Það er hvítt púður yfir öllum himninum, en lýsist upp undir stökum ljósastaur sem ég sé út um stofugluggann.

Í heyrnartólunum spilast Hátíð fer að höndum ein. Eins og alltaf þegar ég hlusta á hana færir þessi íslenska þjóðvísa mig aftur í fortíðina. Ég held stundum að tónlist sé það næsta sem hægt er að komast því að stíga inn í tímavél. Stofuglugginn tekur á sig nýtt form og ég ímynda mér moldarvegg, rök húsakynni. Lífsbaráttu sem við nútímafólk á Íslandi skiljum fæst, sem betur fer.

Ég kann á einhvern einkennilegan hátt vel við að finna fyrir myrkrinu og hátíðleikanum í tónlistinni. Mér finnst þessi tiltekna vísa lýsa því svo vel hvað jólin eru hér á norðurhjara veraldar: Hátíðin í myrkrinu.

Hátíð fer að höndum ein,
hana vér allir prýðum.
Lýðurinn tendri ljósin hrein,
líður að helgum tíðum.

Dætur mínar sáu snjóinn falla áður en þær sofnuðu í kvöld. Einlæg gleði þeirra yfir þessum einföldu veðrabrigðum minnti mig á það hvers vegna jólin eru kölluð hátíð ljóssins. Það er ljósið innra með okkur og milli okkar sem býr til hátíðleikann, þessa tæru fegurð sem felst í tengslum okkar og samkennd með öðru fólki. Það er kjarni jólanna.

Fyrsta erindi Hátíð ber að höndum ein er nokkuð hlutlaus staðhæfing og hvatning til fólks um að lýsa upp svartasta skammdegið í aðdraganda jóla. Löngu síðar orti Jóhannes úr Kötlum tvö erindi til viðbótar sem fanga enn betur anda jólanna, því þau vekja von um betri tíma:

Gerast mun nú brautin bein,
bjart í geiminum víðum.
Ljómandi kerti’ á lágri grein,
líður að helgum tíðum.

Heimsins þagna harmakvein,
hörðum er linnir stríðum.
Læknast og þá hin leyndu mein,
líður að helgum tíðum.

Sól mun nú loks hækka á lofti og framundan er nýtt upphaf fyrir okkur öll. Fyrir hönd Garðabæjarlistans óska ég öllum bæjarbúum gleðilegra jóla. Megi jólin verða ykkur öllum hátíð ljóss, sama hverjar aðstæður ykkar eru.

Ykkar bæjarfulltrúi,
Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar