Aðventan í bæjarstjórn

Venju samkvæmt var fjárhagsáætlun næsta árs samþykkt í bæjarstjórn 22. nóvember s.l. með hjásetu allra fulltrúa í minnihluta. Ekki var hlustað á okkar tillögur í þetta sinn. En kannski næst.
Okkar eigið kolefnisbókhald

Lengi hef ég og fleiri kallað eftir lögbundinni loftlagsstefnu bæjarins en aðeins er til umhverfisstefna frá árinu 2011. Loksins höfum við samþykkt sameiginlega loftlagsstefnu höfuðborgarsvæðisins og ættum nú að geta lagt ofan á hana aðgerðaáætlun. Ég hef óskað eftir að sett verði upp kolefnisbókhald fyrir bæinn og því verði viðhaldið eftir því sem verkefnum í þágu kolefnishlutleysis vindur fram. Öðru vísi getum við ekki metið hvað þarf til að ná kolefnishlutleysi. Lítill vilji hefur verið til að taka á þessu máli hingað til en með stífu aðhaldi tel ég að okkur muni jafnvel auðnast að finna lendingu á þessu kjörtímabili um hvað við ætlum að gera og hvernig.

Ný og betri sorpflokkun
Eitt af því sem vegur þungt í kolefnishlutleysi er betri sorpflokkun. Þannig getum við nýtt lífrænan úrgang sem fyrirtaks ræktunarjarðveg og fengið greitt fyrir pappa, pappír og plast sé það rétt flokkað. Nú er loksins kominn skriður á samræmda úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að tvískiptar tunnur undir almennt sorp og lífrænt, verði afhentar næsta vor. Það mun þýða stökkbreytingu í meðhöndlun úrgangs hjá Sorpu. Eins og venja er til þá vantar töluvert upp á kynningu á þessari breytingu og er töluverð hætta á að fjölbýli í bænum verði alls ekki tilbúin þegar þar að kemur. Ég kalla reglulega eftir auknu samtali við íbúa og fyrirtæki og vona að dropinn holi steininn.

Sorpa víkur
Nú hefur bæjarstjórinn okkar ákveðið einhendis að Sorpa víki af Dalvegi. Þetta var svo sem fyrir séð þar sem svæðið er allt of lítið fyrir þessa starfssemi en samt alltaf gott að viðhafa samráð, í það minnsta við bæjarráð. Leit stendur yfir að sameiginlegu Sorpu svæði fyrir sveitarfélögin sunnan Reykjavíkur.

Móttaka flóttafólks
Kópavogur er eina af 5 stærstu sveitarfélögum landsins sem ekki tekur þátt í samræmdri móttöku flóttafólks og tekur ekki heldur þátt í móttöku flóttafólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd. Þetta hef ég ítrekað bent á frá því að stríðið í Úkraínu hófst. Loksins er hafið samtal við ríkið um þessi mál og vonandi getur bæjarfélagið sem státar af því að hafa innleitt bæði barnasáttmála og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna farið að taka þátt í þessu samfélagsverkefni allra sveitarfélaga og ríkisins.

Hvað fleira?
Þau er mörg verkefnin sem koma á borð bæjarráðs og -stjórnar. Við höfum t.d. ákveðið að taka þátt í stofnun Áfangastofu höfuðborgarsvæðisins sem mun halda utan um skipulag og kynningu á Kópavogi sem ferðamannastað.

Barnaverndarþjónusta mun um áramótin flytjast frá staðbundnum barnaverndarnefndum í sameiginlega barnaverndarþjónustu SV-kjördæmis. Úr höndum kjörinna fulltrúa til fagfólks.
Mikil veikindi á leikskólum hafa leitt af sér lokanir og biðlista. Starfshópur um starfsumhverfi leikskóla tekur til starfa fljótlega sem á að taka út vinnuaðstæður og móta tillögur að bragarbót.

Það verður áramótabrenna í Gulaþingi – einhverir geta glaðst yfir því og allar líkur eru á að þessi skíðavetur byrji með nýjum lyftum í Bláfjölum í stað Gosa og Drottningar en verkið er á undan áætlun. Og það er kominn nýr snjótroðari fyrir gönguskíðabrautir.

Endum á þessum góðu tíðindum.

Gleðileg jól og farsæld á nýju ári
Bergljót Kristinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar