Handknattleiksdeild Stjörnunnar innleiðir jafnlaunakerfi fyrst íslenskra íþrótttafélaga

Origo og handknattleiksdeild Stjörnunnar hafa gert með sér samstarfssamning sem gerir Stjörnunni að innleiða jafnlaunakerfi í samræmi við lög um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna, fyrst íslenskra íþróttafélaga.
Fram kemur í tilkynningu frá handknattleiksdeild Stjörnunnar að deildin hafi „verið leiðandi í að jafna stöðu kynjanna innanbúða hjá félaginu og vill nú sýna það enn betur í verki með því að taka formlegt skref í anda jafnlaunavottunar og innleiða verklag sem stuðst er við í vottuðum jafnlaunakerfum.“

Jafnrétti er okkur hugleikið

„Jafnrétti hefur verið okkur hugleikið, við viljum nú taka formlegt skref og brjóta blað í sögunni með því að innleiða jafnlaunakerfi fyrir handknattleiksdeild Stjörnunnar. Justly Pay og Origo gera okkur kleift að taka þetta skref sem væri okkur torfært án þessa gagnlega hjálpartækis,“ er haft eftir Pétri Bjarnasyni formanni hand-knattleiksdeildar Stjörnunnar.

Justly Pay er lausn sem hjálpar aðilum að búa til jafnlaunakerfi sem uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins og er svo rekið í gæðastjórnunarlausninni CCQ. Með Justly Pay fylgja skjöl sem uppfylla kröfur jafnlaunastaðalsins, eyðublað fyrir jafnlaunaábendingar og úttektaráætlun með innbyggðum spurningum sem hjálpa aðilum að fá og reka vottað jafnlaunakerfi.

Snýr að launum og aðstöðu

Garðapósturinn sló á þráðinn til Péturs, formanns handknattleiksdeildar og spurði hann m.a. hvernig þetta virkaði svo í framkvæmd? ,,Við fáum aðgang að jafnlaunakerfi Origo, Jusly Pay CCQ. Kerfið er einnig gæðakerfi sem heldur utan um öll skjöl og gerir okkur kleift að skilgreina allt varðandi jafnrétti, jafnréttisstefnu og jafnlaunastefnu. Með auknum gæðum með notkun á kerfinu frá Origo munum við leitast við að tryggja samfeldni og jafnrétti í starfinu. Þetta snýr ekki eingöngu að launum heldur líka aðstöðu. Við viljum forðast það að taka geðþótta ákvarðanir. Metnaður getur oft orðið mikill og þar með aukið fjárútlát umtalsvert sem getur valdið það miklu tapi að það skaði starfið til framtíðar. Það tekur langan tíma að byggja upp en enga stund að rífa niður.”

Með utanumhald um allar skilgreiningar varðandi jafnrétti

Verða leikmenn og þjálfarar kvenna- og karlaliðsins á sömu launum og hvernig er það útfært þar sem leikmenn fá oftast mis góða samninga eftir getu og hæfileikum hvers og eins? ,,Með Justly Pay CCQ kerfinu höfum við nú utanumhald um allar skilgreiningar varðandi jafnrétti. Það er okkar að skilgreina og starfaflokka. Kerfið heldur svo utan um allar breytingar og þær skilgreiningar sem við setjum niður á blað. Með kerfinu getum við svo fylgt öllu sem ákveðið er eftir þannig að við tökum sem réttastar ákvarðanir þegar kemur að því að ákvarða laun leikmanna. Leikmenn geta verið metnir eftir aldri, reynslu í eins og t.d. atvinnumennsku, landsliðsferli o.s.frv., fjöldi leikja framlag í leikjum svo eitthvað sé nefnt. Þetta þýðir ekki að allir séu með sömu laun svo það sé sagt.”

Launabilið mun eyðast á nokkrum árum

Leikmenn kvennaliða hafa í gegnum tíðina verið á síðri samningum en karlarnir, munið þið hækka laun leikmanna kvennaliðsins í samræmi við karlaliðið hjá Stjörnunni eða lækka laun karlanna í samræmi við laun kvennaliðsins? ,,Hugmyndin er að á nokkrum árum mun bilið eyðast og mun tíminn leiða í ljós hvernig þetta þróast en lagt er af stað með það að markmiði að hækka kvennaliðið. Bæði kyn munu hagnast á þessu því þetta snýst ekki síður um að halda samræmi innan beggja kynja.”

Og skiptir engu máli hvað viðkomandi flokkar skila deildinni í tekjur t.d. af miðasölu, sjónvarpstekjum o.s. frv.? ,,Það eru engar sjónvarpstekjur sem renna til klúbbana og samningar við samstarfsfyrirtækin ganga inní sameiginlega sjóði þaðan sem öll gjöld og reikningar eru greiddir úr.”

Jöfn laun fyrir sömu vinnu er sanngirnismál en ekki geðþótta ákvörðun

Þannig að kostnaðurinn mun aukast töluvert hjá handknattleiksdeildinni með jafnlaunakerfinu, hvaðan kemur fjármagnið til að standa undir þessu? ,,Það gefur auga leið að kostnaður mun aukast en von okkar er sú að samfélagið og stuðningsaðilar líti á þetta sem sjálfsagðan hlut og komi til móts við okkur.
Jöfn laun fyrir sömu vinnu er sanngirnismál en ekki geðþótta ákvörðun.”

Þessi hugmynd þótti galin

Og heldur þú að þróunin verði í þessa átt í handboltahreyfingunni og bara almennt í öllum íþróttagreinum hérlendis á næstunni, að laun leikmanna, karla og kvenna, verði jöfnuð? ,,Það ætla ég að vona og núna um daginn var tekið risa skref hjá knattspyrnusambandi USA og launin jöfnuð á milli kynja. Þetta kemur en er bara spurning um tíma.
Þessi hugmynd þótti galin hér á árum áður á almennum vinnumarkaði og hjá ríkinu að konur stæðu körlum jafnfætis í launum og réttindum og erum við ekki enn komin þangað en vonandi styttist í það.”

Verkefnið þegar farið af stað

Og er hugmyndin að þetta fari á stað hjá ykkur strax á næsta leiktímabili, þá verða allir komnir í jafnlaunakerfið hjá handknattleiksdeildinni? ,,Við erum nú þegar byrjuð á þessu og var fyrsta skrefið tekið áramótin 2019-2020 þegar kynjaskipting í rekstri var lögð niður og öllu steypt í sama pott.
Það var mikið heillaskref og í dag hjálpast allir að með reksturinn og framkvæmd leikja.
Tímabilið 2020-2021 var svo næsta skref tekið og stelpurnar voru hækkaðar með nýjum og endurnýjuðum samningum. Þetta á eftir að taka nokkur ár því að það er ekki hægt að snúa þessu við í einu skrefi, munurinn var orðinn allt of mikill til þess,” segir Pétur að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar