Ásdís Kristjánsdóttir, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er nýr oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi, en hún sigraði með miklum yfirburðum í prófkjöri flokksins sem fram fór
sl. laugardag.
Langt umfram væntingar
Þú ert væntanlega ánægð með árangurinn og þann afgerandi stuðning sem þú fékkst í fyrsta sætið? ,,Já, svo sannarlega. Ég er auðmjúk og þakklát sjálfstæðismönnum í Kópavogi sem sýna mér svona mikið traust. Ég hlaut 76.8% atkvæða í 1. sæti. Það er langt umfram þær væntingar sem ég þorði að gera mér,” segir Ásdís.
Hef endrum og eins mátað mig við hið pólitíska svið
Nú má segja að þú hafir komið frekar óvænt inn í þessa baráttu og nafn þitt fór ekki að hljóma fyrr en Ármann Kr. hafði gefið það út að hann væri að hætta – hvernig kom það til að þú ákvaðst að gefa kost á þér og setja stefnuna þá beint á oddvitasætið – hefur pólitíkin blundað lengi í þér? ,,Ég hef starfað síðastliðin átta ár hjá Samtökum atvinnulífsins og allan þann tíma hef ég beitt mér á hinu pólitíska sviði með beinum hætti, hvort sem snýr að opinberum rekstri og hvernig fjármunum skattgreiðenda er forgangsraðað eða öðrum málaflokkum eins og skólamálum, velferðamálum eða málefnum aldraða svo dæmi séu tekin. Þetta eru allt málaflokkar sem ég hef lengi beitt mér fyrir hvort sem snýr að trúnaðarstörfum fyrir stjórnvöld eða á opinberum vettvangi. Hins vegar skal ég viðurkenna að undanfarin misseri hef í huganum endrum og eins mátað mig við hið pólítíska svið. Þegar ljóst var að Ármann Kr. myndi ekki sækjast eftir endurkjöri ákvað ég að nú væri rétti tíminn að stíga þetta skref. Það var stór ákvörðun að breyta svona til en ég er stolt af henni og spennt fyrir framhaldinu.”
Munum nýta okkur dýrmæta reynslu Hjördísar og Andra
Nú er það ekki bara svo að þú sért nýr oddviti flokksins heldur er mikil nýliðun á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Það er aðeins einn núverandi bæjarfulltrúi sem heldur áfram, Hjördís Ýr Johnson og Andri Steinn Hilmarsson, hefur verið varabæjarfulltrúi, en aðrir koma nýir inn í efstu sex sætin. Er það áhyggjuefni fyrir flokkinn fyrir komandi kosningar að nær öll reynslan sé dottin út? ,,Mér finnst þessi hópur sem sjálfstæðismenn völdu í sex efstu sæti listans sýna mikla breidd. Hópurinn býr yfir gríðarlega mikilli reynslu úr afar ólíkum áttum. Hann er kraftmikill og ég veit að hann mun leggja sig allan fram um að vinna að heilindum að hagsmunum allra Kópavogsbúa. Við munum nýta okkur dýrmæta reynslu bæði Hjördísar og Andra Steins og við hin mætum svo með öðruvísi, en ekki síður mikilvæga, reynslu úr okkar fyrri störfum.”
Vill standa vörð um ábyrgan og traustan rekstur
Nú fer sjálfsagt af stað stefnumótunarvinna hjá flokknum fyrir komandi kosningar, en hverjar voru þínar aðal áherslur fyrir prófkjörið, hvað er hægt að gera betur í Kópavogi til að bæta samfélagið? ,,Ég lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um ábyrgan og traustan rekstur og mér fannst heilt yfir hljómgrunnur hjá öllum frambjóðendum hvað þetta varðar enda er traustur rekstur forsenda þess að við getum áfram veitt framúrskarandi þjónustu.
Þá lagði ég einnig ríka áherslu á að við værum með framsækna og leiðandi skóla. Við eigum að stuðla að auknu sjálfstæði skóla enda sýna rannsóknir að aukið sjálfstæði helst í hendur við betra nám fyrir nemendur og vaxandi ánægju starfsfólks.
Við þurfum einnig að huga að auknum sveigjanleika í skólum sem nýtist bæði kennurum og vinnustaðnum með hagsmuni og menntun barna okkar að leiðarljósi.
Þá fann ég í baráttunni að sjálfstæðismenn hafa áhuga á þeirri uppbyggingu sem er fram undan í samgöngumálum enda greiðar og skilvirkar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífsstíl mikið lífsgæðamál. Framundan er mikil uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu og þá er mikilvægt að við stöndum vörð um hagsmuni Kópavogs í þeim efnum og tryggjum raunhæfar áætlanir.
Þá vil ég tryggja að sú uppbygging sem er framundan í hverfum Kópavogs stuðli að eins mikilli sátt og samstöðu og unnt er meðal bæjarbúa og að við hlustum á ólík sjónarmið í þessum efnum. Tryggja þarf snertingu við náttúru í hverfum Kópavogs og uppbyggingu innviða í takt við vaxandi bæ.
Loks lagði ég einnig áherslu á lýðsheilsu fyrir alla, unga sem aldna. Bærinn okkar á að vera framúrskarandi sem stuðlar að vellíðan á öllum aldursskeiðum. Þá gildir einu hvort horft er til aðstöðu til hreyfingar í nærum-hverfi eða mataræðis barna, eldri bæjarbúa eða starfsmanna bæjarins. Þá tel ég mikilvægt að eldri bæjarbúar fái tækifæri til að búa lengur heima eins og þeir kjósa með nauðsynlegum stuðningi og hér sé ég tækifæri til að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun. Kópavogur er sveitarfélag í fremstu röð á Íslandi og þannig skal það áfram vera undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.”
Ég er bæði ánægð og stolt af þessum efstu sex sætum
Og þú ert ánægð með nýjan framboðslista sjálfstæðismanna í Kópavogi og full tilhlökkunar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, spennandi tímar framundan? ,,Ég er bæði ánægð og stolt af þessum efstu sex sætum og hlakka til að sjá hvernig endanlegur framboðslisti mun líta út. En það er sjálfstæðismanna í Kópavogi að ákveða það. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan. Við ætlum okkur stóra hluti í kosningunum í vor og mætum full tilhlökkunar til leiks,” segir nýr oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi að lokum.