Nýtt húsnæði fyrir fatlað fólk vígt í Kópavogi

Sjö íbúða húsnæðiskjarni við Fossvogsbrún í Kópavogi var vígður í síðustu viku. Auk íbúða er sameiginleg sólstofa  í húsnæðinu og aðstaða fyrir starfsfólk en þar verður veitt sólarhringsþjónusta.
 
Með Fossvogsbrún bætist enn við þjónustu Kópavogsbæjar við fatlað fólk en alls rekur bærinn níu íbúðakjarna með sólarhringsþjónustu og hafa þrír verið teknir í notkun á undanförnum 10 árum með Fossvogsbrún og  aðrir verið endurbættir. Auk þess úthlutar sveitarfélagið að jafnaði tveimur til fjórum félagslegum leiguíbúðum á ári til fatlaðs fólks sem þarf þjónustu.

F.v. Guðlaug Ósk Gísladóttir, Þóra Ágústa Úlfsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Margrét Friðriksdóttir, Karen E. Halldórsdóttir, Nína Baldursdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Bergljót Kristinsdóttir, Theodóra S. Þorsteinsdóttir og Einar Þorvarðarson

Á næstu vikum munu íbúar flytja inn í Fossvogsbrún en ráðningu starfsfólks stendur yfir.
 
„Við höfum unnið skipulega að uppbygginu á húsnæði fyrir fatlað fólk frá haustinu 2014 þegar samþykkt var áætlun um uppbyggingu í bæjarráði Kópavogs og hefur mikil samstaða verið um málefnið í bæjarstjórn. Við erum hvergi nærri hætt því næsti íbúðarkjarni verður tekinn í notkun í Kleifarkór árið 2024,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri.
 
Íbúðakjarninn við Fossvogsbrún er staðsettur austast í Fossvogsdal. „Við lögðum mikinn metnað í þetta húsnæði og staðsetning þess er afar góð, í náttúruvin miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Hér er Fossvogsdalurinn í næsta nágrenni með öllum sínum möguleikum og veðursæld“ segir Karen E. Halldórsdóttir formaður velferðarráðs.
 
Væntanlegir íbúar, starfsfólks, bæjarstjóri og bæjarfulltrúar í Kópavogi, voru viðstaddir vígsluna og afhenti Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs Þóru Ágústu Úlfsdóttur lykla að húsnæðinu. Guðlaug Ósk Gísladóttir, deildarstjóri velferðarsviðs stýrði dagskrá.
 
„Fagmennska og metnaður er okkar áhersla í velferðarmálum og ánægjulegt að það bætist við húsnæði fyrir fatlað fólk í Kópavogi en nú þegar Fossvogsbrún hefur verið tekin í notkun eru 60 íbúar í Kópavogi í sértæku húsnæði á vegum bæjarins,“ sagði Guðlaug við tækifærið.

Forsíðumynd: Vígsla! F.v. Þóra Ágústa Úlfsdóttir, Karen E. Halldórsdóttir, Guðlaug Ósk Gísladóttir og Ármann Kr. Ólafsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar