Hafa sungið sinn síðasta tón

Eins og Garðbæingum er flestum kunnugt var starfsemi Kvennakórs Garðabæjar lögð niður fyrr á þessu ári eftir tuttugu ára öflugt starf. Ingibjörg Guðjónsdóttir, stofnandi og stjórnandi, skrifaði kveðju inn á fésbókarsíðu kórsins í byrjun sumars þar sem hún þakkar af alhug tuttugu góð og gjöful ár þar sem margs ber að minnast og margt ber að þakka. Mannauður, vinátta og óteljandi söngsigrar eru henni efst í huga og ómæld tryggð Garðbæinga og annara velunnara kórsins.

Dömurnar í kvennakór Garðabæjar við sumarbústað á Mýrum í Borgarfirði

Á slitafundi í júní sl. var kórkonum tilkynnt að farið yrði í formlega kveðjuferð á haustmánuðum. Ferða- og skemmtinefnd tóku til starfa sem lofuðu konum ógleymanlegri óvissuferð í Borgarfjörðinn. Tilhlökkun var mikil sem endurspeglaðist í frábæra þátttöku enda konur lítið sem ekkert hist frá því covid faraldurinn hófst.

Borgarfjörðurinn skartaði sínu fegursta í haustlitunum er konur hófu óvissuferð sína á að þiggja heimboð kórkonunnar Hafdísar Erlu í glæsilegan sumarbústað hennar við Brókarvatn á Mýrum. Konur áttu þar yndislega samverustund og gæddu sér á góðum veitingum í fallegu umhverfi. Þaðan lá leiðin í Reykholt, þann merka sögu- og kirkjustað, þar sem skemmtidagskrá var skipulögð um kvöldið og gistu konur á hóteli staðarins. Meðlimir skemmtinefndar fóru hreinlega á kostum í dagskrá kvöldsins er þær rifjuðu upp ógleymanlegar sögur og minningar úr kórstarfinu, enda af nógu að taka á löngum ferli. Að venju var mikið hlegið, sungið og dansað fram á nótt. Áður en haldið var heim á leið var farið í skoðunarferð með leiðsögn í Víðgelmi, helli í Hallmundarhrauni sem oft er nefndur konungur íslenskra hella. Eftir tæplega tveggja tíma ferð í einn stærsta hraunhelli heims var samdóma álit kórkvenna að söngur þeirra hafi verið einstök upplifun sem erfitt væri að toppa.

Kórkonur á leið niður Viðgelmi

Á heimleið eftir vellukkaða ferð voru konur þegar farnar að skipuleggja ferð að ári. Þótt kórinn hafi kvatt og sungið sinn síðasta tón þá er vinátta kórkvenna ævarandi, enda kórsystur!

Stjórnandi og fráfarandi stjórn vinna nú að því að finna eignum kórsins samastað hjá félagasamtökum og/eða stofnunum í Garðabæ. Einnig er stefnt að afhenda Hönnunarsafni Íslands eintak af rauða kórkjólnum sem vonandi mun prýða eina af sýningum safnsins í náinni framtíð.

Að leiðarlokum þakkar Kvennakór Garðabæjar Garðbæingum og velunnurum sínum auðsýnda tryggð sl. tuttugu ár.

Reykholti skartaði sínu fegursta er kvennakórskonur komu við

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar