Lionsklúbburinn Eik hefur alltaf látið umhverfismál sig varða, en klúbburinn hefur verið með gróðurreit í Smalaholti í meira en 30 ár.
,,Fyrstu árin vorum við með gróðursetningu á mel í Smalaholtinu. Svo var það mest umhirða á svæðinu og núna er komið að því að grisja þéttan skóg,“ segir Laufey Jóhannsdóttir, formaður verkefnanefndar í Lionsklúbbnum Eik í Garðabæ.
Fengu Evrópustyrk frá Lions ELVS sjóðnum
,,Þessa dagana er verið að vinna að umhverfisverkefninu í Smalaholti. ,,Lionsklúbburinn Eik fékk Evrópustyrk frá Lions ELVS sjóðnum til umhverfisbætandi verkefnis. Hugmyndin er að gera svæðið aðgengilegra svo allir geti notið útivistar á svæðinu. Við fengum garðyrkjumeistara til að aðstoða okkur við grisjun og að fella tré. Vel gekk að grisja og leigðum við stórtæk tæki til að vinna niður það sem var fellt af trjám. Klúbbfélagar voru svo með í kurlun og að leggja í stíga á svæðinu.
Næsta verk var svo að moka öllu kurlinu út í göngustígana. Við nutum aðstoðar garðyrkjumanna og svo var það vaskur hópur Eikarfélaga sem mokaði öllu kurlinu út og núna er allt kurlið komið í stíga,“ segir hún.
Gleði og kraftur í Eikarfélögum
Framundan er svo að koma upp þrepum í stíginn og gera svæðið aðgengilegra. ,,Með þessu verkefni er það markmið Lionsklúbbsins Eikar að gera allt svæðið opnara og aðgengilegra fyrir íbúa Garðabæjar og nágrennis að njóta úrivistar í afar fallegu skógræktarsvæði innan bæjarmarkanna. Það var svo mikil gleði og kraftur í Eikarfélögunum að vinna þetta frábæra umhverfisverkefni,“ segir Laufey brosandi.