Gott að búa í Garðabæ

Á undanförnum árum hafa húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu verið í brennidepli. Oft er talað um skort á húsnæði fyrir yngra fólk og barnafólk.

Á síðustu 5 árum hefur íbúafjöldi Garðabæjar aukist um 21% en á sama tíma hefur íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu aukist um 10%. Ekki er hægt að sakast við stjórnendur Garðabæjar um lóðaskort og uppbyggingu nýrra hverfa enda hefði aukning íbúafjölda í Garðabæ ekki orðið slík nema fyrir gott framboð af lóðum. Ef önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu öll skaffað jafn mikið framboð af lóðum hlutfallslega eftir stærð þá væri líklega ekki þessi umfram eftirspurn af húsnæði.

Uppbygging nýs hverfis

Urriðaholtshverfið var byggt upp í Garðabæ á síðustu árum og var þá stuðst við spár um íbúasamsetningu. Þegar íbúðirnar í vestri hluta hverfisins voru byggðar leit út fyrir að fyrri spár stæðust. Hverfið stækkaði smátt og smátt og kom þá á daginn að samsetning íbúanna varð önnur heldur en bæjaryfirvöld og ráðgjafar bæjarins spáðu. Miklu stærri hluti íbúanna voru barnafjölskyldur en áætlanir sögðu. Það eru eflaust margar ástæður fyrir því að flóra íbúa varð önnur en spáð var. Má þar t.d. nefna ýmsar ráðstafanir ríkisvaldsins til að liðka fyrir íbúðakaupum ungs fólks eins og hlutdeildarlán og fyrstu íbúða niðurfellingu á stimpilgjöldum. Einnig má halda því fram að ungt fólk á barneignaraldri eða með ung börn hafi leitað þangað sem framboð af hentugu húsnæði var í boði. Garðabær er þekktur fyrir að hlúa vel að barnafólki með góðum skólum og leikskólum og gæti það líka verið ein af ástæðum þess að eftirspurn barnafjölskyldna varð meiri en spár gerðu ráð fyrir.

Framvindan í nýju hverfi

Ný staða kallaði á skjót viðbrögð af hálfu bæjaryfirvalda.
Gunnar Einarsson, fráfarandi bæjarstjóri, hefur sagt að Garðabær ætlar að standa myndarlega að þjónustu við barnafólk í hverfinu á næstu árum og hefur framkvæmdaáætlun verið stillt upp. Garðabær hefur svo sannarlega þurft að takast á við vaxtarverki á síðustu árum. Það er gott að búa í bæ þar sem stjórnsýslan virkar og bæjarstjórinn er ávallt reiðubúinn til að mæta á fundi og hlusta á fólkið. Það er ákveðin mennska fólgin í þannig stjórnarháttum eins og Gunnar Einarsson hefur tileinkað sér og forverar hans í embætti gerðu einnig. Öll sú mennska er innsigluð í sjálfstæðisstefnunni um umburðarlyndi og með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Bjarni Th. Bjarnason.

Höfundur gefur kost á sér í 4.-6. sæti í prófkjörinu 5. mars.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar