Kosningar í nánd

Senn líður að prófkjörskosningum hér í Garðabæ. Í prófkjöri veljum við fulltrúa sem við treystum til að stýra bæjarfélaginu næstu árin, það er áríðandi að valið sé vel ígrundað.
Að bjóða sig fram til setu í bæjarstjórn á ekki að einkennast af gylliboðum heldur vel íhuguðum hugmyndum sem eiga að koma samfélaginu til góða. Það er því mikilvægt að hlusta á íbúana, heyra hvað þeir vilja. Eftir samtöl við íbúa bæjarins hafa mín áherslumál mótast.

Mannekla á leikskólum

Það þarf að takast á við manneklu í leikskólum bæjarins, gera leikskóla bæjarins að eftirsóknarverðum vinnustað. Það þýðir lítið að byggja fleiri leikskóla ef það er ekkert starfsfólk. Álag á leikskólastarfsfólki er mikið, það þarf að skapa gott starfsumhverfi og auka sveigjanleika í starfi.

Heilsugæsla Garðabæjar

Komið er að endurbótum á húsnæði heilsugæslustöðvarinnar í Garðabæ. Uppbygging í bænum hefur verið mikil undanfarin ár og fólksfjöldi því aukist. Það er mikilvægt að stækka heilsugæslustöðina í Garðabæ í takt við stækkandi sveitarfélag eða bæta við annarri heilsugæslu.

Þjónusta við eldri borgara

Veita þarf eldri borgurum þjónustu í takt við færni þeirra og heilsu. Þjónustan felst meðal annars í félagslegri heimaþjónustu. Veita þarf eldri borgurum félagsskap, næringu, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Ásamt því að tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir aldraða, þar á meðal þjónustuíbúðir. Af hverju ekki að fara að fordæmi Hafnarfjarðarbæjar sem niðurgreiðir íþrótta- og tómstundaiðkun íbúa á aldrinum 67 ára og eldri. Með því er verið að stuðla að heilsueflingu bæjarbúa og efla almennt heilbrigði þess aldurshóps.

Stuðningur fyrir börn og ungmenni

Geðheilbrigðis- , sálfræði- og talmeinaþjónustu þarf að efla og gera aðgengilegri. Stytta þarf biðtíma fyrir þá sem þurfa að komast í greiningarferli og þurfa á þjónustunni að halda.

Umferðaljós

Það er ekki ákjósanlegt að vera í biðröðum á ljósum og gatnamótum. Það þarf að fara í auknar stýringar og betri stillingar á umferðarljósum. Það getur bætt flæði mikið þar sem umferðateppur myndast.

Uppbygging á Álftanesi

Á Álftanesinu er talað um að fara í mikla uppbyggingu. Mikilvægt er að virða einkenni svæðisins og byggðarinnar um byggðamynstur, yfirbragð og ásýnd. Tölum við íbúana og sjáum hvað þeir vilja.

Urriðaholtið

Í Urriðaholtinu hefur verið mikil uppbygging og aukning á íbúum, sérstaklega yngra fólki. Í takt við það er ýmislegt sem þarf að lagfæra. Það þarf að auka lýsingar á göngustígum, bæta tengingu við nýja íþróttahúsið í Vetrarmýrinni, ásamt því að bæta tengingu við miðbæ Garðabæjar með göngubrú. Eins hafa íbúar óskað eftir því að sundlaug sem byggja á við skólann verði opinn og að hún henti öllum aldurshópum.

Byggjum upp bæjarfélagið út frá hugsjón bæjarbúa, þannig fáum við bæjarfélag sem er í fremstu röð.

Undirritaður býður sig fram í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 5. mars næstkomandi.
Sveinbjörn Halldórsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar