Opnunarhátíð og innflutningsboð í Hönnunarsafni Íslands 5. mars

Laugardaginn 5. mars klukkan 15 verður opnun sýningarinnar Sund í Hönnunarsafninu fagnað en sýningin hefur verið opin almenningi frá því í febrúar. Þá verður einnig innflutningsboð hjá vöruhönnuðunum sem kalla sig Studio Allsber en þær eru í vinnustofudvöl í safninu. Það er sannarlega fagnaðarefni að mega loksins bjóða gestum, óháð takmörkunum, til að koma saman og fagna opnun nýrrar sýningar og kynna sér hvað er um að vera í vinnustofu safnsins.

Sýningin Sund hefur nú þegar vakið mikla athygli og lof gesta sem og fjölmiðla. SUND nær yfir tímabilið frá sundvakningunni við upphaf 20. aldar til dagsins í dag. Sagan sem hún segir af sundlaugamenningu er um leið ylvolg sagan af íslensku nútímasamfélagi með léttri angan af klór og hveralykt, gufuslæðu og skvampi. Sýningin er styrkt af Safnasjóði og stendur fram á haust. Sýningin er afrakstur samvinnu milli Hönnunarsafns og þjóðfræðideildar Háskóla Íslands en sýningarstjórar eru Valdimar Tr. Hafstein þjóðfræðingur og Brynhildur Pálsdóttir hönnuður.

Studio allsber! F.v. Sylvía Dröfn, Silvía Sif og Agnes Freyja. Þær úrskrifuðust úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2020, en það sem einkennir verk þeirra er leikur, húmor og tilraunagleði

Studio allsber vinna nú í anddyri Hönnunarsafnsins. Að undanförnu hafa þær rannsakað hvað fólk talar um í heitapottinum og setningar sem þær hafa heyrt í pottinum hafa verið skráðar á bolla sem skapaðir voru á vinnustofunni og eru bollarnir nú seldir í safnbúðinni. Þær stöllur taka á móti gestum í spjall og geta nú loksins haldið innflutningsboð, þann 5. mars kl. 15. Hópurinn samanstendur af vöruhönnuðunum Agnesi Freyju Björnsdóttur, Silvíu Sif Ólafsdóttir og Sylvíu Dröfn Jónsdóttur. Samtöl fólks í sundlaugum og samband manna og fugla munu koma við sögu í hönnunarferlinu sem lýkur með uppskeruhátíð á HönnunarMars 2022.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar