Góð samskipti og öryggi í dagsins önn

Kæru íbúar í Garðabæ. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá velvild og þann stuðning sem ég hef fundið frá því ég tók við embætti bæjarstjóra í júní sl. Við í Garðabæ búum að því að eiga framúrskarandi starfsfólk sem vinnur af heilindum að því að veita bæjarbúum góða þjónustu. Þjónusta bæjarins hefur fengið góða einkunn frá íbúum en það er viðvarandi verkefni að bæta þjónustuna. Stór hluti af því eru góð samskipti við íbúa og eins að íbúar upplifi öryggi.

Öryggi íbúa

Það er fátt mikilvægara í hverju samfélagi en að íbúar upplifi sig örugga í dagsins önn. Sú upplifun byggir auðvitað á mörgum ólíkum þáttum. Það er mikilvægt að hlúa enn frekar að og efla nágrannavörslu í bænum. Nágrannavarsla hefur mikinn fælingarmátt gagnvart óæskilegum aðilum. Við höfum verið í góðri samvinnu við lögreglu um þessi mál og auðvitað er markmiðið að tryggja sem best að fólk upplifi öryggi heima hjá sér. Ég verð var við umræðu á íbúasíðum um þessi mál sem er mjög jákvætt og eykur meðvitund okkar allra ef innbrotahrinur gera vart við sig.
Undir lok sumars þegar skólar fara aftur af stað er mikilvægt að tryggja sem best öryggi skólabarna á leið í og úr skóla. Það eru ýmis mál í vinnslu sem þessu tengjast sem lúta að því að tryggja göngu- og hjólaleiðir, huga að lýsingu o.s.frv. Það er mikilvægt að bæjarbúar sendi okkur ábendingar um hvað þeir telja að megi betur fara í þessum efnum.

Í umræðu um öryggi íbúa get ég ekki látið hjá líða að nefna blessaða mávanna sem eru ansi aðgangsharðir allvíða í bænum og ég heyri miður fagrar sögur af því að fólk hræðist ágang þeirra. Við vinnum nú að endurskoðun á því hvernig við getum haldið mávastofninum í bænum í skefjum og frætt íbúa um hvað þeir geta gert heima við til að sporna við ágangi. Þessu fylgja áframhaldandi samskipti við Náttúrufræðistofnun varðandi friðland í Gálgahrauni en á öðrum svæðum er málið einfaldara. Svo því sé haldið til skila þá virðum við mávanna en viljum annars vegar að mófuglarnir njóti vafans og eins að sporna við ágangi mávanna inn í íbúðahverfi.

Miðlun upplýsinga og samskipti

Ég vil hvetja íbúa til að fylgjast með þeim upplýsingum sem við komum á framfæri um bæði stórt og smátt sem varðar bæinn okkar. Á vef Garðabæjar, gardabaer.is, eru bæði fréttir um ýmislegt sem varðar starfsemi bæjarins og mannlífið en einnig almennar upplýsingar um þjónustu og starf bæjarins. Garðabær er virkur á samfélagsmiðlum og er helstu fréttum og upplýsingum miðlað á Facebook og að einhverju marki í gegnum aðra samfélagsmiðla. Við höfum tekið upp þá nýbreytni að nú tökum við þátt í umræðum á íbúasíðum á Facebook í nafni bæjarins. Þar er markmiðið annars vegar að miðla mikilvægum upplýsingum og hins vegar að svara fyrirspurnum og leiðbeina fólki í átt að upplýsingum sem eiga erindi í umræðuna. Ég vona að þessi nýbreytni reynist vel.

Í september munum við blása til íbúafunda á fjórum stöðum í bænum. Þar mun ég ásamt sviðsstjórum bæjarins fara yfir stöðu mála sem varða sérstaklega nærumhverfi íbúa, taka þátt í umræðum og svara spurningum. Einnig mun ég á næstu vikum opna fyrir sérstaka viðtalstíma fyrir íbúa þar sem hægt verður að bóka fundi og ræða mál sem brenna á fólki.

Það styttist svo í fjárhagsáætlunargerð fyrir árin 2023-2026 en að vanda munum við óska eftir tillögum frá bæjarbúum um hvað megi betur fara í rekstri bæjarins. Að lokum má nefna lýðræðisverkefnið okkar „Betri Garðabær“ en næsta lota þess er núna í undirbúningi og þar munu bæjarbúar fá tækifæri til að senda inn hugmyndir um verkefni sem þeir vilja leggja áherslu á og síðan verður kosið um tiltekin verkefni. Í þetta skipti ætlum við að horfa sérstaklega til yngri bæjarbúa og nýta lýðræðisverkefnið Betri Garðabæ til að efla þeirra lýðræðisþátttöku og -vitund.

Ég vil óska öllum íbúum velgengni jafnt í starfi sem leik núna þegar sumri hallar og dagleg rútína tekur við. Við skulum öll leggja okkur fram um að bæta samfélagið okkar, viðhafa góð og opin samskipti og ekki síst að gera allt það sem við getum til að við upplifum okkur örugg í bænum okkar.

Almar Guðmundsson,
bæjarstjóri Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar