Í upphafi skólaárs 

Skólastarf í öllum skólum er að hefjast og skólasetning í grunnskólum Kópavogs, þar sem um 5.000 börn stunda nám fór fram 23. ágúst. Haustið einkennist af spennu og eftirvæntingu hjá börnum að komast aftur í skólann, hitta kennarana og skólafélagana og koma reglu á daginn aftur eftir sumarleyfi.
Gríðarleg tilhlökkun og líklega mesta eftirvæntingin er svo hjá þeim um 470 börnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í grunnskóla og að byrja í 1. bekk. Hörðuvallaskóli er eins og fyrri ár stærsti grunnskóli bæjarins með um 900 nemendur.

Skólastarf eftir Covid

Síðustu skólaár hafa einkennst af Covid heimsfaraldrinum en vonandi er honum nú lokið og við fáum eðlilegt skólastarf án takmarkana í ár. Eftir á þriðja ár af Covid faraldrinum er rétt að staldra aðeins við og íhuga hvernig við bregðumst við eftir heimsfaraldurinn og hvað við höfum lært af honum. Hvað getum við gert betur og hvað þarf að setja á oddinn.

Forvarnir í geðheilbrigðismálum

Sérstaklega þarf að huga að líðan barna í kjölfar covid og efla fræðslu til nemenda og foreldra í tengslum við andlega heilsu og forvarnir. Snemma á árinu 2021 var farið af stað með tilraunaverkefni í sex skólum í Kópavogi þar sem nemendum í 10. bekk var boðið upp á ráðgjafarviðtöl hjá skólasálfræðingi án aðkomu foreldra. Árgangurinn fékk einnig fræðslu hjá skólasálfræðingi um geðrækt og upplýsingar um hvert væri hægt að leita eftir stuðningi og hjálp og foreldrar fengu kynningarbréf um verkefnið. Almenn ánægja var með verkefnið og mikill vilji til að bæði útvíkka það og halda því áfram. Á síðasta skólaári buðu svo allir skólar í Kópavogi upp á ráðgjafarviðtöl og ljóst er að þetta er komið til að vera. Þann 14. október 2021 var geðræktarhúsið í Kópavogi formlega tekið í notkun. Hlutverk þess er að vera miðstöð fræðslu og forvarnastarfs á sviði geðheilbrigðismála hjá bænum og til að byrja með er áherslan á börn og ungmenni.

Á vegum mennta- og velferðarsviðs Kópavogsbæjar er boðið upp á kvíðanámskeið fyrir börn í leik- og grunnskólum og foreldra þeirra.

Klókir litlir krakkar er námskeið fyrir foreldra 3-7 ára barna með kvíðaeinkenni.
Klókir krakkar er námskeið ætlað 8-12 ára börnum með kvíðavanda og foreldrum þeirra.
Haltu kúlinu er námskeið ætlað 13-16 ára unglingum með kvíðavanda og foreldrum þeirra.

Fjárfestum í starfsumhverfinu

Menntastefna Kópavogs 2021-2030 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 12.10.2021, þar segir; „Faglegt, jákvætt, styðjandi og hvetjandi starfsumhverfi er forsenda árangurs. Stefnt er að því að nýta stafrænar lausnir og framsæknar aðferðir við stjórnun og stuðla að virkri þátttöku starfsfólks í ákvarðanatöku með það að markmiði að auka gæði þjónustu, sveigjanleika og starfsánægju.“
Við eigum að vera óhrædd við að prófa nýjar leiðir, nýjar aðferðir og lausnir til að einfalda og bæta starfsumhverfi í skólum. Jafnframt mætti afleggja eða einfalda eldri lausnir sem eiga ekki lengur við, eins og stimpilklukkuna, starfsmönnum og stjórnendum bæjarins til góða. Tryggja þarf faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði skóla sem eykur gæði náms og starfsánægju skólasamfélagsins. Áframhaldandi fjárfesting í stafrænum lausnum gegna lykilhlutverki í framtíðar starfsumhverfinu og það er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka.

Hrósum því sem vel er gert

Í Kópavogi eru reknir níu grunnskólar og tveir sjálfstætt starfandi grunnskólar, nítján leikskólar og tveir þjónustureknir.

Það kannast líklega flestir við það að einblína á það sem má betur fara eða þarf að laga. Jafnvel hafa orð á því frekar en því sem vel er gert. Mikilvægt er að halda því hátt sem einstaklega vel er gert og láta vita að eftir því er tekið.

Á síðasta skólaári hlaut leikskólinn Aðalþing bæði Íslensku menntaverðlaunin og einnig verðlaunin Orðsporið.

Þann 10. nóvember 2021 hlaut leikskólinn Aðalþing Íslensku menntaverðlaunin 2021 fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti. Á degi leikskólans, þann 6. febrúar 2022 hlaut Aðalþing svo verðlaunin Orðsporið, fyrir framsækið skólastarf og metnað í starfsþróun og umbótastarfi. Einnig fyrir að ráðast í fjölda þróunarverkefna og viðhafa lýðræðislega starfshætti í öllu starfi.

Ég vil nýta tækifærið og óska Herði Svavarssyni skólastjóra og öllu starfsfólki skólans, eigendum, nemendum og foreldrum innilega til hamingju með þessar glæsilegu viðurkenningar sem skólinn á svo sannarlega skilið. Við, Kópavogsbúar megum vera stolt og þakklát fyrir af hafa jafn framsækinn og öflugan leikskóla starfræktan hér í bæjarfélaginu. Mikilvægt er að bjóða fjölbreytni velkomna í rekstri skóla eins og í öðru, því fjölbreytnin breikkar úrval og valkosti og þannig veitum við gæða þjónustu til íbúa Kópavogs.

Í Kópavogi eigum við skóla í fremstu röð sem undirbúa börnin okkar sem allra best fyrir framtíðina, því börnin eru framtíðin og framtíðin er í Kópavogi.

Sigvaldi Egill Lárusson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar