Breiðablik er fyrstu Íslandsmeistarar (óopinberlega) í flokki 60+ í knattspyrnu. KSÍ vildi reyndar ekki viðurkenna keppnina því liðin voru bara þrjú, KR, Þróttur og Breiðablik, en Blikadrengjunum er sama um það og þeir líta á sig sem Íslandsmeistara, en ekki hvað. Breiðablik vann KR og Þrótt í öðrum leiknum en jafntefli í hinum og liðið fór því taplaust í gegnum mótið. ,,Lífið er núna,“ sagði einn góður Bliki eftir að sigurinn var höfn.
Konráð markvörður maður mótsins
Maður mótsins var Konráð Konráðsson markvörður Breiðabliks sem kom, sá og sigraði með glæsilegri frammistöðu. ,,Hann vann í raun mótið fyrir Blikaliðið með frábærri markvörslu,” sagði einn félagi hans í liðinu.
Haraldur varð Íslandsmeistari 76 ára
Þess má geta að Breiðablik var einnig með elsta leikmanninn í keppninni, Harald Erlendsson fyrrum íþróttakennara og leikmann meistaraflokks Breiðabliks. Hann varð 76 þar síðasta föstudag. Á hinni frábæru heimasíðu stuðningsmanna Breiðabliks www.blikar.is er hægt að fletta upp árangri Haraldar í knattspyrnu. http://blikar.is/leikmenn/haraldur_ erlendsson. Þar kemur fram að Haraldur lék 158 leiki með meistaraflokki Breiðabliks á árunum 1969-1976. Hann var einnig fyrsti þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu. Svo skoraði hann fyrsta mark Breiðabliks í efstu deild er Blikar unnu KR 1:0 árið 1971. Haraldur er sannarlega flott fyrirmynd og sýnir að menn geta haldið frískleika og fjöri langt fram eftir aldri með réttum lífsstíl og jákvæðu hugarfari.
Mikil lífsgæði að geta spilað fótbolta
Meðaldur Blikaliðsins var 63,1 ár. Liðið er með æfingar 3x í viku, en flestir eru að mæta að minnsta kosti 2x í viku fyrir utan aldursforsetann, Harald, sem mætir á allar æfingar. Þeir félagar í Blikaliðinu segja að þau séu svo mikil lífsgæði að geta spilað fótbolta saman þótt aldurinn færist yfir menn. ,,Það er ekki bara hreyfingin heldur líka klefastemmningin, grínið, spjallið eftir æfingar og sturtan. Það er í raun ekki hægt að útskýra þetta fyrir þeim sem hafa aldrei spilað fótbolta,” segir einn af Íslandsmeisturunum brosandi.