Þau gleðilegu tíðindi urðu þann 18. maí síðastliðinn þegar S. Helena Jónasdóttir formaður Kvenfélags Garðabæjar og Gunnar Einarsson bæjarstjóri undirrituðu samkomulag milli Garðabæjar og Kvenfélagsins um skil á félagsheimilinu Garðaholti að viðstöddum Guðrúnu Eggertsdóttur varaformanni félagsins og Guðjóni Friðrikssyni bæjarritara í Sveinatungu við Garðatorg. (Sjá mynd).
Stjórnin getur andað léttar
Stjórnin getur andað léttar að vera laus við ábyrgð á rekstri Garðaholts, sem Garðabær tekur við frá 1.júlí nk. samkvæmt samkomulaginu. Þetta verkefni hefur hvílt þungt á herðum stjórnarkvenna, stjórnin tók ákvörðun um að fá sér til ráðlegginga starfsnefnd um málefni Garðaholts skipuð reyndum félagskonum. Þeirra vinnuframlag er ómetanlegt, þeim er þakkað fyrir.
Orðið löngu tímabært að losna undan ábyrgð
Það var orðið löngu tímabært að Kvenfélagið losnaði undan þeirri ábyrgð að reka félagsheimilið á Garðaholti með tilheyrandi veitingarrekstri. Kvenfélagið hefur haft umsjón með rekstri hússins í um fimm áratugi, fyrsti formlegi samningur milli bæjarins og félagsins var frá árinu 1983. Stjórnir félagsins gegnum tíðina hafa haft tvískipta ábyrgð, ekki bara á félaginu heldur rekstri Garðaholts, sem hafa ráðið rekstrarstjóra á hverjum tíma samkvæmt samningum milli viðkomandi aðila og félagsins með umsjón á rekstri félagsheimilisins. Þess vegna sendi stjórnin bæjarstjóra bréf um að endurskoða samkomulagið um rekstur Garðaholts, sem nú er komið í höfn.
Ekk markmið Kvenfélagsins að standa í samkeppnisrekstri
Þetta voru tímanna tákn þegar engin samkomuhús önnur voru til staðar í hreppnum síðar bæjarfélaginu, ánægjuleg breyting hefur orðið síðari ár að veitinga – og kaffihúsum hefur fjölgað með hverju árinu í Garðabæ. Það á ekki að vera markmið Kvenfélagsins að standa í samkeppnisrekstri.
Félagsheimilið Garðaholt hefur verið frá stofnun félagsins, heimili og aðsetur til fundarhalda. Garðabær mun sjá til þess samkvæmt samkomulaginu að félagsstarf Kvenfélags Garðabæjar verði áfram á Garðaholti.
Aðalfund hefur ekki verið hægt að boða í félaginu í ár vegna kórónuveirunnar og fjöldatakmarkanna. Stjórnin mun boða til aðalfundar á Garðaholti þegar fjöldatakmörkunum er aflétt.
Félagskonur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að við getum ekki hist á Garðaholti í framtíðinni, það verður áfram okkar staður.
Með sumarkveðju
S. Helena Jónasdóttir, formaður
Erla Bil Bjarnardóttir, ritari