Endurrreisnin hafin

– eftir Jón Gunnarsson

Það deila fáir um að viðbrögð ríkisstjórnarinnar við afleiðingum kórónuveirufaraldursins fyrir almenning og atvinnulíf hafa skilað miklum árangri. Fjölmargar aðgerðir til stuðnings fólki og fyrirtækjum hafa létt byrðarnar og langt grunn að öflugri endurreisn efnahagslífsins, þegar jákvæðar afleiðingar bólusetninga blasa hvarvetna við.

Viðbrögð markaðarins við minnkandi ferðatakmörkunum á landamærunum hafa ekki látið á sér standa. Vaxtarkippur er hafinn í feðaþjónustunni og bjartsýni fer vaxandi og smitar út frá sér, fyrirtækin eru farin að ráða stafsfólk og hjólin farin að snúast á nýjan leik, hægt í fyrstu en vonandi með vaxandi hraða þegar líður á sumarið. Ekki verður annað séð en að endurreisnin sé hafin.

Þetta eru jákvæðar fréttir og afleiðing af skynsamlegri hagstjórn fjármálaráðherra sem fer fyrir efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Sú öfluga viðspyrna sem stjórnvöld hafa veitt í kórónuveirukreppunni, hefði ekki verið möguleg nema fyrir sterka stöðu ríkissjóðs sem lotið hefur stjórn fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins nær samfellt frá árinu 2013.

Það vekur hins vegar bæði undrun og vorkunnsemi að fylgjast með tilraunum stjórnarandstöðunnar til að fóta sig á þessu svelli, en til að gera stutta sögu enn styttri, þá hafa tillögur hennar verið vandræðalegar í einu orði sagt. Innistæðulaust orðagjálfur að mestu, í bland við upphrópanir og yfirboð. Engar tillögur að raunhæfum lausnum, aðeins ábyrgðarlaust tal.

Það er óvenjulegt að í því ástandi sem við höfum búið við undanfarið hálft annað ár, að verðbólgan er farin að láta á sér kræla. Seðlabankinn hefur brugðist við með hækkun stýrivaxta bankans. Orsaka verðbólgunnar er að finna í lækkun gengins krónunnar vegna samdráttar í útflutningi, minnkandi vöruframboði á erlendum mörkuðum vegna veirunnar og síðast en ekki síst hækkandi fasteignaverðs, einkum vegna heimatilbúinna aðstæðna. Tvennt hið fyrrnefnda mun ganga til baka í takti við rénun faraldursins. Þriðja ástæðan er heimatilbúin.

Það hefur ríkt spenna á fasteignamarkaði undanfarið og eftirspurn meiri en framboð. Reyndar er mjög jákvætt þegar þær aðstæður eru skapaðar á markaði að ungu fólki er gert mögulegt að kaupa sína fyrstu íbúð, líkt og gerst hefur undanfarið. Það er séreignastefna Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn. Það er hins vegar ekki bara gagnrýnisvert, heldur óboðlegt með öllu hvernig Reykjavíkurborg hefur haldið á lóða- og skipulagsmálum undanfarin ár.

Það hefur sem betur fer kveðið við annað tón í þessum málum í sveitarfélögunum hér í Kraganum. Segja má að lóðaframboð í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ hafi bjargað því sem bjargað varð í þessum málaflokki, þótt fjarri hafi verið að tekist hafi að fylla í það stóra skarð sem yfirvöld í Reykjavík skildu eftir sig. Vart þarf að minna á að það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er við stjórnvölinn í öllum þessum sveitarfélögum.

Reykjavíkurborg hefur leynt og ljóst unnið að því að þétta byggð og útrýma grænum svæðum innan borgarinnar og alls ekki sinnt þeirri skyldu sinni að hafa ávallt nægt framboð af nýjum byggingalóðum. Gjöreyðingarstefna borgarinnar gagnvart grænum útivirstarsvæðum víðsvegar í borgarlandinu skerðir ekki aðeins lífsgæði þeirra íbúa sem fyrir eru á þessum svæðum, hún stórhækkar einnig íbúðaverð sem er mikið áhyggjuefni. ´“Nýjar“ byggingalóðir inni í grónum hverfum leiða til stórhækkandi íbúðaverðs. Á meðan eru ódýrari byggingarlönd á jaðarsvæðum ónýtt. Afleiðingin er sú að íbúðaverð rýkur upp. Þegar ungt fólk hefur síðan fjármagnað íbúðakaup að mestu með lánsfé eins og eðlilegt er með fyrstu kaupendur, þá er sá hópur í einstaklega viðkvæmri stöðu þegar vextir hækka um leið og verð íbúða er áfram á hraðri uppleið

Því miður er verðbólguvandinn að þessu leyti heimatilbúinn. Þar bera borgaryfirvöld mikla ábyrgð. Þar ráða vinstri menn ríkjum með Viðreisnarhækjuna sér við hlið, eins og kunnugt er.

Höfundur óskar eftir stuðningi í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum dagana 10. – 12. júní.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar