Gerum góðan bæ enn betri

Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og framundan er tækifæri til að kjósa nýtt fólk inn í bæjarstjórn Garðabæjar, fólk með ferska og nýja sýn á bæjarmálin. Með samvinnu og lausnarmiðaðri nálgun viljum við frambjóðendur Miðflokksins veita meirihlutanum aðhald og munum við beita okkur fyrir því að gera góða bæinn okkar enn betri fyrir allar fjölskyldur.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á bæjarmálunum og þegar ég fékk tækifæri til að skipa 2. sætið á lista Miðflokksins í Garðabæ, sá ég tækifæri til að geta haft raunveruleg áhrif á bæjarmálin og dembdi mér af krafti í þetta spennandi verkefni. Ég hef búið í Garðabæ í 17 ár og hér hafa strákarnir mínir tveir alist upp, en þeir stunda nú nám við Garðaskóla og FG. Allt frá því að þeir hófu leikskólagöngu sína hef ég tekið virkan þátt í foreldra- og skólastarfinu, m.a. sem bekkjarfulltrúi á hinum ýmsu skólastigum og í stjórn foreldrafélags Hofsstaðaskóla. Ég hef einnig setið sem fulltrúi foreldra í Skólanefnd bæjarins og í Grunnstoðum Garðabæjar svo eitthvað sé nefnt. Sem móðir barns á einhverfurófi hef ég einnig góða innsýn á það sem betur má fara í stjórnsýslunni þegar kemur að upplýsingagjöf og stuðningi við foreldra barna með sérþarfir.

Miðflokkurinn teflir fram öflugum lista Garðbæinga sem vilja setja fjölskylduna í forgang; foreldrana, börnin, ömmu og afa.

Við teljum tímabært og munum beita okkur fyrir því að boðið verði upp á systkinaafslátt á æfingagjöldum íþróttafélaga bæjarins. Við viljum hlúa betur að andlegri heilsu barna og ungmenna með greiðu aðgengi að sálfræðingum í skólunum. Við viljum stórauka forvarnir í málum sem snúa að neyslu hugbreytandi efna, sem og notkun rafrettna og munntóbakspúða. Við viljum að ungar barnafjölskyldur fái betri búsetu möguleika og þurfi ekki að leita í nágranna sveitarfélögin við kaup á fyrstu eign. Við viljum færa stoðþjónustu svo sem iðjuþjálfun og þjónustu talmeinafræðinga inn í nærumhverfi skólanna. Við viljum lækka fasteignaskattana í takt við fasteignamat, en þar hefur átt sér stað mikil hækkun á síðasta kjörtímabili. Við munum beita okkur fyrir því að úthverfi Garðabæjar, Urriðaholt og Álftanes, verði ekki afskipt í samgöngumálum en þar þarf m.a. að bæta leiðarkerfi og tímatöflu frístundabílsins svo börn og unglingar sem búa á Álftanesi og í Urriðaholti komist til og frá Miðgarði á æfingar.

Með samvinnu og skynsamlegum lausnum viljum við gera góðan bæ enn betri fyrir fjölskyldur.
Setjum X við M þann 14. Maí.

Íris Kristína Óttarsdóttir
Skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar