Það eru spennandi tímar í Kópavogi

Það eru spennandi tímar í Kópavogi. Loforðaflaumur framboða er áberandi, allskonar uppákomur víða um bæinn þar sem tilvonandi bæjarfulltrúar bjóða gull og græna skóga gegn atkvæði til sín. Þetta gefur bæjarlífinu ákveðna stemningu sem mér finnst skemmtileg.

Það eru einnig mikil tímamót í skipan bæjarstjórnar. Margir núverandi bæjarfulltrúar hafa ákveðið að láta skóna á hilluna og kveðja nú þetta umhverfi saddir lífdaga. Ég er ein af þeim sem vil gjarnan fá traust til þess að halda áfram, en af hverju?

Ég hef verið bæjarfulltrúi í átta ár og hef notað tímann minn vel til þess að vinna að hag bæjarbúa. þetta starf er áhugavert en krefst mikils tíma og þekkingaráhuga þeirra sem vilja starfa í þessu næstu fjögur árin. Málaflokkarnir eru stórir og rekstur bæjarins er ábyrgðarverkefni.

Það hefur ekki verið mikil pólitík undanfarin ár í bæjarstjórninni. Við höfum starfað sem ein heild þrátt fyrir að vera skipuð í meiri og minnihluta. Áherslan hefur verið á samstarf og samtal bænum til heilla. Mér hefur fundist þetta vera skynsamleg aðferð þó hún taki alltaf á, þar sem að áherslur hvers og eins geta horfið í málamiðlanir. Þess vegna finnst mér áhugavert að fylgjast með framboðum bjóða upp á ýmis loforð sem ég veit af fenginni reynslu munu þynnast út og mörg hver eru háð fjármagni sem ekki er í hendi og erfitt að sjá hvar á að finna. Það sem sker sig helst úr í þessum kosningum er sérframboð óánægðra með skipulagsmál og hafa í raun ekkert annað á stefnuskránni. Við í Miðflokk og óháðum förum ekki í uppboð á loforðum sem ekki er hægt að standa við. Við bjóðum okkur fram til að starfa í þágu íbúa og þjónustu við þá sem leita til bæjarins.

Rekstur sveitafélaga um allt land er háð því að hér sé næg atvinna og verðmætasköpun. Við þurfum tekjur til þess að geta greitt starfsfólki laun og standa undir annarri þjónustu. Í dag eru laun yfir 60% af útgjöldum bæjarins og hefur þetta hlutfall farið stighækkandi undanfarin ár. Tekjumöguleikar okkar eru fáir og því þarf að vanda hvernig skal fara með skattfé almennings.

Valkostir bæjarbúa í þessum kosningum eru því ýmsir. Trúir fólk á loforðin að núna séu lausnirnar á öllum vanda bæjarins í hendi þessara og hinna framboða eða mun fólk skoða í þaula þá einstaklinga sem eru á framboðslistanum og treysta þeim frekar en gylliboðunum?

Ég er þakklát fyrir þann tíma sem bæjarbúar hafa treyst mér fyrir undanfarin átta ár, ég tek með mér og hef reynslu sem ég tel að geti nýst áfram næstu fjögur árin. Með mér er gott fólk sem kemur ferskt inn í bæjarmálin og vill bænum sínum og íbúum allt það besta.

Við óskum eftir stuðningi ykkar kæru bæjarbúar.

Karen Elísabet Halldórsdóttir. Höf er bæjarfulltrúi og oddviti Miðflokks og óháðra í Kópavogi. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar