GDRN syngur á Garðatorgi

Tónlistarveisla í skammdeginu skipar fastan sess í menningarlífi Garðbæinga og því er mikið tilhlökkunarefni að bjóða aftur til slíkrar veislu en að þessu sinni er það tónlistarkonan GDRN sem kemur fram.

Guðrún Ýr (GDRN) ásamt hljómsveit heldur tónleka á Garðatorgi fimmtudaginn 18. nóvember kl. 20

Vart þarf að kynna Guðrúnu Ýri Eyfjörð fyrir Garðbæingum en hún stimplaði sig inn í íslenska tónlistarsenu undir listamannsnafninu GDRN með plötunni ‘Hvað Ef’ árið 2018. Síðan þá hefur hún sungið sig inn í hjörtu landsmanna með frumlegri tónlist og einstakri sviðsframkomu. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 hlaut Guðrún Ýr fern verðlaun, þar á meðal fyrir popp-plötu ársins, lag ársins og sem söngkona ársins. Nýverið hefur hún verið að gera garðinn frægan í leiklistinni þar sem hún tók að sér hlutverk Grímu sem aðalleikona í Netflix sjónvarpsþáttaröðinni Kötlu. Guðrún er því spennt að komast aftur á svið og fá að flytja tónlist á Tónlistarveislu í skammdeginu í boði menningar- og safnanefndar Garðabæjar.

Guðrún Ýr vann hörðum höndum ásamt þeim Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni, Arnari Inga Ingasyni og fjöldanum öllum af hæfileikaríkum listamönnum að nýrri plötu sem ber nafnið GDRN sem kom út þann 21. febrúar 2020. Hljómsveitina skipa Bergur Einar Dagbjartsson, Magnús Jóhann Ragnarsson, Arnar Ingi Ingason & Rögnvaldur Borgþórsson.
Tónleikarnir eru kostaðir af menningar- og safnanefnd Garðabæjar en Lionsklúbbur Garðabæjar stendur fyrir veitingasölu á meðan á tónleikum stendur en tónleikarnir eru ókeypis.

Haustsýning Grósku verður opin í Gróskusal frá klukkan 19-22 þetta sama kvöld.
 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar