Í síðustu viku birtist grein í Morgunblaðinu þar sem tuttugu og sex oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum um land allt gagnrýndu vinnubrögð formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga í aðdraganda og eftir undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
Eftir fjölmennan fund með sveitarfélögum þar sem andstaða var nánast einróma um aðkomu sveitarfélaga í tengslum við áherslur ríkisstjórnarinnar um gjaldfrjálsar máltíðir var eftirfarandi bókun samþykkt í stjórn Sambandsins: „Stjórn Sambandsins óskar eftir því að ríkisvaldið leiti annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga. Stjórnin er reiðubúin til samtals um málið á breiðum grundvelli með það að leiðarljósi að tryggja barnafjölskyldum kjarabætur og velferð.“
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi og oddviti Sjálfstæðisflokksins, er ein af þeim sem skrifar undir greinina. Í greininni eru vinnubrögðin gagnrýnd og er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagður hafa unnið gegn vilja sveitarstjórna og bókunar stjórnar og þá hafi formaður haldið því ranglega fram í fjölmiðlum að sátt ríkti um framkvæmdina.
Mikilvægt að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga
Kópavogspósturinn spurði Ásdísi hvort það hafi komið sveitarfélögum í opna skjöldu að gjaldfrjálsar máltíðir skylda vera orðin lykilbreyta í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði? ,,Jú, það má með sanni segja. Við erum ósátt við vinnubrögðin og það litla samráð sem var haft við sveitarfélögin í aðdraganda þess. Ljóst er að samskipti milli formanns Sambandsins og forsætisráðherra hófust í upphafi árs en sveitar-félögin fengu ekki veður af þessu fyrr en í lok febrúar. Þá strax kom fram skýr andstaða við að fara þessa leið, sem einskorðaðist ekki bara við Sjálfstæðisflokkinn. Andstaðan snerist ekki um að sveitarfélögin vildu ekki styðja við barnafjölskyldur heldur með hvaða hætti það var gert og án samráðs við sveitarfélögin. Mikilvægt er að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga er snýr að mikilvægri þjónustu, eins og skólamáltíðum,” segir hún.
Undanskilur stóran hóp barnafjölskyldna eins og fjölskyldur leikaskólabarna
,,Þó stjórnvöld fjármagni meginhluta aðgerðarinnar þá er hér verið að stíga inn í mikilvæga þjónustu sveitarfélaga. Þá finnst mér ekki alveg liggja fyrir hvert er markmiðið með aðgerðinni. Þessi aðgerð styður sem dæmi aðeins við barnafjölskyldur grunnskólabarna en undanskilur stóran hóp barnafjölskyldna eins og fjölskyldur leikaskólabarna. Ef hugmyndin er að styðja við tekjulág heimili grunnskólabarna þá er betri leið til þess en að bjóða uppá fríar máltíðir fyrir öll grunnskólabörn óháð efnahag. Þá er mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélög grípa börn frá þeim heimilum sem ekki hafa efni á því að greiða fyrir skólamáltíðir,” segir Ásdís og bætir við: ,,Við erum kosin til valda af kjósendum, út frá ólíkum áherslum og það er að mínu mati mjög varhugarvert að þessi aðgerð leiki lykilhlutverk í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
Ég er reiðbúin að beita mér sem bæjarstjóri fyrir því að Kópavogsbær styðji við barnafjölskyldur í Kópavogi sem tryggir þeim kjarabætur. Hins vegar er það bæjarstjórn Kópavogs sem tekur ákvörðun um með hvaða hætti það er gert. Margar leiðir eru færar í þeim efnum.”
5000 grunnskólanemendur í Kópavogi
Hvað er margir grunnskólanemendur í Kópavogi og hvað mun þetta kosta bæjarfélagið ef allir fá fríar máltíðir? ,,Í Kópavogi eru tæplega 5.000 grunnskólanemendur. Ríkið hefur skuldbundið sig til að niðurgreiða 75% af kostnaði við skólamáltíðir sem metið að sé í kringum 4 milljarða en útfærslan á að liggja fyrir í ágúst. Gert er ráð fyrir að kostnaður sveitarfélaga sé einn milljarður þannig að miðað við stærð Kópavogsbæjar er árlegur kostnaðurinn þá um 120-140 milljónir þessi fjögur ár sem kjarasamningar eru í gildi. Eins og áður segir er það bæjarstjórn Kópavogs sem tekur ákvörðun með hvaða hætti stuðningi sveitarfélagsins verður háttað til barnafjölskyldna.”
Skólamáltíð grunnskólabarna kostar um 12 þúsund krónur í dag
Hvað kostar skólamáltíðin í dag og hver er hlutur Kópavogs, þ.e.a.s. er Kópavogur að niðurgreiða að hluta til skóla máltíðina? ,,Í dag kostar skólamáltíð grunnskólabarna um 12 þúsund krónur á mánuði og Kópavogsbær niðurgreiðir í dag um 20% af kostnaði þess.
Margir þættir spila inn í sem þarf að skoða eins og áhrif á matarsóun, gæði matar og næringu
Nú eru börnin mis dugleg að borða skólamatinn og sumum finnst hann ekki góður og kjósa að taka nesti með sér í skólann, reiknið þið með að það gæti orðið mikil rýrnun á matnum? ,,Þegar farið er í svona viðmiklar aðgerðir þarf ákveðin grunnvinna að eiga sér stað. Samtal hefði þurft að eiga sér stað við sveitarfélögin og málið skoðað út frá ólíkum hliðum. Margir þættir spila þarna inn í sem þarf að skoða eins og áhrif á matarsóun, gæði matar og næringu. Þeir sem til þekkja hafa á því skiptar skoðanir hvort þetta sé besta leiðin.”
Mikilvægt er að allir axli ábyrgðog stuðli að stöðugleika fyrir heimilin í landinu
En að öðru leiti er Kópavogur ánægður með kjarasamningana sem hafa verið gerðir? ,,Að sjálfsögðu ber að fagna því að langtíma kjarasamningar hafi tekist á almennum vinnumarkaði sem vonandi skapar svigrúm til lækkun verðbólgu og vaxta. Það réttlætir hins vegar ekki þá leið sem var farin gagnvart sveitarfélögum,” segir hún og bætir við að lokum: ,,Mikilvægt er að allir axli ábyrgð og stuðli að stöðugleika fyrir heimilin í landinu. Í því efni er mikilvægt að hafa í huga að opinberi markaðurinn á eftir að semja um kaup og kjör. Ég geri því fastlega ráð fyrir að þau fylgi þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið á almennum vinnumarkaði.”