Garðabær tekur á móti allt að 180 flóttamönnum

Garðabær tekur á móti allt að 180 flóttamönnum samkvæmt samningi sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, undirrituðu í dag. Þetta er ellefti samningurinn sem gerður er um samræmda móttöku flóttafólks síðan í nóvember síðastliðinn. Heildarfjöldi flóttafólks skv. samningunum nálgast 3.200.

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að.

Aldrei hafa fleiri komið til landsins á flótta en nú í ár og í fyrra. Frá áramótum hafa 1.730 manns sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, þar af nærri 350 börn. Margir umsækjendur koma frá Úkraínu en hingað leitar einnig fólk víða annars staðar frá í leit að alþjóðlegri vernd, svo sem frá Venesúela, Palestínu og Sýrlandi.

Auðgar samfélagið okkar

„Við viljum taka vel á móti flóttafólki og okkur hefur gengið vel í Garðabæ að halda utan um hópinn sem svo sannarlega auðgar samfélagið okkar. Það er mikilvægt að móttaka flóttafólks sé samræmd og þessi samningur rammar vel inn þetta mikilvæga verkefni ,“ segir Almar Guðmundssonbæjarstjóri Garðabæjar. „Við höfum tekið á móti fjölmörgum börnum á flótta sem er mjög viðkvæmur hópur sem þarf að hlúa vel að og þörf þeirra fyrir þjónustu er mikil. Við teljum nauðsynlegt að sveitarfélög vinni nánar með ríkinu og staðið sé vel að þeirri umgjörð.“

Gleðiefni að fá Garðabæ inn í þetta þýðingarmikla verkefni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fagnar því að Garðabær bætist í stækkandi hóp sveitarfélaga sem undirritað hafa samning um móttöku flóttafólks. „Það er gleðiefni að fá Garðabæ inn í þetta þýðingarmikla verkefni. Ég óska bæjarbúum öllum til hamingju og nýjum íbúum farsældar.

Mynd: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar