Garðabær lendir í 1. sæti í níu af þrettán almennum viðhorfsspurningum Gallup

Garðabær lendir í fyrsta sæti í níu af þrettán almennum viðhorfsspurningum í árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2022.

Alsæll með niðurstöðurnar

Það má segja að ég sé alsæll með þessar niðurstöður,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar en meðaltal Garðabæjar er töluvert hærra en meðaltal annarra sveitarfélaga í árlegri þjónustukönnun Gallup sem framkvæmd var í lok árs 2022 og byrjun árs 2023. Garðabær lendir þar í fyrsta sæti í níu af þrettán almennum viðhorfsspurningum eins og áður hefur komið fram. „Það er gott að sjá að heilt yfir kemur bærinn vel út en ég var sérstaklega ánægður með að sjá að þau sem hafa nýtt sér þjónustu bæjarins segjast vera ánægðari heldur en þau sem ekki hafa nýtt hana. Það segir sitt. Markmið okkar er ávallt að veita íbúum framúrskarandi þjónustu í fjölbreyttu og ört stækkandi samfélagi,“ segir Almar.

Alsæll með niðurstöðuna! ,,Markmið okkar er ávallt að veita íbúum framúrskarandi þjónustu í fjölbreyttu og ört stækkandi samfélagi,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri í Garðabæ

Skorið hækkar hjá Garðabæ á milli ára í öllum spurningunum nema einni þar sem skorið stóð í stað

Skorið hækkar hjá Garðabæ á milli ára í öllum spurningunum nema einni þar sem skorið stóð í stað. Þær spurningar sem hækka mest í skori frá því síðast eru m.a. um ánægju íbúa með aðstöðu til íþróttaiðkunar en þar er skorið 4,3 í ár (á kvarðanum 1-5) og lendir Garðabær þar í fyrsta sæti í samanburði við önnur sveitarfélög, jafnt einu öðru sveitarfélagi. Spurning um ánægju íbúa með þjónustu leikskóla hækkar einnig marktækt en þar er skorið 4,1 og lendir Garðabær einnig í fyrsta sæti þar í samanburði við önnur sveitarfélög, jafnt einu öðru sveitarfélagi. Ánægja með sorphirðu hækkar einnig marktækt á milli ára ásamt ánægju með skipulagsmál í sveitarfélaginu.

Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins

Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Í niðurstöðum Garðabæjar sést vel þau sem hafa nýtt sér þjónustu bæjarins segjast vera ánægðari heldur en þau sem ekki hafa nýtt hana.

Garðabær skorar í flestum tilvikum hærra en meðaltal sveitarfélaga

Aðrar viðhorfsspurningar þar sem Garðabær lendir í fyrsta sæti eru þegar spurt er um gæði umhverfisins í nágrenni við heimili, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskóla, þjónustu við eldri borgara, ánægju með hvernig menningarmálum er sinnt og ánægju með þjónustu sveitarfélagsins í heildina. Garðabær er í flestum spurningum í efstu þremur sætum og meðaltal úr öllum spurningum er hærra í öllum tilvikum í samanburði við önnur sveitarfélög, nema í einni spurning þar sem skorið er jafnt.

Áfram tækifæri til úrbóta í þjónustu við fatlað fólk

Út frá niðurstöðunum er áfram tækifæri til úrbóta í þjónustu við fatlað fólk en það er eini málaflokkurinn sem ekki hækkar á milli ára, en stendur í stað þegar spurt er um ánægju með þjónustu.

Á heildina litið eru niðurstöður úr þjónustukönnunni mjög góðar og ánægjulegt að margar spurningar hækka enn í skori á milli ára og að í flestum spurningum er Garðabær að skora töluvert hærra en meðaltal sveitarfélaga. Könnunin var framkvæmd frá 12. desember 2022 –23. janúar 2023 og var lögð fram til kynningar í bæjarráði Garðabæjar þriðjudaginn 14. febrúar.

Stefnt á að bæta þjónustuna enn frekar

Áfram verður rýnt í niðurstöður og einstaka þætti könnunarinnar hjá nefndum og sviðum bæjarins og skoðað með hvaða hætti Garðabær geti haldið áfram að bæta þjónustuna enn frekar. 

Niðurstöður fyrir Garðabæ úr þjónustukönnuninni eru aðgengilegar á vef Garðabæjar og þar má jafnframt sjá niðurstöður til samanburðar úr eldri könnunum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins