Vilja lækka aksturshraða á vegum sem eru með 50km hámarkshraða

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, fyrir hönd Garðabæjarlistans hefur lagt fram tillögu í bæjarstjórn Garðabæjar um lækkun hamarkshraða.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, kvaddi sér hljóðs og lagði fram og gerði grein fyrir eftirfarandi tillögu.

„Bæjarstjórn samþykkir að fela umhverfissviði að útfæra aðgerðir til lækkunar aksturshraða á sem flestum vegum innan Garðabæjar þar sem nú er 50 km hámarkshraði, t.d. með lækkun hámarkshraða og öðrum hraðatakmarkandi aðgerðum,“ segir í tillögunni og gerði Þorbjörg nánari grein fyrir tillögunni.

,,Í árekstri bíls á 30 km hraða og gangandi vegfaranda eru 95% líkur á því að vegfarandi lifi áreksturinn af. Keyri bíll á 40 km hraða eru 87% líkur á því að gangandi vegfarandi lifi af, en lífslíkur eru 71% eftir árekstur gangandi vegfaranda við bíl á 50 km hraða á klukkustund (Hussain o.fl. 2019). Alvarleg slys eru einnig algengari því meiri sem hraðinn er og við þetta bætist að því hraðar sem bílar keyra, því lengur tekur það þá að stöðva í aðstæðum þar sem þess þarf skyndilega við. Óháð umferðaröryggisástæðum gæti lægri aksturshraði innanbæjar einnig auðveldað Garðabæ áframhaldandi innviðauppbyggingu fyrir virka ferðamáta.
Lækkun aksturshraða eykur öryggi allra í umferðinni, en þá sérstaklega gangandi og hjólandi vegfarenda. Vegir innan Garðabæjar sem nú hafa 50 km hámarkshraða, þótt þeir séu ekki beinlínis innan íbúðahverfa, skera bæjarfélagið í sundur og verða þess valdandi að gönguleiðir milli hverfa sem liggja þétt upp að hvert öðru verða ekki eins öruggar og best væri á kosið. Dæmi um vegi sem tillagan gæti náð til undir þessum formerkjum eru Bæjarbraut, Vífilsstaðavegur, Karlabraut, Hnoðraholtsbraut og Suðurnesvegur,“ segir í greinagerðinni.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar