Urriðaholtsskóli – virðing, ábyrgð, umhverfi. Kynningar í grunnskólum Garðabæjar.

Innritun nemenda í grunnskóla Garðabæjar í 1. bekk (f. 2017) og 8. bekk (f. 2010) og fer fram dagana 1. – 10. mars. Innritað er á þjónustugátt Garðabæjar.

Kynningar í grunnskólum

Grunnskólarnir í Garðabæ bjóða í heimsókn og verða með opin hús/kynningar í húsnæði skólanna. Gestum gefst þá kostur á að skoða skólana í fylgd starfsmanna og/eða nemenda. Allir grunnskólarnir bjóða foreldrum og forráðamönnum einnig að koma í heimsóknir á öðrum tíma. Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu skólanna sé óskað eftir því. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að skoða vefsíður skólanna. Þar má finna gagnlegar upplýsingar og margskonar fróðleik um skólastarfið.

Opið hús/kynningar verða fimmtudaginn 2. mars, kl: 17:00–18:00 í Urriðaholtsskóla

Urriðaholtsskóli er samrekinn leik- og grunnskóli. Skólaárið 2023-2014 verður grunnskólastarf fyrir börn fædd frá 2009 til 2017 eða í 1.-9. bekk.

Þorgerður Anna Arnardóttir skólastjóri í Urriðaholtsskóla

Gildin okkar eru virðing, ábyrgð, umhverfi
Gildi skólans eru virðing, ábyrgð og umhverfi en þau voru valin af starfsfólki og nemendum skólans á fyrsta starfsári hans. Skólastarfið byggir á teymiskennslu starfsfólks og samkennslu árganga. Hverju barni er mætt þar sem það er statt til að styrkja frekari undirstöður til náms. Í Urriðaholtsskóla er lögð áhersla á að öll börn fái námsefni og kennslu sem tekur mið af því hvar þau standa í námi. Í skólanum eru notaðar gagnreyndar kennsluaðferðir en það eru þær aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að eru árangursríkar til kennslu. Þessar aðferðir stuðla meðal annars að því að efla sjálfstrú barna, gera þau ábyrg og meðvituð um eigið nám, eflir áræðni þeirra og færni í að takast á við áskoranir í leik og starfi.

Samstarf skólastiga
Hönnun skólans gerir ráð fyrir að hvert skólastig eigi sitt heimasvæði sem skapar aðstæður til að efla vinnu innan árganga, milli árganga og þvert á skólastig og er teymisvinna á milli starfsfólks ríkjandi. Leikskólastig, yngsta stig, miðstig og unglingastig skapar sitt samfélag á þann hátt að hver og einn fái að vera einstakur en um leið hluti af samfélagi. Á næsta skólaári verður haldið áfram að móta unglingastig Urriðaholtsskóla og festa félagsmiðstöðina Urriða enn frekar í sessi. Hver nemendahópur á sitt starfsmannateymi sem er ábyrgt fyrir sínum hópi sem saman stendur af tveimur til fjórum árgöngum. Það eflir samstöðu, samvinnu og verður til þess að styðja við börn og styrkja þau félagslega sem og námslega óháð aldri. List- og verkgreinar eru kenndar í smiðjum en verið er að byggja við skólann og farið er út fyrir boxið á meðan list- og verkgreinastofur eru í uppbyggingu.

Þróunarstarf
Urriðaholtsskóli hefur hlotið styrki frá Þróunarsjóði grunnskóla í Garðabæ og er í samstarfi við Morningside Academy um að innleiða kennslumódel sem byggt er á rannsóknum. Markmið verkefnisins er að byggja upp færni nemenda í grunnþáttum, máls, lesturs og stærðfræði. Aðferðirnar veita kennurum stuðning í að byggja upp jákvæðan aga og bekkjarstjórnun og nemendur þjálfa skólafærni og seiglu. Urriðaholtsskóli er í samstarfi Rannsóknarstofu í atferlisgreiningu hjá Háskóla Íslands með það að markmiði að efla kennslu í skólanum og tengja fræðasamfélagið við vettvang leik- og grunnskóla.

Velkomin í Urriðaholtsskóla
Skólinn er að ljúka sínu fimmta starfsári og uppvöxtur mikill, framkvæmdir á næsta byggingaráfanga eru í fullum gangi og gert ráð fyrir að hann verði tekinn í notkun á næsta skólaári og í kjölfar verði farið í þriðja byggingaráfanga skólans sem mun hýsa m.a. íþróttaaðstöðu skólans. Á vefsíðu skólans www.urridaholtsskoli.is má finna ýmsar upplýsingar um skólastarfið, hvetjum áhugasama um að kynna sér skólanámskrá skólans.
Fjölskyldur barna sem eru að fara í 1. til 9. bekk og hafa áhuga á að velja Urriðaholtsskóla eru velkomnar á opið hús fimmtudaginn 2. mars klukkan 17:00. Gengið er inn um aðal inngang.

Við hlökkum til að hitta ykkur,
Starfsfólk Urriðaholtsskóla

Urriðaholtsskóli, leik- og grunnskóli
v/Vinastræti
urridaholtsskoli.is
sími: 591 9500
netfang: [email protected]
Skólastjóri: Þorgerður Anna Arnardóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar