Galerie Garðatorg 

Á aðventunni leitum við í miðbæi til að upplifa mannlíf og menningu, helst utandyra. Flestir bæir hérlendis hafa aftur á móti lengi átt í vandræðum með sína miðbæi jafnvel á jólunum. Sumir eiga erfitt með að skilgreina miðbæjarkjarna og þróa því sundurleitar bæjarmyndir hér og þar í meðalstórum sveitarfélögum. Nálægðin við höfuðborgina og þá grósku sem þar býr getur verið í senn kostur og galli hvað þetta varðar en reynsla undanfarinna ára sýnir okkur að ánægja með þjónustu í heimabyggð hefur aukist. 

Pálmi Randversson segir Garðabæ í dauðafæri

Garðabær er í dauðafæri með glænýjan miðbæ sem hefur tekist ljómandi vel að byggja upp. Veitingastaðir og fataverslanir voru ekki til staðar í bænum fyrir örfáum árum en nú tökum við þessu sem sjálfsögðum hlut. Nýi miðbærinn hefur ýmis tækifæri sem að mati þess sem þetta ritar snúa flest að fækkun bílastæða, þéttingu og fegrun útisvæðisins en ekki verður farið nánar út í það hér. 

Gamli miðbærinn aftur á móti hefur aldrei náð sér á strik. Hvort um sé að kenna yfirbyggingu torgsins, framboði á þjónustu eða tíðaranda er vandasamt að segja til um en sannarlega er núna tækifæri til að koma hinu upprunalega Garðatorgi á þann stall sem því ber. Torgið hefur upp á flest að bjóða sem leitast er eftir við gerð lítilla bæjartorga. Skali húsa er hæfilegur og sömuleiðis breidd göngugötunnar. Lögun torgsins leiðir fólk þar í gegn til að sinna erindum eða skoða mannlífið og út annars staðar – sem er kjörhönnun torga og göngugatna. 

Flest er til staðar fyrir veitingastaði við torgið sem gætu afgreitt mat og drykk undir þaki og nýtt þá innviði sem bærinn sinnir „innanhússs“. Á góðviðrisdögum væri hægt að nýta gangstéttar og bílastæði undir berum himni til að stilla fram borðum og stólum. Garðatorg í heild sinni gæti orðið að virkilega aðlaðandi bæjartorgi þar sem verslanir og veitingastaðir, Hönnunarsafn Íslands, Gróska félag myndlistarmanna og fleiri tækju þátt í að skapa mannlíf og menningu í bænum til frambúðar. 

Ég sé fyrir mér franska göngugötustemningu með fallegum flísum og skreyttum búðargöflum. Fjölbreytt úrval lítilla veitingahúsa og þá þjónustu sem fólk kýs að sækja í heimabyggð; hárgreiðslustofur, efnalaugar, brugghús og bændamarkaði og jafnvel vínbúð – í hjóla- og göngufæri. Gleðileg jól.

Pálmi Randversson borgarhönnuðuðu og Garðbæingur

Myndin er frá yfirbyggðu göngugötunni Galerie Vero-Dodat í París

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar