Fyrirlestur í Hönnunarsafninu, sunnudaginn 19. mars

Sigrún Hanna Þorgrímsdóttir þjóðfræðingur flytur erindið Heimilið er hægfara atburður í Hönnunarsafninu, sunnudaginn 19. mars klukkan 13. Aðgangur á fyrirlesturinn og sýninguna Hönnunarsafnið sem heimili er ókeypis.
 
Viðfangsefni fyrirlestursins eru heimilishættir og efnismenning samtímans. Í erindinu er heimilið skoðað frá þjóðfræðilegu sjónarhorni, í heildrænu samhengi og sem samtvinnað ferli ólíkra áþreifanlegra og óáþreifanlegra þátta. Snert verður á fagurfræði hversdagsins, skynhrifum og heimilislegu andrúmslofti, ásamt hinni stöðugu baráttu við óreiðuna sem á sér stað innan veggja heimilisins frá degi til dags.
 
Heimilið verður til í neti ólíkra þráða, það er flókið fyrirbæri og illskiljanlegt sé ekki tekið mið af hinum margslungna vefnaði. Heimilið er skapað undir ákveðnum kringumstæðum oftar en ekki í byggingum sem mótaðar eru af hefðum, straumum og stefnum, en líka aðgengilegum efnivið, tækjum og tólum verktakans og byggingarreglugerðum. Heimilið er staður, það er tilfinning, það er samansafn hluta, það er fólk og það er lykt. Heimilið er hægfara atburður, alltaf í mótun og framkvæmd frá degi til dags. Erindið byggir á rannsóknar Sigrúnar Hönnu um heimili í stúdentaíbúðum. Sigrún Hanna stundar nú doktorsnám í menningararfs- og handverksfræðum við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar