Í tilefni Hrekkjavökunnar verður dagskrá fyrir fjölskyldur í boði laugardaginn 30. október.
Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi segir frá því að til hafi staðið fyrir ári síðan að bjóða fjölskyldum uppá hágæða jazztónleika á Hrekkjavöku en samkomutakmarkanir hafi komið í veg fyrir það.
„Það er auðvitað sérstakt fagnaðarefni að geta núna opnað dyr Tónlistarskóla Garðabæjar og boðið fjölskyldum að njóta einstakrar dagskrár en salurinn tekur 125 í sæti og ég vona að verði fullt út úr dyrum en tónleikarnir hefjast klukkan 14,“ segir Ólöf.
Tónleikarnir sem eru sannarlega með leikrænu ívafi voru fluttir fyrir yngsta stig grunnskóla Garðabæjar í janúar og óhætt að segja að krakkarnir hafi skemmt sér gífurlega vel, notið flottrar tónlistar en uppvakningar, kóngulær og draugar gera það að verkum að um mikla upplifun er að ræða.
„Ég vona að fjölskyldur í Garðabæ njóti Hrekkjavökunnar en dagskráin hefst á Bókasafni Garðabæjar þar sem fólk getur komið með grasker og áhöld og fengið leiðbeiningar við að skera út en útskurðurinn hefst kl. 11. Síðan heldur gleðin áfram með tónleikunum í Tónlistarskólanum klukkan 14 en þetta eru Leifur Gunnarsson kontrabassaleikari, Sunna Gunnlaugs píanóleikari og Ingibjörg Fríða söngkona sem hræða, fræða og skemmta gestum á öllum aldri,“ segir Ólöf að lokum og hvetur fólk til að mæta í búningum eða gervi.