Macramé í Menning á miðvikudögum

Menning á miðvikudögum hefur fest sig vel í sessi í Kópavogsbæ og hefur áherslan í haust verið ögn önnur en áður. Ákveðið var að vera með viðburði í hádeginu sem krefðust þess að þátttakendur tækju virkan þátt í stað þess að sitja og hlýða á fyrirlesara. Hefur þetta vakið einstaka ánægju meðal fólks og að sögn eins þátttakenda í Zen-teiknistund sem var á dagskrá fyrr í haust þá „er það einstaklega ánægjulegt að brjóta þetta upp og fá að prófa í örstund eitthvað nýtt og spennandi“.

Nú er komið að því að gestum og gangandi býðst færi á að taka fyrstu skrefin í macramé- listinni. Er macramé aldagamalt textílform sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin misseri. Hnýta má hluti til að fegra heimili en einnig er hægt að hnýta hluti sem hafa tilgang og notagildi. Við hnýtingarnar getur hugurinn öðlast ró, núvitund og sköpunargleðin blómstrar. Ætlar Katla Marín Stefánsdóttir, meistaranemi í klíniskri sálfræði og macramé-listakona að kynna listina, grunnhnúta og hvar sé best að byrja. Hefur Katla kennt um 200 manns að hnýta og prýða listaverk hennar einnig mörg íslensk heimili. Macramé er á dagskrá í hádeginu á Náttúrufræðistofu Kópavogs þann 27. október kl 12:15 – 13:00 og viljum við bjóða gestum og gangandi hjartanlega velkomin til að koma við í notalega núvitundarstund.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar