Forráðamenn 130 barna sótt um biðlistagreiðslur

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í lok júní greiðslur til forráðamanna barna 12 mánaða og eldri sem eru á biðlista eftir leikskólavist í Garðabæ. Um er að ræða reglur sem gefur foreldrum barna með lögheimili í Garðabæ kost á því að sækja um þátttöku Garðabæjar í kostnaði vegna vistunar barns, þar til því býðst vistun á leikskóla í bænum, enda njóti þeir ekki annarra niðurgreiðslna vegna vistunar barnsins.

Greiðslur miðast við almenna niðurgreiðslu hjá dagforeldrum fyrir átta stunda vistun sem er kr. 90.269 á mánuði en greiðslur falla niður þegar barni býðst leikskóladvöl í Garðabæ.

Reglur þessar voru samþykktar í því skyni að brúa bilið frá fæðingarorlofi og þangað til barn fær vistun í leikskóla. Þau börn sem verða orðin 12 mánaða og ekki komin með boð um vistun falla þá undir ofangreindar reglur.

Garðapósturinn spurði Almar Guðmundsson, bæjarstjóra í Garðabæ, hvað margir foreldrar hafi nýtt sér þetta úrræði? ,,Frá því að biðlistagreiðslurnar voru samþykktar í júní hafa forráðamenn 130 barna sótt um biðlistagreiðslur á einverjum tímapunkti í sumar,“ segir hann.

Gengið vel að innrita í leikskólana í haust

Innritun í leikskóla Garðabæjar hefur gengi vel, en markmið Garðabæjar er að öll börn sem eru orðin 12 mánaða þegar skólaárið hefst, 1. september ár hvert, eigi kost á leikskóladvöl. Hvernig hefur það gengið og sérðu fram á að engin þurfi að nýta sér biðlistagreiðslurnar eftir 1. september n.k.? ,,Það hefur gengið vel að innrita í leikskólana okkar í haust og yngsta barnið sem fékk úthlutun er fætt 30. ágúst 2021 og er að verða 12 mánaða. En það er rétt að taka fram að við höldum innritun áfram eftir hausti fyrir yngri börn fædd á árinu 2021 þótt sú úthlutun leikskólaplássa sem fer fram síðla sumars er sú umfangsmesta yfir árið enda fara þá elstu börnin yfir í grunnskólann. Á þessari stundu er því erfitt að segja til um hve margir þurfa að nýta sér biðlistagreiðslurnar eftir 1. september þar sem það verður reynt eftir bestu getu að innrita áfram eftir hausti. En markmiðið með greiðslunum var jú að koma til móts við foreldra í þeim tilvikum þar sem viðkomandi er ekki kominn með leikskólapláss eða pláss hjá dagforeldri eftir að fæðingarorlofi lýkur.“

Jákvætt að barnafólk vilji setjast hér að í bænum

Heildarfjöldi umsókna fyrir þetta leikskólatímabil voru 108 og þar af voru 19 flutningsbeiðnir milli leikskóla og 89 nýjar umsóknir en heildarfjöldi leikskólaplássa í Garðabæ eru 1354. Hefur Garðabær þá náð að bregðast við þessari miklu fjölgun umsókna fyrir þetta leikskólatímabil, bæði hvað varðar húsnæði og starfsfólks? ,,Börnum á leikskólaaldri hefur fjölgað og fjölgunin hefur verið einna mest í Urriðaholti eins og kunnugt er enda hverfi í miklum vexti og er það jákvætt að barnafólk vilji setjast hér að í bænum. Við höfum brugðist við þessari fjölgun en á síðastliðnu ári tókum við í notkun nýja ungbarnaleikskólann Mánahvol við Vífilsstaði með alls átta deildum og nú í september bætist Heilsuleikskólinn Urriðaból við Kauptún við sem verður sex deilda leikskóli. Jafnframt er verið að hefja byggingarframkvæmdir við nýjan leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti en þar eru aðrar sex deildir fyrirhugaðar. Einnig hefur á liðnum árum verið farið í endurbætur á húsnæðiskosti núverandi leikskóla með það fyrir augum að geta tekið við yngri börnum og það verkefni heldur áfram að gera húsnæði eldri leikskóla hentugri fyrir það starf sem þar fer fram. Í Garðabæ eins og annars staðar er þó staðan þannig að hér vantar starfsfólk til starfa í leikskólunum og það þarf að skoða það heildstætt hvernig hægt er að bæta úr því. Við höfum t.d. stutt við starfsfólk í leikskólum til þess að ljúka námi í leikskólakennarafræðum. Þá höfum við samþykkt sérstök fjárframlög til að auka sveigjanleika í starfi fyrir starfsfólk og ýta undir fagleg verkefni.“

Staðan betri í Garðabæ en víðast annars staðar á höfuðborgarsvæðinu

Þannig að staðan hvað leikskólamálin í Garðabæ varðar er mjög góð og jafnvel ívið betri en í öðrum sveitarfélögum á stór Reykjavíkursvæðinu? ,,Já, ég tel að staðan sé betri hér en víðast annars staðar á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar aldur barna við inntöku. Við höfum mikinn metnað til að viðhalda þeirri stöðu. Það er alveg ljóst að við þurfum áfram að vera á tánum við að búa til þannig starfsumhverfi í leikskólum okkar þannig að bæði nemendur og starfsfólk blómstri í leik og starfi,“ segir Almar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar