Fjölbreytt en lágstemmd dagskrá á þjóðhátíðardaginn

Framundan eru hátíðarhöld sem fara fram á nokkrum stöðum í Garðabæ en fjölskyldan ætti öll að finna hátíðlega og skemmtilega viðburði við hæfi.

Gunnar Valur Gíslason, formaður menningar- og safnanefndar var spurður út í helstu liði dagskrárinnar sem annað árið í röð verður með óvenjulegu sniði. „Það er auðvitað ánægjulegt að nú sér fyrir endann á heimsfaraldrinum og líf okkar hér á Íslandi fer að nálgast það að verða eðlilegt. Engu að síður lögðu sóttvarnaryfirvöld línuna varðandi hátíðarhöld á 17. júní og dagskráin hefur verið skipulögð með leiðbeiningar yfirvalda að leiðarljósi. Það sýndi sig í fyrra að fólk naut þess að fagna þjóðhátíðardeginum í faðmi sinnar fjölskyldu og nánustu vina og því eru viðburðir miðaðir að því að fjölskyldan geti notið í sameiningu, föndrað, dansað og siglt saman“ segir Gunnar Valur bjartsýnn í bragði (Mynd á forsíðu. Gunnar Valur Gíslason)

Hefðbundnir dagskrárliðir eins og ávarp fjallkonu og forseta bæjarstjórnar verða í rafrænu formi og sýnt á facebooksíðu Garðabæjar. Aðrir dagskrárliðir fara fram á söfnum bæjarins og á Garðatogi, á ströndinni í Sjálandi og á Króki í Garðaholti. Á Bókasafni Garðabæjar sem verður opið frá klukkan 12 – 17 en grímusmiðja fer fram frá kl. 13

„Það á vel við að bjóða fjölskyldunni að föndra saman grímur enda eru grímur okkur öllum hugleiknar eftir þennan skrítna vetur“ segir Gunnar Valur.

Á dagskrá á yfirbyggðum svæðum Garðatorgs verður til dæmis danspartý. Það sló í gegn á Barnamenningarhátíð og hafa sömu aðilar verið fengnir til að leiða alla fjölskylduna í dansi sem fer fram á Garðatorgi 7, fyrir framan bókasafnið og hefst dansinn klukkan 13.

Dans, tónlist og hönnunarsmiðja á yfirbyggðum torgum

Á dagskrá á yfirbyggðum svæðum Garðatorgs verður til dæmis danspartý. Það sló í gegn á Barnamenningarhátíð og hafa sömu aðilar verið fengnir til að leiða alla fjölskylduna í dansi sem fer fram á Garðatorgi 7, fyrir framan bókasafnið og hefst dansinn klukkan 13. Strax að loknum dansi mun hljómsveitin Karma Brigade leika, ef sólin skín þá munu þau koma sér fyrir utandyra á Garðatorgi en annars undir glerhjúpi Garðatorgs. Á yfirbyggðu torginu við Bónus fer fram fánasmiðja þar sem hönnuður aðstoðar gesti en sú smiðja stendur yfir frá klukkan 14 og tilvalið fyrir alla fjölskylduna að fara á milli staða og njóta. Þá er Hönnunarsafn Íslands opið frá 12-17 en þar er stórskemmtileg og merk sýning á hönnun Kristínar Þorkelsdóttur en mjólkurfernur, vörumerki og peningaseðlar eru meðal gripa á sýningunni. Smiðjan í Hönnunarsafninu geymir svo stærðfræðiþrautaborð sem öll fjölskyldan hefur gaman af að skoða.

Krókur á Garðaholti og ströndin í Sjálandi

Burstabærinn Krókur á Garðaholti verður einnig opinn á 17. júní frá klukkan 12-17 en Rúna Tetzchner safnvörður tekur á móti gestum með fróðleiksmola og utandyra verður boðið upp á gamaldags leiki sem tvær ungar konur stjórna. Þetta er í raun mjög yfirgripsmikil dagskrá þó lágstemmd sé því við ströndina í Sjálandi verður Skátafélagið Vífill með kanósiglingar og þrautabraut en vegna sjávarfalla hefst dagskráin þar klukkan 11.

Burstabærinn Krókur á Garðaholti verður einnig opinn á 17. júní frá klukkan 12-17 en Rúna Tetzchner safnvörður tekur á móti gestum með fróðleiksmola

Tónlistaratriði hér og þar um bæinn

Blásarakvintett skipaður ungu fólki var fenginn til að auka á hátíðleikann og þau leika í Ásgarðslaug klukkan 12, klukkan 13 við ströndina í Sjálandi, klukkan 14 við burstabæinn Krók og klukkan 15 við Hönnunarsafn Íslands. Þá fara hjónin Jóhanna Guðrún og Davíð um bæinn og leika klukkan 11:30 í Sjálandinu við ströndina, klukkan 12:30 við Hönnunarsafnið og klukkan 15:30 fyrir gesti Álftaneslaugar.

Kvöldtónleikar með bassasöngvaranum Bjarna Thor

Rúsínan í pylsuendanum eru svo tónleikar bassasöngvarans og bæjarlistamanns Garðabæjar 2020, Bjarna Thors Kristinssonar. Bjarni Thor mun flytja íslensk sönglög í hinum frábæra sal Tónlistarskóla Garðabæjar en með honum leikur píanóleikarinn Ástríður Alda.

Við fögnum þessu sannarlega

Gunnar Valur segir að lokum: „Það er ákaflega mikilvægt fyrir okkur að fá loksins að hlýða á tónleika með Bjarna Thor en sökum samkomutakmarkanna var ekki unnt að halda slíka tónleika á meðan hann bara titil bæjarlistamanns. Bjarni Thor er í stuttu stoppi á landinu og við fögnum þessu sannarlega“.
Rétt er að benda á að allir dagskrárliðir, aðgangur í sundlaugar og söfn er ókeypis sem og tónleikar Bjarna Thors sem hefjast klukkan 20 í Tónlistarskóla Garðabæjar. Gestir þurfa að tryggja sér sæti á tónleikana á tix.is en miða má panta undir tónlist á tix.is.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar