Þjóðhátíðarávarp bæjarstjóra

Nú sér fyrir endann á einu ótrúlegasta tímabili í ævi okkar flestra. Þetta tímabil hefur svo sannarlega minnt okkur á hve mikilvægt það er að standa saman. Við höfum staðið saman sem ein þjóð í einu landi. Sem Íslendingar höfum við oft þurft að stilla saman strengi og ganga í takt þegar við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum. Það tókst okkur í gegnum heimsfaraldurinn. Við stóðumst prófið.
Hátíðarhöld í tilefni 17.júní verða líkt og í fyrra á fimm stöðum í bænum, við menningarhús bæjarins, í Fagralundi í Fossvogsdal, við Fífuna, við Salalaug og við Kórinn.

Við brydduðum upp á þessari nýbreytni í fyrra, vegna samkomutakmarkana. Það er skemmst frá því að segja að mikil ánægja ríkti með ráðahaginn og nú endurtökum við leikinn og höldum upp á þjóðhátíðardaginn með hverfishátíðum víða um allan bæ.

Hátíðarsvæðin opna á hádegi til að dreifa álagi í hoppi-kastölum og tívolítækjum sem boðið er upp á í Fagralundi, við Fífuna, við Salalaug og Kórinn. Skemmtidagskrá verður milli tvö og fjögur og því líf og fjör á svæðunum góðan hluta úr deginum. Öll er skemmtunin án endurgjalds en gestir hvattir til að styrkja íþróttafélögin sem nýta daginn til fjáröflunar með sölu veitinga.

Í menningarhúsunum verður eins og í fyrra haldið upp á 17.júní í anda húsanna og boðið upp á skemmtun innandyra og utan. Þar er margt að sjá og skoða og svæðið mjög notalegt fyrir þá sem vilja lágstemmdari hátíðarhöld.

Þess ber að geta að við undirbúning hártíðarhaldanna höfum við tekið mið af samkomutakmörkunum og sóttvarnarráðstafanir hafðar í huga. Aðstæður eru vissulega allt aðrar en í fyrra en við tökum enga áhættu.

Það verður gaman að hittast á þjóðhátíðardaginn. Við eigum það öll skilið að eiga góða stund saman eftir óvenjulegan vetur.

Gleðilega þjóðhátíð.

Ármann Kr. Ólafsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar