Nú þegar vorið er að detta í hús þá fara landsmenn að huga að sumarmánuðum, en á síðustu árum hafa landsmenn verið duglegir að ferðast um landið.
Í Vikuhvarfi 6 í Kópavogi er að finna Víkurverk, rótgróið og reynslumikið fyrirtæki sem selur húsbíla, hjólhýsi, sporthýsi, fellihýsi og tjaldvagna auk ýmissa spennandi aukahluta sem eru nauðsynlegir með í ferðalagið.
Mikill áhugi og eftirspurn eftir ferðavögnum
Arnar Barðdal er framkvæmdastjóri Víkurverks og Kópavogspósturinn/Garðapósturinn vildu forvitnast nánar upp á hvað Víkurverk býður fyrir sumarið, en við byrjuðum þó á að spyrja hvernig ferðasumarið leggist í hann? ,,Mjög vel, við finnum að það er mikill áhugi og mikil eftirspurn eftir ferðavögnum. Það virðist vera mikill hugur hjá fólki að ferðast innanlands í sumar. Í Covid var lítið hægt að ferðast erlendis og landinn fór að kynnast landinu sínu betur og lærði að meta landið sitt á nýjan hátt. Það komu til okkar ungar fjölskyldur sem höfðu lítið sem ekkert ferðast innanlands en áttaðu sig fljótt á því hvað þetta er skemmtilegur ferðamáti sem er alveg frábært. Það tímabil varð líka til þess að stórfjölskyldur og vinahópar fóru að ferðast saman í hópum og það festist svo sannarlega í sessi.“
Hjólhýsin vinsælust
Þið bjóðið upp á fjölbreytt úrval af hjólhýsum, húsbílum, fellihýsum, sporthýsum og tjaldvögnum – er þetta ekki of mikið úrval og hver hefur verið vinsælasti ferðavagninn í gegnum árin og af hverju? ,,Raunverulega er mjög mikið úrval því við viljum geta þjónustað alla. Það sem er langvinsælast eru hjólhýsin. Það eru margar gerðir í boði, lítil og kósý hjólhýsi upp í stór hjólhýsi sem eru nánast eins og einbýlishús á hjólum en að sjálfsögðu er hægt að velja allt þar á milli. Það eru allskonar gerðir og útfærslur í boði og því sannarlega hægt að finna eitthvað fyrir alla. Við erum með margar gerðir af vögnum, meðal annars frá Hobby, Adria, Fendt, Burstner, Caravelair, Benimar, Aliner, Hero Ranger, Mink Campers og fleiri. Það er hægt að fá draumavagninn með misjöfnum útfærslum, með kojum, hjónarúmi, tveimur rúmum og svo lengi mætti telja, fyrir marga, fyrir fáa, það er bara spurning hvað hver og einn vill.“
Má ekki segja að hjólhýsi og húsbílar séu bara eins og hús á hjólum, þetta er orðið það vel útbúið og mikil þægindi? ,,Mikið rétt, það hefur verið mikil þróun í þá átt að ferðavagnar eru með öllum nútímaþægindum svo sem salerni, sturtu, eldhúsi, stórum og flottum ísskáp, vönduðum miðstöðvum, gólfhita og bara öllu því sem við viljum hafa til þess að upplifunin sé notaleg, nánast eins og heima hjá sér nema að þú ert líka að njóta í sveitasælunni. Það hefur færst í vöxt að fólk vill geta notað ferðavagnana sína allt árið um kring og staðarhaldarar hafa verið duglegir að bæta aðstöðuna hjá sér til að mæta aukinni eftirspurn. Sum svæði bjóða meðal annars uppá langtímadvöl.“
Gæti varla verið einfaldara
Eru þeir mjög ólíkir og misjafnt hvað hentar hverjum – fer valið jafnvel svolítið eftir aldri viðskiptavina og er ekkert flókið að ferðast með hjólhýsi í eftirdragi? ,,Jú, það má segja það, yngra fólkið/fjölskyldufólkið velur frekar kojuvagnana á meðan eldra fólkið fer meira í þá vagna sem eru með hjónarúmi eða tveimur rúmum. Það kemur fólki oft á óvart hversu auðvelt það er að draga hjólhýsin og tjaldvagna finnur þú varla fyrir í drætti. Fólk er yfirleitt fyrirfram búið að koma fyrir helstu nauðsynjum í vögnunum og þarf því kannski einungis að bæta við matvöru. Þegar þig langar að ferðast með stuttum fyrirvara er ekkert til fyrirstöðu nema að versla í matinn, tengja hjólhýsið aftan í bílinn og leggja svo af stað. Gæti varla verið einfaldara og svo er það bara að elta góða veðrið og njóta samverunnar. „
Seljið þið líka notaða ferðavagna? ,,Við seljum mikið af notuðum hjólhýsum, húsbílum, tjaldvögnum en lítið af fellihýsum. Salan á notuðum vögnum er líka í gangi allt árið en fer yfirleitt á fullt skrið í byrjun apríl. Við erum að selja í umboðssölu og einnig tökum við vagna upp í sem við svo endurseljum. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir notuðum hjólhýsum síðustu árin þannig að það ætti að vera auðvelt fyrir fólk að setja vagnana sína upp í aðra ef áhugi er fyrir nýrri týpu.“
Samvera með fjölskyldu og vinum er dýrmæt
Eins og þú nefnir má eiginlega segja að Íslendingar hafi áttað sig á ferðalögum innanlands þegar Covid-ið skall á og það varð m.a. sprengja í sölu á ferðavögnum. Finnið þið enn fyrir að landsmenn séu áhugasamir um að ferðast innanlands? ,,Já, það virðist ennþá vera sami áhugi og var í Covidinu ef ekki bara meiri. Það tímabil kannski minnti okkur hressilega á hvað samvera með fjölskyldu og vinum er dýrmæt. Eins og ég nefndi hér að ofan þá er mikið af yngra fólki sem áður hafði ekki ferðast mikið innanlands áttað sig á því hversu frábær ferðamáti þetta er og hvað landið okkar er einstaklega fallegt og hefur upp á svo margt að bjóða. Hingað koma ferðamenn í hrönnum og eru endalaust að dásama fegurð landsins og við sem hér búum vorum kannski aðeins farin að gleyma okkur. Við vitum öll hversu dásamlegt það er að ferðast innanlands, frjáls og þægilegur ferðamáti í stórkostlegu landi.
Uppblásnu fortjöldin hafa slegið
En þið eruð að selja svo mikið meira en bara ferðavagna því þið rekið eina stærstu aukahlutaverslun landsins. Hvað erum við að tala um þar og hverjir eru helstu aukahlutirnar sem þurfa að vera með þegar ferðast er innanlands? ,,Uppblásnu fortjöldin okkar hafa algerlega slegið í gegn! Frábær framlenging á vagninum og hægt að útbúa skemmtilegt seturými þar sem hægt er að vera með borð, stóla og jafnvel heitan pott,“ segir hann og brosir. ,,Hjá okkur er hægt að fá allt sem þarf í útlileguna, allt frá borðbúnaði, pottum og pönnum, lömpum og ljósum, fortjöld og skjólveggi. Okkur þykir einnig afar vænt um hvað verslunin okkar er vinsæl þegar finna þarf fallega gjafavöru og gjafakortin eru líka alltaf vinsæl. Einnig er vefverslunin okkar vaxandi. Við erum einnig með mikið úrval af stærri aukabúnaði sem þarfnast ísetningar á verkstæðinu, svo sem sólarsellur, movera, 5G loftnet, snjallsjónvörp svo eitthvað sé nefnt, þannig að það á ekki að væsa um fólk í útilegunni enda slagorðið okkar: Víkurverk – Allt í ferðalagið.“
Alltaf einhverjar nýjungar í ferðavögnum og aukahlutum á hverju ári
Eru alltaf einhverjar nýjungar í þessu á hverju ári, sama hvort það séu ferðavagnarnir eða aukahlutirnir? ,,Það eru alltaf einhverjar nýjungar í ferðavögnum og aukahlutum á hverju ári. Alltaf eitthvað spennandi og skemmtilegt. Við sækjum mikið sýningar erlendis, hvort sem það snýr að ferðavögnum eða aukahlutum. Við verðum auðvitað að vera í takt við þá eftirspurn sem er og bjóða upp á skemmtilegar nýjungar. Íslendingar eru alltaf með puttann á púlsinum og vilja nýjungar og öll þægindin sem hægt er að bjóða uppá. 5G netbúnaðurinn er alltaf vinsæll og mover-arnir. Einnig erum við farin að bjóða uppá að setja rafmagnsfætur undir hjólhýsi og það er að fara vel af stað, greinilega kærkomin nýjung.“
Frábært verkstæði og þjónusta ferðavagna allt árið
En eins og með hjólhýsin og húsbílana, þetta eru alvöru farartæki, hvernig er með viðhald á þessu og bjóðið þið upp á slíka þjónustu? ,,Við erum með frábært verkstæði og þjónustum ferðavagna allt árið um kring. Á tímabilinu maí til júní er brjálað að gera á verkstæðinu við standsetningu á nýjum vögnum, það er því um að gera að panta tíma með góðum fyrirvara ef þarf að gera ferðavagninn kláran fyrir sumarið, tala nú ekki um ef bæta þarf við aukabúnaði til að gera upplifun sumarsins enn betri. Þeir sem eru vanir að koma til okkar í þjónustu þekkja orðið að það getur verið erfitt að komast að hjá okkur á sumrin en við leggjum okkur fram eins og við mögulega getum að þjónusta alla sem á þurfa að halda. Varðandi stærri verk eins og tjónaviðgerðir þá velur fólk oftast að koma með vagnana sína til okkar eftir sumarið eða yfir vetrartímann, hentar þeim betur og í rauninni verkstæðinu okkar líka. Verkstæðið vinnur tjónamat fyrir tryggingafélögin. Einnig er varahlutalagerinn stór og svo sjáum við um að sérpanta varahluti ef þörf er á allt árið um kring.“
Hvernig er það er ekki orðið of lítið pláss fyrir alla þessa ferðavagna? ,,Við erum nú svo heppin að búa í landi þar sem nægilegt rými er fyrir alla og eigendur ferðavagna geta fengið leigð stæði í vetrargeymslum víða um landið. Einnig hefur Kópavogur og önnur nærsveitarfélög boðið ferðavagnaeigendum að geyma vagnana sína á ákveðnum stæðum sem bærinn á og hjá völdum skólum þegar skólaárinu er lokið. Einstaklega gott framtak hjá þeim og viðskiptavinir okkur, sem eru 20% þjóðarinnar hafa tekið vel í þetta framtak Kópavogsbæjar og óspart látið okkur vita af ánægju sinni með þetta. Ég vill líka nota tækifærið og hrósa Kópavogsbæ fyrir að leyfa ferðvagnaeigendum að geyma vagnana við Fífuna síðsta sumar, sannarlega frábært framtak.“
Er notkun ferðavagna aðallega yfir sumartímann? ,,Nei, alls ekki. Landsmenn eru að nota ferðavagnana allt árið um kring sem er alveg gríðarleg breyting frá því sem áður var. Víkuverk afhenti nýja ferðavagna alla mánuði ársins í fyrra nema í desember og við byrjuðum svo að afhenda vagna aftur í janúar sl. Eins og áður hefur komið fram þá eru ferðavagnar orðnir það vandaðir að þeir þola betur heilsársnotkun og sumir eru hannaðir sérstaklega fyrir það. Einnig vilja eigendur njóta þess að vera í ferðavögnum sínum yfir lengri tíma en bara sumarið. Eins hafa staðarhaldarar mætt þeirri eftirspurn af mikilli prýði.“
Þarfa huga vel að hverjar þarfirnar eru
En með hverju mælir þú þegar fólk er að gera sín fyrstu kaup? ,,Ég myndi mæla með því að huga vel að því hverjar þarfirnar eru, hvað þarf vagninn að rúma marga í svefnrými og meta fjárhagsstöðuna. Stundum myndi borga sig að kaupa nýtt hjólhýsi en stundum gæti hentað betur að kaupa notað.
Við fyrstu kaup mæli ég með því að byrja smátt, prufa sig áfram, læra inn á vagninn og þannig finna hvað hentar ykkur best. Auðvelt væri svo að stækka við sig, bæta við aukabúnaði og svo framvegis. Vera dugleg að ráðfæra sig við söluráðgjafana okkar og þá vini og vandamenn sem eiga ferðavagna.“
Sat skælbrosandi í ísköldum heitum potti
Svo hafa landsmenn tekið eftir sjónvarpsauglýsingum ykkar sem slegið hafa í gegn með Pétri Jóhanni, Erni Árna og Góa, þær hafa heldur betur hitt í mark, það hefur væntanlega verið góð stemmning við upptökur þeirra? ,,Já, heldur betur, það er aldrei lognmolla í kringum þessa snillinga og það var mikið hlegið. Auglýsingarnar voru teknar upp með stuttum fyrirvara á fimmtudegi í október og það var mjög kalt úti. Þegar þú horfir á auglýsingarnar þá virðist takan vera um mitt sumar en svona er showbusiness ekki satt,“ segir hann og hlær áður en hann heldur áfram: ,,Það reyndi á Pétur Jóhann því við vorum í brasi með að hita pottinn við tökur og hann sat í október í ísköldum potti en átti að vera heldur betur að njóta. Það var svo gaman hjá okkur að upp frá þessu kom jafnvel sú hugmynd um að gera bíómynd sem fjallar um útilegu með þessum skemmtilegu karakterum, ég meina hver myndi ekki vilja sjá þá mynd. Þetta var mjög skemmtilegt og vorum við komin með harðsperrur í magann vegna hláturs.“
Það geta allir fundir eitthvað við sitt hæfi
Og þú hvetur alla til að koma við hjá ykkur í Víkurhvarfi og að ferðast í sumar? ,,Já að sjálfsögðu geri ég það, ekki spurning. Hjá okkur í Víkurverk geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Glæsilegur sýningar salur með ferðavaögnum, mikið úrval af uppblásnum fortjöldum/tjöldum, borð, stólar og ýmislegt sem er algjör snilld í útileguna, á svalirnar nú eða á pallinn heima því vörurnar sem við erum með eru vel valdar og vandaðar. Smávöruverslun okkar er sneisafull af öllu því sem þarf til að gera ferðalagið notalegra, margir segja að þetta sé skemmtilegasta verslunin,“ segir Arnar brosandi.
Skemmtilegasta æskuminningin er útilega
En á hvernig ferðavagni er Arnar Barðdal og hvaða staður er í uppáhaldi hjá honum þegar hann ferðast innanlands? ,,Ég var á Hobby 620 hjólhýsi en er núna nýverið búin að fá mér Adria Alpina 663. Mér finnst alltaf gaman að fara á Arnarstapa og að þvælast um á Suðurlandi. Ég elti bara góða veðrið og nýt í frábærum félagsskap. Mig hefur lengi dreymt um að fara á Vestfirðina og vonandi næ ég að gera það í sumar.
Þegar fólk er spurt hver sé besta æskuminning þeirra þá er algengasta svarið að að vera í útilegu með foreldrum sínum eða með ömmu og afa. Við viljum því gera það sem við getum til að gera frí viðskiptavina okkar sem eftirminnilegast. Þetta snýst alltaf um upplifunina og lífið snýst um að skapa sem mest af skemmtilegum minningum saman,“ segir Arnar að lokum