Fékk Sjálfstæðisgenin úr föðurættinni

Á aðalfundi Sjálfstæðisfélag Garðabæjar þann 5. júlí sl. var kosin ný stjórn og Sigríður Indriðadóttir tók við sem nýr formaður félagsins, en Sigþrúður Ármann, sem hefur verið formaður félagsins undanfarin ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku þar sem hún skipar 6. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í komandi Alþingskosningum.

Við erum afar rík

En hver er Sigríður Indriðadóttir, hvar ólstu upp og hvar bjóstu áður en þú fluttir í Garðabæ, gift og börn? ,,Ég er fædd og uppalin á Akranesi. Maðurinn minn heitir Gísli Svanur Gíslason og við eigum samtals fimm börn á aldrinum 15 – 27 ára og eitt barnabarn á leiðinni, svo við erum afar rík. Gísli er frá Grundarfirði, svo við erum bæði Vestlendingar sem völdum að búa okkur heimili hér í Garðabænum.”

Hluti af fjölskyldunni! Gísli Svanur, Mirra Björt (nemandi í FG og markaðsstjóri í stjórn NFFG), Sigríður og loks Viktor Leó sem er sölumaður í Byko. 

Draumurinn hennar að fara á leiklistabrautina í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að flytja í Garðabæ og hvernig kanntu við þig? ,,Þegar ein dóttirin, þá 16 ára, var að útskrifast úr 10. bekk á Akranesi, var draumurinn hennar að fara á leiklistabrautina í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Ég hef alltaf verið frekar spontant og þar sem ég hef sótt vinnu á höfuðborgarsvæðinu síðan 2007 fannst mér þetta kjörið tækifæri að hætta að keyra Kjalarnesið. Ég hafði lengi haft augastað á Garðabæ, því mér finnst mikið til þessa bæjarfélags koma og það varð úr að við fluttum hingað. Við Gísli Svanur keyptum okkur hús miðsvæðis í bænum sem við erum búin að vera að endurnýja síðasta árið. Við erum alsæl með bæinn okkar, staðsetningin er geggjuð, nágrannarnir yndislegir, veðráttan einstök og Fjölbrautaskólinn í algerum sérflokki. Hér hefur verið tekið mjög vel á móti okkur í alla staði og hér líður okkur afar vel.”

Og þú ert ekki að stíga þín fyrstu spor þegar kemur að sveitarstjórnarmálum? ,,Ég
hef ágætisreynslu bæði sem kjörinn fulltrúi á Akranesi og eins sem starfsmaður í stjórnsýslunni bæði hjá Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ. Ég þekki málefni og áskoranir sveitarfélaga því út og inn báðum megin frá og veit því hversu mikilvægt sveitarstjórnarstigið er þegar kemur að lífsgæðum íbúa.”

Forseti bæjarstjórnar í þriðja ættlið!

Og þú hefur þá ákveðnar skoðanir á bæjarmálum? ,,Já, ég hef gaman af pólitík, og fékk Sjálfstæðisgenin úr föðurættinni, en bæði afi minn og langafi minn voru í Sjálfstæðisflokknum og það vill þannig til að við öll þrjú vorum forsetar bæjarstjórnar á Akranesi. Ekki á sama tíma samt, augljóslega! Það fólk sem velur að starfa í pólitík er hugsjónafólk sem vill leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið betra og auka lífsgæði fólks í víðum skilningi. Sjáflstæðisstefnan felur í sér baráttu fyrir sjálfstæði landsins og réttlátu þjóðfélagi frjálsra einstaklinga og að réttur til frelsis, eignaréttar og jafnréttis séu frumréttindi hverrar manneskju. Gott og heilbrigt samfélag byggir á frjálsu atvinnulífi með frjálsri samkeppnni og það eru þessi grunngildi sem mér finnst mikilvægt að vinna að í víðum skilningi, hvort sem það er á sveitarstjórnarstiginu eða í landsmálunum.”

Stjórn Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ

Stolt af því að tilheyra þessum hópi

Búsett rétt rúm tvö ár í Garðabæ og orðin formaður Sjálfstæðisfélags Garðabæjar, hvernig kom það til og þú hefur greinilega mikinn áhuga á sveitarstjórnarmálum? ,,Ég hef starfað á þessum vettvangi lengi og þegar ég flutti hingað í Garðabæinn gekk ég að sjálf-sögðu í Sjálfstæðisfélagið hér og kynntist þar öllu því frábæru fólki sem þar starfar. Fyrir ári síðan var leitað til mín með að koma í stjórn félagsins og ég var nú aldeilis til í það. Svo fór Sig-þrúður Ármann, okkar ástsæli formaður til þriggja ára, í framboð í prófkjörinu okkar í vor, og þá æxlaðist það bara þannig í umræðu okkar á stjórnarfundi að ég tók að mér að vera formaður. Ég er mjög þakklát fyrir það tækifæri og glöð með að öll stjórnin hélt áfram, þannig að þessi öflugi og heilsteypti hópur frá fyrra ári er algerlega samstíga í öllum þeim verkefnum sem við erum í og framundan eru. Maður þarf auðvitað að hafa mjög mikinn áhuga til að sinna pólitík samhliða annarri vinnu og ég verð bara að hrósa mínu samstarfsfólki í stjórninni fyrir mikinn áhuga og óeigingjarnt starf í þágu íbúa bæjarins. Ég er mjög stolt af því að tilheyra þessum hópi.”

Nú þekkir þú vel til upp á Skaga, en hvernig er samanburðurinn við Garðabæ hvað varðar rekstur og þjónustu almennt við bæjarbúa? ,,Bæði sveitarfélögin eru öflug og vel rekin og þjónustustig við íbúana er með því besta sem gerist á landinu. Garðabær er töluvert stærra sveitarfélag en Akranes og það er gott að búa á báðum stöðum. Þjónusta við bæjarbúa er alveg til fyrirmyndar á báðum stöðum og í könnunum sem hafa verið gerðar meðal íbúa sveitarfélaga í gegnum árin hafa báðir bæirnir almennt komið mjög vel út. Slíkur árangur er ekki sjálfgefin og það þarf mikla vinnu til að viðhalda því. Okkar bæjarfulltrúar hér í Garðabænum standa sig afar vel í þeirri vinnu og við í grasrótinni gerum hvað við getum til að styðja við bakið á þeim. Og viljum í raun gera enn betur í þeim efnum á komandi misserum. Bærinn okkar hefur farið stækkandi, hingað flytja barnafjölskyldur í auknum mæli og bæjaryfirvöld eru að standa sig vel í að taka á móti öllum þessum nýju íbúum. Svo ég er mjög ánægð með hvernig staðið er að málum og þjónustu við íbúa hér í bænum. Ef eitthvað kemur upp finnst mér tekið á því að fagmennsku og allra leiða leitað til að leysa málin farsællega.”

Í veiði! Viktor Leó, Gísli Svanur og Sigríður

Elska hvað er mikið líf hérna í Garðabæ

Það var löngum talað um Garðabæ sem svefnbæinn mikla, en nú ert vart þverfótað fyrir flottum kaffi- og veitingahúsum um allan bæ og skemmtilegum miðbæjarkjarna. Hefur þú kíkt á þessa staði og hvernig finnst þér stemmningin vera í bænum? ,,Já, ég elska hvað er mikið líf hérna! Þetta er sturlað skemmtileg þróun sem er að koma mér ánægjulega á óvart. Og sér ekki fyrir endann á henni enn sem betur fer. Það þarf ekki alltaf að sækja vatnið yfir lækinn og mér finnst íbúarnir hér hafa tekið vel í þessa uppbyggingu. Ég er búin að kíkja á alla þessa staði – nema ég á einn stað til góða enn, Dæinn í Urriðaholti, sem ég hef heyrt að sé mjög skemmtilegur. Mér finnst líka frábært að geta gengið heiman frá mér og á Garðatorgið eða út á Sjáland til dæmis, þar sem er oft mikil stemning þegar gott er veður og bæði hlaupandi og gangandi stoppa til að gera vel við sig og njóta matar og drykkjar í frábæru umhverfi með geggjað útsýni. Svo finnst mér Garðatorgið hafa fengið mjög skemmtilega upp-lyftingu með allri þeirri þjónustu sem þar er að byggjast upp og það er góð stemning að rölta þar um og njóta þess sem þar er boðið upp á.”

Ég tek við frábæru búi af fráfarandi formann

En þú ert orðinn formaður sjálfstæðisfélagsins, einhverjar breytingar með nýjum for-manni? ,,Ég tek við frábæru búi af fráfarandi formanni sem var búin að byggja upp mjög öflugt starf. Mínar áherslur eru einfaldlega að halda áfram á sömu braut með okkar öfluga hópi og byggja ofan á það góða starf sem hér hefur verið unnið. Við erum öll sammála um að vilja efla samstarf milli okkar og ungra Sjálfstæðismanna í bænum, svo viljum við einnig efla samstarf við bæjarfulltrúana okkar og þingmenn enn frekar. Við verðum með fasta laugardagsfundi í vetur sem verða auglýstir á samfélagsmiðlunum okkar, Facebook síðunni okkar Sjálfstæðisfélag Garðabæjar og á vefsíðunni okkar gardar.is. Ég hvet fólk til að kynna sér viðburðina okkar og mæta og taka þátt. Þetta er mjög skemmtilegt starf, auk þess sem margar hendur vinna svo miklu léttara verk. Ungir sjálfstæðismenn eru líka að fá nýjan formann núna og það er mikill hugur í ungu fólki í bænum.”

Sigríður hefur starfað við mannauðsmál í fjórtán ár. ,,Í sumar var ég að sofna mitt eigið fyrirtæki, SAGA Competence. Þar er ég að bjóða upp á alhliða árangursþjálfun fyrir fyrirtæki og einstaklinga og styðja við fólk í að þróa starfshæfni sína til að geta verið besta útgáfan af sjálfum sér á vinnustaðnum og í einkalífinu alla daga,“ segir hún, en Sigríður starfaði hjá Póstinum áður en hún stofnaði sitt eigið fyrirtæki.

Búið að skipuleggja fullt af viðburðum fram að kosningum

Og þú ert kosin til eins árs svo þú verður formaður þegar sveitarstjórnarkosningarnar fara fram í maí á næsta ári – undirbúningur að hefjast og mikil vinna framundan? ,,Það mikil vinna í gangi núna enda þingkosningar á næsta leyti. Stjórn Sjálfstæðisfélags Garðabæjar er mjög öflug og við viljum styðja vel við okkar frambjóðendur og erum því búin að skipuleggja fullt af viðburðum fram að kosningum. Viðburðina er að finna á facebook síðunni okkar og á xd-gardar.is. Við hvetjum Garðbæinga til að mæta og kynna sér málin og eiga spjall við frambjóðendur okkar í suðvestur kjördæmi. Svo þegar Alþingiskosningum lýkur þá tekur við undirbúningur fyrir sveitastjórnarkosningarnar og það verður líka mjög spennandi verkefni. Þannig að það er nóg að gera og við erum sannarlega til í að fá sem flesta bæjarbúa með okkur í þessi skemmtilegu verkefni.”

Mun ekki sækjast eftir að verða kjörinn fulltrúi

Stefnir þú á að komast á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar? ,,Haha, góð spurning, en svarið við henni er einfalt. Ég elska að vinna í grasrótinni, í félagastarfinu með öllu því frábæra fólki sem hér er. Ég er búin að taka eitt kjörtímabil á Akranesi sem kjörinn fulltrúi og forseti bæjarstjórnar það var frábært að öllu leyti. Ég mun þó ekki sækjast eftir að verða kjörinn fulltrúi aftur, en verð þeim mun öflugri í grasrótinni og að styðja við það flotta fólk sem starfar í framlínunni. Þar liggur áhuginn minn fyrst og fremst núna.”

,,Ég og Gísli keyptum Buggy bíl í vor og það er klárlega geggjað áhugamál sem við deilum bæði.“

Buggy bíl er klárlega geggjað áhugamál

Þú hefur greinilega mikin áhuga á sveitarstjórnarmálum, en áttu einhver önnur áhuga-mál sem þú stundar? ,,Við Gísli keyptum okkur Buggy bíl í vor og það er klárlega geggjað áhugamál sem við deilum bæði. Við erum búin að vera dugleg að fara í sumar í alls konar reisur og elskum það. Maður sér landið sitt með alveg nýjum augum með þessum ferðamáta. Við elskum að fara í veiði og svo dró Gísli mig með sér á skíði líka eftir margra ára hlé og það fíla ég vel. Það sem á hug minn allan þessa dagana tengist starfinu mínu, en ég hef starfað við mannauðsmál í fjórtán ár og í sumar var ég að sofna mitt eigið fyrirtæki, SAGA Competence. Þar er ég að bjóða upp á alhliða árangursþjálfun fyrir fyrirtæki og einstaklinga og styðja við fólk í að þróa starfshæfni sína til að geta verið besta útgáfan af sjálfum sér á vinnustaðnum og í einkalífinu alla daga. Meðvirkni á vinnustað er til dæmis mál sem er mér afar hugleikið og fyrirtæki leita mikið til mín með ráðgjöf og fræðslu í þeim efnum. Það er til svo mikils að vinna að hafa tól og tæki til að greina greina meðvirknimynstur sem hafa skapast og finna leiðir til að uppræta meðvirkni á vinnustað fyrir fullt og allt. Svo það má segja að vinnan mín sé líka áhugamál sem ég lifi fyrir og virkilega spennandi verkefni í gangi þar líka. Samhliða þessu er ég dugleg að rækta bæði líkama og sál svo ég á mér áhugamál á alls konar vettvangi.”

Magnað að finna alla orkuna og gleðina sem ríkir í fólki

En á næstu mánuðunum mun sjálfsagt einhverjir klukkutímarnir fara í vinnu fyrir sjálfstæðisfélagið og í undirbúning fyrir kosningarnar? ,,Já, heldur betur! Við vorum með flokkráðs- og formannafund, eins konar minilandsfund, hjá Sjálfstæðisflokknum á laugardaginn út um allt land og það var magnað að finna alla orkuna og gleðina sem ríkir í fólki. Við í stjórninni hér í Garðabæ erum alveg með puttann á púlsinum ef svo má segja og göngum glaðbeitt inn í veturinn, með tvennar kosningar framundan. Þetta eru skemmtilegir leikir að spila og gaman að vinna í grasrótarstarfi sem kemur bæði þjóðinni og bæjarfélaginu okkar vel. Þetta er vinna sem er bæði skemmtileg og gefandi, þó hún sé líka krefjandi á stundum, en markmiðið er alltaf að efla bæinn okkar og kjördæmið í víðum skilningi,” segir Sigríður að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar