Fasteignamat sérbýla hækkar um 14% í Garðabæ

Samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2022 hækkar heildarmat fasteigna í Garðabæ mikið á milli ára. Fasteignamat sérbýla í Garðabæ hækkar að meðaltali um 14% og fjölbýla um 9,2% á milli ára sem er langt yfir heildarmati fasteigna á landinu öllu fyrir árið 2022, sem er 7,4%. Fasteignamatið hækkaði að meðaltali um 2,1% í fyrra (árið 2021) á landinu öllu og því hækkar matið margfalt meira fyrir árið 2022.

Ef eingöngu höfuðborgarsvæðið er tekið þá hækkar matið fyrir það um 8% fyrir árið 2022, sem er langt undir hækkuninni í Garðabæ.

Hvað þýðir þetta fyrir bæjarbúa?

En hvað þýðir þetta fyrir íbúa í Garðabæ því hækkun á fasteignamati þýðir að óbreyttu hækkun fasteignagjalda fyrir eigendur íbúða- og atvinnuhúsnæðis í bærnum.

Munum ræða þessi mál ítarlega

Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ

Eru fasteignagjöldin í Garðabæ fyrir árið 2022 að hækka í sama hlutfalli og fasteignamatið? ,,Undanfarin ár höfum við lækkað álagningarprósentuna til móts við hækkun matsins og það í mörgum tilfellum þýðir að íbúar eru að greiða sömu krónutölu og árið á undan. Þar sem matið hækkar ekki jafnt yfir bæinn í heild getur það gerst að við náum ekki að jafna þetta alveg út. Við munum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 ræða þessi mál ítarlega,” segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri Í Garðabæ aðspurður hvernig og hvort Garðabær muni bregðast við hækkandi fasteignamati fyrir árið 2022

Vinsælt að búa í Garðabæ

En hvað veldur þessari miklu hækkun á fasteignamati í Garðabæ að þínu mati sem er töluvert mikið hærri en meðalhækkun á höfuðborgarsvæðinu? ,,Mikil fjölgun íbúa hefur átt sér stað á undanförnum árum í Garðabæ, sennilega sú mesta á höfuðborgarsvæðinu. Garðabær er vinsæll og greinilegt að fjölskyldur vilja búa í okkar ágæta bæ og njóta okkar þjónustu,” segir Gunnar.

Mynd. Fasteignamatið fyrir sérbýli á Flötunum og Urriðaholti hækka mest miðað við önnur hverfi í Garðabæ, um 17%

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar