Jónsmessugleði í Sjálandi

Myndlistarsýning með listviðburðum við Strandstíginn í Sjálandshverfi, Garðabæ 24. júní kl. 19.30-22

Jónsmessugleði Grósku verður haldin í tólfta sinn fimmtudaginn 24. júní kl. 19.30-22 með þemanu „leiktjöld litanna“. Fjölbreytileg og sérlega litrík listaverk verða til sýnis við Strandstíginn í Sjálandshverfi Garðabæjar og að þessu sinni stendur sjálf myndlistarsýningin yfir fram til sunnudagsins 27. júní kl. 18. 
Auk sýningarinnar verða alls konar listviðburðir á dagskrá: Upplestur, tónlist og söngur, dans, leiklist og fleira. Að venju lýkur Jónsmessugleði Grósku svo með óvæntum gjörningi í lok kvöldsins.

Mynd eftir Árný Björk Birgisdóttur

Ylströnd með fallegri sjávarsýn myndar hrífandi vettvang fyrir Jónsmessugleði og einkunnarorðin gefum, gleðjum og njótum slá tóninn fyrir kraftmikið glaðvært andrúmsloft kvöldsins. Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, stendur fyrir Jónsmessugleði í samstarfi við Garðabæ en auk félaga úr Grósku taka gestalistamenn frá Vestmannaeyjum, Rangárþingi, Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík þátt í sýningunni. Viðburðaþátttakendur koma einnig hvaðanæva að. Jónsmessugleði er fyrir fólk á öllum aldri og ungir sem aldnir láta ljós sitt skína.

Leikdanssýning Drauma
Gjörningur eftir Osk Laufdal

Gróska sem var stofnuð í framhaldi af fyrstu Jónsmessugleði sem haldin var fyrir tólf árum hefur fest sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar með árvissum og einstökum viðburðum og hlaut viðurkenningu Garðabæjar árið 2019 fyrir merkt framlag til menningar og lista. Þegar faraldurinn geisaði árið 2020 þurfti að aflýsa Jónsmessugleði en nú er Gróska aftur mætt til leiks.
 
Allir eru velkomnir á Jónsmessugleði Grósku, Garðbæingar jafnt sem aðrir. Fólk er hvatt til að virða fjarlægðarmörk en klæðast litríkum fötum og höttum og gera einkunnarorð Grósku að sínum með því að gefa, gleðja og njóta meðan það þræðir Strandstíginn milli „leiktjalda litanna“. 

Ljósmyndir tók Nanna Guðrún.

Samkvæmisdans ´á

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar