Farsæld – foreldrahlutverk og samvera. Forvarnavika Garðabæjar 5.-12. október 2022

Forvarnavika Garðabæjar verður haldin í sjöunda sinn dagana 5.-12. október 2022. Markmið forvarnavikunnar er að vekja athygli á mikilvægum og fjölbreyttum þáttum í forvarnarstarfi. Garðabær vill með forvarnavikunni styrkja og efla forvarnir í bænum, auka fræðslu, þekkingu og vitund Garðbæinga um lýðheilsu, samfélagið og nauðsynlegar forvarnir á ýmsum sviðum. Með víðtækri þátttöku í forvarnavikunni nýtum við þau sóknarfæri að gera vel í forvarnarmálum og stuðlum að heilbrigði Garðbæinga á öllum aldri á markvissan hátt.

Víðtæk samvinna samfélagsins

Forvarnavikan er verkefni sem hófst í grunnskólum bæjarins árið 2016. Verkefnið hefur vaxið að umfangi með ári hverju en strax á öðru ári bættust leikskólarnir við. Í kjölfarið fylgdu ýmsar stofnanir og félög í bænum og fyrir nokkrum árum var sérstaklega leitað til eldri borgara og ungmennaráðs í því skyni að sem flestar raddir heyrðust í forvarnavikunni.

Það er að mínu áliti afskaplega mikilvægt að samfélagið allt komi að forvarnarmálum enda varða forvarnir bæjarbúa alla og verða þeim mun áhrifameiri ef allt samfélagið tekur höndum saman og vinnur að þeim sem ein heild. Höfum það hugfast, að þó forvarnavikan sé árlegt átaksverkefni, sem sett er af stað í því skyni að vekja vitund og efla fræðslu, að þá eru forvarnir viðfangsefni allra á hverjum einasta degi allt árið um kring.

Farsæld – foreldrahlutverk og samvera

Þema forvarnavikunnar í ár er „farsæld“ með áherslu á foreldrahlutverk og samveru. Rannsóknir hafa sýnt að jákvæð samvera foreldra og barna hefur mikið forvarnargildi fyrir börn og ungmenni og skapar þeim öryggi. Foreldri sem gefur sér tíma í að njóta samveru með barni sínu, styrkir sjálfsmynd þess og eykur sjálfstraust með því að leyfa því að finna fyrir nálægð og umhyggju. Samvera fjölskyldunnar getur verið besta forvörnin í lífi sérhvers barns.

Fjölbreytt dagskrá forvarnaviku

Í forvarnavikunni verður boðið upp á fræðsluerindi fyrir foreldra yngstu barna í leikskólum um kærleiksríkt uppeldi leikskólabarna. Ragnhildur Gunnlaugsdóttir, sérkennslustjóri í leikskólanum Krakkakoti, og Þórey Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri leikskólastigs í Urriðaholtsskóla, flytja fræðsluerindið þrisvar; þriðjudaginn 4. október kl. 20 í Álftanesskóla, mánudaginn 10. október kl. 20 í Urriðaholtsskóla og miðvikudaginn 12. október kl. 19 í Sveinatungu á Garðatorgi.

Í grunnskólunum verður sérstök áhersla lögð á foreldrahlutverkið, en heimsfaraldur Covid-19 kom niður á möguleikum foreldra til að taka þátt í námi barna sinna og þess góða starfs sem fram fer í skólunum okkar. Grunnskólarnir munu í samráði við foreldrafélög skipuleggja samveru í skólum með ýmsu sniði eftir árgöngum og skólum.

Í öllum skólum verður unnið að bekkjarsáttmálum þar sem áhersla verður lögð á gildi skólanna, vellíðan og virkni. Með sáttmálunum verður að því stefnt að virða hvíldartíma barna og útivistartíma, samræma rafrænan útivistartíma og fylgja eftir sameiginlegum áherslum í samskiptum milli einstaklinga. Skipulagðir verða sérstakir bekkjarfundir og þannig stuðlað að lýðræðislegri þátttöku nemenda í skólastarfinu og unnið að því markmiði að skapa góðan bekkjaranda, að nemendur fái tækifæri og þjálfun til að tjá sig og eiga hlutdeild í skólastarfinu.

Félagsmiðstöðvarnar í grunnskólunum verða með fjölbreytta dagskrá. Garðahraun, sértæk frístund fyrir börn með sérþarfir, stendur fyrir fræðslu fyrir foreldra 12. október kl. 17 í hátíðarsal Álftanesskóla, þar sem einblínt verður á hvernig hægt er að stuðla að farsæld og samveru fyrir fjölskyldur þar sem bæði fötluð og ófötluð börn eru á heimilinu. Einnig mun Fjölbrautaskólinn í Garðabæ vera með fjölbreytta dagskrá í tilefni vikunnar.

Útivistarreglur og hjálmanotkun

Seglar með upplýsingum um útivistarreglur barna verða sendir út í bréfpósti til foreldra allra barna í 8. bekk í Garðabæ frá íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar. Íþrótta- og tómstundaráð vill einnig hvetja foreldra sérstaklega til að setja börnum sínum rafrænan útivistartíma og mikilvægt er að foreldrafélög í bekkjum ræði sín á milli um sameiginlegar áherslur í þeim efnum. Að sama skapi vill íþrótta- og tómstundaráð hvetja foreldra til að ræða við börnin sín um hjálmanotkun á vespum og rafhlaupahjólum. Mikið hefur borið á óábyrgri notkun barna og ungmenna á farartækjunum og vill ÍTG hvetja foreldra til að ræða hættur sem fylgja slíkri notkun.

Tökum þátt – vinnum saman að heilbrigðu samfélagi!

Fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar vil ég hvetja alla bæjarbúa til að vinna saman að heilbrigðu samfélagi. Hugum sérstaklega að samveru fjölskyldunnar og treystum þannig forvarnir í lífi barnanna okkar. Dagskrá forvarnaviku Garðabæjar má finna á vef bæjarins, gardabaer.is, og einnig má sjá upplýsingar á vefjum skólanna. Ég vil þakka sérstaklega þeim fjölmörgu aðilum sem hafa lagt sig fram við að undirbúa áhugaverða, fræðandi og skemmtilega dagskrá fyrir forvarnavikuna okkar árið 2022.

Hrannar Bragi Eyjólfsson
formaður íþrótta- og tómstundaráðs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar