Farsæld er grundvöllur framsækni – ný menntastefna

Menntastefna Garðabæjar 2022-2030 hefur nú litið dagsins ljós. Eldri stefna sveitarfélagsins var endurskoðuð og var það gert í víðtæku samráði við börn í leik-, grunn- og tónlistarskólum, starfsfólk, kjörna fulltrúa, forráðamenn og bæjarbúa. Einnig voru kallaðir til sérfræðingar í stefnumótun og skólamálum ásamt því að stefnan var kynnt í nefndum og ráðum sveitarfélagsins.
Yfirskrift stefnunnar er farsæld og framsækni en skólasamfélagið í Garðabæ byggir á þeirri hugmyndafræði að farsæld sé grundvöllur framsækni. Þannig er áhersla lögð á heilbrigða sjálfsmynd, jákvæða hugsun og farsæl samskipti meðal barna og ungmenna.

Í stefnunni eru listuð upp nokkur yfirmarkmið skólastarfs í Garðabæ. Hlutverk hvers skóla og hluti af sjálfstæði hans er að móta aðgerðaráætlun á grunni skólastefnunnar og setja þar fram undirmarkmið og þær leiðir sem farnar verða að markmiðum stefnunnar. Stefnunni er svo fylgt eftir í aðgerðar- og starfsáætlunum skólanna, með gátlista og mælaborði sem mælir lykilþætti.
Áhersla lögð á lýðræðislegt samstarf

Menntastefna Garðabæjar tekur mið af þeim fjölmörgu lagabálkum og stefnum sem gilda um og taka til skólastarfs og tengdrar þjónustu eins og nýrrar menntastefnu stjórnvalda, aðalnámskrám grunn- og leikskóla og öðrum verkefnum.

Stefnan tekur mið af þáttum Heilsueflandi samfélags sem Garðabær er aðili að en markmið þess verkefnis er að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Þá tekur menntastefnan jafnframt mið af innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi í gegnum verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Unnið verði í takt við áhersluþætti Barnasáttmálans um lýðræði og réttindi barna. Áhersla verður lögð á lýðræðislegt samstarf, sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Þá er leitast við að láta alla stefnumótun sveitarfélagsins taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmið stefnunnar eru samofin og samverkandi en mikil tenging er við menntastefnu stjórnvalda, þá sérstaklega markmið um menntun fyrir alla og markmið um heilsu og vellíðan.

Nýja menntastefnu Garðabæjar má finna á vef Garðabæjar, gardabaer.is og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér hana.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar