Undrandi og um leið ótrúlega stoltur

Leikarinn Guðjón Davíð Karlsson er Bæjarlistamaður Kópavogs 2022. Valið var tilkynnt í Gerðarsafni fimmtudaginn 19. maí.  Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi bauð gesti velkomna og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs kynnti tilnefningu bæjarlistamanns. Páll Marís Pálsson varaformaður lista- og menningarráðs færði Guðjóni svo viðurkenningarskjal og blómvönd.
 
„Við hjá Kópavogsbæ erum afar stolt af vali á bæjarlistamanni Kópavogs 2022, listamanninum, Guðjón Davíð Karlssyni, sem er vel að titlinum kominn. Hann er ekki einungis einn af eftirlætis leikurum þjóðarinnar heldur hefur hann skipað sér sess sem handritshöfundur fyrir leikhús og sjónvarp og leikstýrt með eftirminnilegum hætti leikritum og sjónvarpsþáttum. Hann hefur verið fastráðinn við stærstu leikhús þjóðarinnar, heillaði ungmenni landsins þegar hann sá um Stundina okkar og mun nú deila hæfileikum sínum með Kópavogsbúum á komandi mánuðum. Við hlökkum innilega til samstarfsins með Guðjóni Davíð næsta árið,“ sagði Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi um valið á bæjarlistamanni 2022.
 
Bæjarlistamaður Kópavogs skal vera tilbúinn til að vinna með Kópavogsbæ að því að efla áhuga á list og listsköpun í bænum og taka þátt í viðburðum bæjarins með það að leiðarljósi. Styrkupphæð bæjarlistamanns er 1,5 milljónir króna.  Guðjón Davíð Karlsson tekur við keflinu af Sunnu Gunnlaugsdóttur tónlistarmanni.
 
Guðjón Karl sagði af þessu tilefni: „Ég var virkilega undrandi þegar ég fékk símtalið og mér boðið að vera bæjarlistamaður Kópavogs. Undrandi og um leið ótrúlega stoltur, ánægður, upp með mér og ekki síst fullur þakklætis. Ég er gríðarlega spenntur að fá að vinna með Kópavogsbæ að einhverju einstaklega sniðugu og skemmtilegu verkefni. Menningarlífið er blómlegt í Kópavogi og nú er bara að setja sér það markmið að efla það enn frekar á komandi árum. Takk Kópavogur fyrir þessa viðurkenningu.“

Páll Marís, Guðjón Davíð (Gói), Ármann Kr. og Soffía
Góa var vel fagnað
Fjölskylda Góa
Jón Ólafs, Ingibjörg, Elísabet og Sigga fögnuðu með Góa
Guðjón Davíð (Gói), ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Ýr, er hann tók við viðurkenningunni í Gerðarsafni sl. fimmtudag
Katrín Halldóra söng.
Þjóðleikhússtjóri, Magnús Geir Þórðarson, fagnaði með Guðjóni Davíð

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar