Erum í dauðafæri til að byggja félagið upp enn frekar

Ungmennafélagið Álftanes hefur farið með himinskautum í 1. deild karla í körfuknattleik sem af er vetri en liðið trónir á toppi deildarinnar nú þegar jólahátíðin gengur í garð. Álftanes hefur aðeins tapað einum leik af 13 í deildinni og er heilum sex stigum á undan Hamri, sem á þó einn leik til góða, þegar deildin er hálfnuð.
Kjartan Atli Kjartansson fyrrum körfuknattleiksmaður og þjálfari, sem er einnig þekktur sem fyrir störf sín á sport- rásum Stöðvar 2, tók við liðinu fyrir tímabil, en Kjartan gjörþekkir allar aðstæður hjá félaginu enda uppalinn á Álftanesi, lék með liðinu í yngri flokkunum og í meistaraflokki í lok ferils síns.

Við byrjuðum því að spyrja Kjartan Atla hvernig það hafi verið fyrir heimamanninn að taka við uppeldisliðinu sinu í maí í fyrra, þú hefur verið tilbúinn að stökkva á þetta án umhugsunar þegar starfið bauðst? ,,Þegar ég var ungur Álftnesingur voru körfuboltaæfingar einu sinni í viku og aldrei keppt. Ég fór því í Hauka 11 ára og steig þar mín fyrstu skref í „alvöru“ körfubolta. Liðið okkar var feykilega sterkt, tapaði ekki leik í rúmt ár og við urðum tvisvar Íslandsmeistarar.
Á þessum árum var Álftanesskóli ekki með unglingadeild og fórum við af nesinu í Garðaskóla er í 8. bekk var komið. Þá lá beinast við að skipta úr Haukum yfir í Stjörnuna og þar var ég hluti af sterkum árgangi sem vann fyrsta bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitil í sögu Stjörnunnar.
Á þessum tíma bjuggum við fjölskyldan enn á Álftanesi og þegar ég var 17 ára og bróðir minn 11 ára var ákveðið að ég myndi þjálfa hann og vini hans, sem voru flestir árinu eldri. Ég skráði þá fyrsta lið Álftaness til leiks á Íslandsmótið í körfubolta, árið 2001. Þar hófst þjálfaraferill minn. Í stað þess að keppa í bláu, eins og Álftanes hefur alltaf gert, vorum við í silfurlituðum búningum. Ástæðan er einföld, ég fékk þá á útsölu í Intersport, svo fórum við í Olís í Garðabæ, keyptum rafvirkjateip og bjuggum til númer. Svona redduðum við þessu,” segir hann brosandi er hann hugsar til baka.

Fleiri áhorfendur á Álftanesi en hjá mörgum Subway-deildar liðum

Og svo býrðu náttúrulega í Garðabæ og því stutt að fara í vinnuna sem hefur auðveldað ákvörðunina að taka við meistaraflokki Álftaness, eða hvað spyr blaðamaður Kjartan í léttum tóni?,,Við getum sagt sem svo að mér þyki alltaf yndislegt að keyra Álftanesveginn,” segir hann brosandi og heldur áfram: ,,En það sem heillaði mig mest við þetta starf er uppbyggingin sem hefur átt sér stað hjá félaginu. Stjórnin er algjörlega mögnuð og hefur byggt félagið mjög skynsamlega upp. Eftir því sem liðið hefur á leiktíðina höfum við líka séð mikinn vöxt í fjölda iðkenda í yngri flokkunum og áhuginn í byggðarlaginu er mikill. Á vef KKÍ má sjá tölur yfir áhorfendafjölda og eru fleiri áhorfendur skráðir á leiki á nesinu en hjá stórum félögum í Subway-deildinni. Byggðin á nesinu mun stækka mikið á næstu misserum og erum við á Álftanesi því í dauðafæri að byggja félagið upp enn frekar. Að taka þátt í svona uppbygg- ingu er afar gefandi og að uppbyggingin eigi sér stað á uppeldisslóðum mínum er draumi líkast.”

Dúi Þór Jónsson, uppalinn Stjörnumaður, kom til UMFÁ frá Þór Akureyri fyrir tímabil og hefur spilað stórt hlutverk með liðinu. Hann leiddi Subway-deildina í stoðsendingum í fyrra. ,,Við Dúi Þór þekkjumst vel, ég þjálfaði hann lengi vel í yngri flokkunum,“ segir Kjartan.

Ekki bara hæfileikar heldur líka samhentur hópur

En þú tókst þó ekki alveg við ónýtu búi í maí sl. því Álftanes gerði atlögu að sæti í Subway-deildinni á síðasta tímabili og fór alla leið í úrslitaeinvígið en tapaði fyrir Hetti. Ertu með sama lið í höndunum og í fyrra eða gerðir þú einhverjar breytingar til að skerpa aðeins á liðinu? ,,Liðið var mjög vel mannað þegar ég tók við, ekki voru bara hæfileikar þarna, heldur einnig samheldinn hópur. Við vönduðum því valið þegar kom að því að bæta við liðið. Í sumar fengum við til okkar þrjá leikmenn sem höfðu reynslu af úrvalsdeild. Dúi Þór Jónsson, uppalinn Stjörnumaður, kom til okkar frá Þór Akureyri. Hann leiddi Subway-deildina í stoðsendingum tímabilið áður en hann kom til okkar. Við Dúi Þór þekkjumst vel, ég þjálfaði hann lengi vel í yngri flokkunum. Svo fengum við Íslandsmeistarann Pálma Geir Jónsson sem kom til okkar frá Val. Pálmi er ofboðslega mikill leiðtogi í eðli sínu, eins og allir sem mæta á leiki hjá okkur hafa séð. Hann þekkir 1. deildina mjög vel, hefur meðal annars unnið hana með Þór Akureyri. Að lokum fengum við til okkar Snjólf Marel Stefánsson frá Njarðvík. Snjólfur var í róteringunni hjá deildarmeisturum Njarðvíkur á síðustu leiktíð, áður en hann meiddist. Hann er enn svolítið að kljást við meiðsladrauginn, en hann fær allan þann tíma sem hann þarf til að ná sér. Snjólfur er mjög hæfileikaríkur leikmaður, sem var úti í Bandaríkj- unum í háskólaboltanum ekki alls fyrir löngu. Rétt fyrir tímabil kom Arnar Geir Líndal til okkar frá Selfossi. Arnar er flottur strákur sem hefur fallið vel inn í hópinn. Svo eftir átta umferðir kom Srdan Stojanovic til okkar, en hann hóf leiktíðina með Selfossi. Srdan er mikill skorarari og skytta góð. Þetta er fjórða leiktíðin hans á Íslandi, en hann hefur tveggja ára reynslu í úrvalsdeild hvar hann var drjúgur í stigaskorun.”

Og var markmiðið jafnvel áður en þú skrifaðir nafn þitt á samninginn að komast í deild þeirra bestu, Subway-deildina? ,,Frá því að þessi uppgangur hófst hefur liðið alltaf tekið skref upp á við. Fyrst úr 3. deild og upp í 1. deild á tveimur leiktíðum. Svo eftir að þangað var komið hefur liðið alltaf endað ofar en tímabilið á undan. Því má segja að það hafi legið beinast við að gera harða atlögu að sæti í Subway- deildinni og gáfum við það út strax að þangað væri stefnan tekin.”

Ef maður vaknar áhyggjulaus þá hefur maður áhyggjur af því!

Og árangurinn fram til þessa í deildinni eru alls engin vonbrigði og sýnir að stjórninni hafi ekki orðið á nein mistök þegar hún fékk þig sem þjálfara. Þið virðist nánast ósnertanlegir og með sex stiga forskot á toppi deildarinnar núna þegar farið er inn í nýtt ár. Þú ert væntanlega ánægður með stöðuna í dag og farið glaður inn í jólahátíðina þótt mótið sé aðeins hálfnað? ,,Ég myndi nú ekki nota orðið ósnertanlegir. Við höfum unnið 12 af 13 leikjum, en ansi margir þeirra verið jafnir. Að sjálfsögðu er það mikill styrkleiki að geta unnið jafna leiki, en við vorum að þróast framan af móti og við vissum að við áttum þó nokkuð inni. Frammistaðan hefur orðið betri, nánast með hverjum leiknum. En í deildinni eru ótrúlega mörg sterk lið og við vitum að tímabilið er einungis hálfnað,” segir hann og bætir við: ,,Sem þjálfari er maður svo alltaf með áhyggjur og ef maður vaknar áhyggjulaus þá hefur maður áhyggjur af því! Þannig að við setjum okkur það markmið að æfa af miklum krafti í jólafríinu undir hand- leiðslu Paul Cota styrktarþjálfara.”

En hver hefur verið lykillinn að þessum góða árangri Álftaness fram til þessa? ,,Tölfræðin segir okkur að strax í upphafi tímabils vorum við sterkt varnarlið. Sóknarleikurinn hefur farið vaxandi eftir því sem liðið hefur á leiktíðina. Breidd í sóknaraðgerðum hefur aukist, leiðum til að skora hefur fjölgað frá því að tímabilið hófst. En fyrst og fremst myndi ég segja að liðið hafi sýnt mikinn karakter og þrautseigju á þessum fyrri helmingi leiktíðarinnar.”

Við ætlum að styrkja okkur með því að styrkja okkur

En hvernig meturðu svo síðari helminginn, eigið þið að geta haldið uppteknum hætti og/eða áttu jafnvel von á að önnur lið styrki leikmannahópinn sinn eitthvað fyrir síðari helminginn? ,,Félagsskiptaglugginn hefur verið opinn frá upphafi tímabils og lokar ekki fyrr en í janúarlok. Undanfarin tímabil hafa lið gert breytingar alveg fram að gluggalokum og það kæmi mér alls ekki á óvart ef við myndum sjá nýja leikmenn. Við Álftnesingar fengum Srdjan til okkar fyrir nokkrum vikum, hann hefur reynst flott viðbót í hópinn. Við ætlum svo að styrkja okkur með því að styrkja okkur. Lyfta og æfa af krafti í jólafríinu. Liðið kom saman í ágústbyrjun og við höfum æft alveg hrikalega vel síðan þá, tökum okkur ekki marga frídaga, erum með hátt tempó á æfingum og virkilega færan styrktarþjálfara.”

Efsta sætið er eftirsóknarvert

Og það er gríðarlega mikilvægt fyrir ykkur að halda efsta sætinu sem gefur ykkur beint sæti í efstu deild og að sleppa við umspilið sem liðið fór í fyrra? ,,Þetta efsta sæti er mjög eftirsóknarvert og okkar stefna er að sjálfsögðu að halda okkur þar. Toppslagirnir í 1. deild eru eiginlega eins og leikir í úrslitakeppninni, því það er svo mikið undir.”

Þannig að þið eruð klárir í seinni umferðina sem hefst 6. janúar nk. Engin meiðsli og eru stífar æfingar yfir jólahátíðina? ,,Liðið verður klárt. Daginn eftir síðasta leikinn okkar fórum við á geggjað jólahlaðborð í Sjálandi og tókum svo helgarfrí, eitthvað sem við höfum ekki gert síðan við byrjuðum æfingar í ágúst. Vissulega eru smávægileg meiðsli í hópnum eins og gengur og gerist. En jólafríið hefur verið nýtt í að koma því í lag.”

Og kitlar það ekki aðeins, eins og staðan er í dag, að þá eru aðeins fjögur lið sem skilja á milli ykkar og nágranna ykkar í Stjörnunni sem leika í Subway-deildinni? ,,Álftanes og Stjarnan eiga í góðu samstarfi,” segir Kjartan ákveðinn er blaðamaður reyndi að komasta að því hvort það væri ekki léttur rígur á milli liðanna tveggja í Garðabæ.

Er Álftaness tilbúið að fara upp í Subway-deildina eða er margt sem þarf að breytast svo liðið eigi raunhæfa möguleika í deild þeirra bestu? ,,Mótið er hálfnað, ef við höldum áfram á þessari braut þá er liðið tilbúið að fara upp í Subway-deildina! Þetta er allt í okkar höndum,” segir Kjartan Atli að lokum en fyrsti leikur liðsins er á móti Fjölni á útivelli þann 6. janúar kl. 19:15.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar